Staðan á Höfða

Hér á Höfða eins og annars staðar í þjóðfélaginu erum við að kljást við Covid. Það eru mikil veikindi meðal starfsmanna okkar og orðið mjög erfitt að manna vaktir.  Þó hafa starfsmenn verið ótrúlega duglegir að taka vaktir en veiran er í mikilli sókn og það hefur mikil áhrif hér innanhúss.

Einnig er töluvert um smit meðal íbúa Höfða og eru þeir íbúar í einangrun í sínum herbergjum.

Við erum enn sem komið er að halda í einangrun starfsmanna og íbúa í 5 daga eftir greiningu.

Við munum keyra á lágmarksmönnun á öllum hæðum í umönnun næstu daga. Við verðum að forgangsraða verkefnum og leggja áherslu á að geta sinnt daglegum þörfum íbúa en önnur verkefni verða að bíða. Við verðum því að sýna því þolinmæði og skilning á að ekki er hægt að gera allt eins og þegar fullmannað er.

Vonum svo innilega að þessu fari að linna og við getum farið að halda uppi eðlilegri starfsemi eins og áður.

Að öðru leyti er opið fyrir heimsóknir á Höfða milli 13:00 og 18:00 alla daga vikunnar.

Á Höfða er áfram grímuskylda hjá öllum nema íbúum, þannig að allir gestir verða að nota andlitsgrímu ef þeir koma í heimsókn. Grímuskyldan verður við líði a.m.k. meðan við höfum ekki náð hjarðónæmi fyrir veirunni meðal íbúa og starfsmanna.

Sóttkví aflétt-opnað fyrir heimsóknir

Búið er að aflétta sóttkví af Jaðri og Tindi. Einn íbúi á Jaðri verður áfram í einangrun og tveir íbúar á Tindi þurfa að fara aftur í PCR próf og verða í einangrun meðan beðið er eftir niðurstöðum.

Við hvetjum aðstandendur og gesti til að takmarka heimsóknir eins og kostur er meðan versta bylgjan af faraldrinum gengur yfir. Því færri smitleiðir því betra fyrir íbúa á Höfða.

Við þökkum fyrir skilninginn og góðar kveðjur.

Stjórnendur Höfða

Lokanir á Höfða

Nú um stundir erum við stödd í miklum ólgusjó þar sem veirufaraldurinn skellur á okkur á fullum þunga eftir að stjórnvöld gáfu veirunni lausan tauminn.

Nú um helgina hafa komið upp tvö tilfelli um rökstudd smit, með jákvæðum hraðprófum, meðal íbúa Höfða.    Af þeim orsökum eru tvær deildir á Höfða komnar í sóttkví og er lokað fyrir heimsóknir bæði á Jaðri og Tindi.  Allir íbúar á þessum deildum fara í PCR próf í dag og verða deildirnar í sóttkví meðan beðið er niðurstöðu þeirra prófa. 

Auk þess höfum við verið að glíma við að þó nokkrir starfsmenn hafa greinst með veiruna og eru í einangrun. Það hefur verið erfitt að manna vaktir að undanförnu og mikið álag á starfsfólki.  En það vinnur bara harðduglegt fólk á Höfða og bæði hefur starfsfólk hlaupið hraðar ef það vantar á vaktina og eins mætt á aukavaktir og lagt allt annað til hliðar.

Það má búast við að næstu vikur verði mjög erfiðar en við vonum það besta en búum okkur undir að hér eins og annars staðar í þjóðfélaginu geti veiran stungið sér niður.

Við munum eins og hingað til berjast af fullu afli gegn henni og gera allt sem í okkar valdi stendur til að verja íbúa Höfða fyrir þeim vágesti þó svo leikurinn sé ójafn þessa stundina.

Kær kveðja,

Stjórnendur Höfða

SÓTTKVÍ AFLÉTT – OPNAÐ FYRIR HEIMSÓKNIR Á YTRA HÓLMI

Niðurstöður PCR sýnatöku íbúa á Ytra Hólmi liggja fyrir og voru þær allar neikvæðar. Einn íbúi er þó áfram í einangrun. Því hefur sóttkví á Ytra Hólmi verið aflétt og opnað aftur fyrir heimsóknir.

Munið að sýna ýtrustu varkárni og virða sóttvarnarráðstafnir í heimsóknum. Við þurfum öll að hafa í huga persónulegar sýkingavarnir s.s. handþvott og handsprittun.

Kær kveðja,

Stjórnendur Höfða

Lokað fyrir heimsóknir á Ytri Hólmi

Vegna gruns um Covid smit er Ytri Hólmur er kominn í sóttkví til 28. janúar. Þann dag verður tekið PCR próf af öllum íbúum.

Deildin er því lokuð og engar heimsóknir leyfðar. Eingöngu starfsmenn á vakt hafa heimild til að koma inn á deildina. 

Starfsmenn og íbúar á Hólmi hafa sýnt mikið æðruleysi og skilning í þessum aðstæðum.

Stjórnendur Höfða

Sóttkví aflétt – opnað fyrir heimsóknir á Ytra Hólmi

Niðurstöður PCR sýnatöku íbúa á Ytra Hólmi liggja fyrir og voru þær allar neikvæðar. Því hefur sóttkví á Ytra Hólmi verið aflétt og opnað aftur fyrir heimsóknir frá og með kl. 13. í dag.

Munið að sýna ýtrustu varkárni og virða sóttvarnarráðstafnir í heimsóknum. Við þurfum öll að hafa í huga persónulegar sýkingavarnir s.s. handþvott og handsprittun.

Kær kveðja,

Stjórnendur Höfða

Lokað fyrir heimsóknir á Ytri Hólmi

Uppfært 9.1.22:

Kæru aðstandendur heimilisfólks á Ytri Hólmi.

Vegna staðfests smits í starfsmannahópi á fyrstu hæð verður Ytri Hólmur í sóttkví út 11.janúar. Heimilið(deildin) er því lokað og einungis starfsmenn á vakt þar sem koma þangað inn.

Sem betur fer er enginn íbúi með einkenni og reynt er að gera gott úr aðstæðunum.

Við þökkum hlýjar kveðjur og skilning.

Stjórnendur Höfða.

7.1.22:

Kæru aðstandendur heimilisfólks á Ytri Hólmi.

Vegna gruns um Covid smit meðal starfsmanna á Hólmi verður Ytri Hólmur í sóttkví a.m.k. fram á mánudag.

Lokað verður fyrir heimsóknir þangað á meðan.

Íbúar og starfsmenn halda sig inn á heimilinu(deildinni) á meðan á þessu stendur.

Pössum einstaklingsbundnar sóttvarnir og förum varlega.

Frekari upplýsingar verða sendar út eftir því sem málin skýrast.

Þökkum kærlega fyrir skilninginn.

Með vinsemd,

Stjórnendur Höfða

Heimsóknarreglur frá 23.des.21

Nú þegar jólahátíð gengur í garð viljum við upplýsa íbúa og aðstandendur um breytingu á heimsóknarreglum vegna fjölgunar smita og nýrra takmarkana í samfélaginu.  Heimilið verður áfram opið eins og verið hefur milli kl. 13:00 og 18:00 alla daga vikunnar nema með eftirtöldum undantekningum um hátíðisdagana:  Aðfangadag, jóladag, annan í jólum, gamlársdag og nýársdag verður opið fyrir heimsóknir á milli 13:00 – 17:00 og svo aftur frá 19:30 – 22:00.

Eftirfarandi reglur gilda frá 23.desember uns annað verður tilkynnt: 

  • Heimilið er opið fyrir heimsóknir á milli 13:00-18:00 alla daga vikunnar. Sjá undantekningar um hátíðisdagana hér að ofan.
  • Grímuskylda- ALLIR gestir þurfa að bera andlitsgrímu meðan þeir eru inni á heimilinu, líka inn á herbergjum íbúa.  Ekki er heimilt að vera með margnota grímur.
  • Stjórnendur Höfða biðla til ættingja og gesta að komi ekki fleiri en tveir í heimsókn í einu og að sömu aðilar komi í heimsókn nokkra daga í röð og skipti svo við aðra.  Því færri sem ganga um heimilið því betra.
  • Við biðlum til óbólusettra, þ.m.t. barna, að koma ekki í heimsókn að svo stöddu.
  • Ekki er heimilt að nýta sameiginleg rými eins og setustofur og borðstofur til heimsókna. 
  • Virða skal 2ja metra regluna í samskiptum við starfsfólk.
  • Íbúum er áfram heimilt að fara út í garð og í gönguferðir með sínum nánustu, en einnig er heimilt að fara með íbúa út af heimilinu í bílferðir eða heimsóknir. Við biðlum til íbúa, aðstandenda og annarra gesta að fara ekki í mannfagnaði eða aðrar samkomur með íbúa.
  • Fullbólusettir aðstandendur sem dvalið hafa erlendis– eins og áður mega þeir koma í heimsókn að höfðu samráði við stjórnendur deilda og að því tilskyldu að þeir séu með öllu einkennalausir. Skylt er að hafa farið í skimun eftir að þeir koma til landsins og að niðurstaða liggi fyrir áður en þeir koma í heimsókn.
  • Óbólusettir aðstandendur sem eru að koma erlendis frá mega ekki koma í heimsókn inn á heimilin fyrr en 14 dagar eru liðnir frá heimkomu (undanþágu er hægt að fá í samráði við stjórnendur deildar ef um skyndileg veikindi/lífslokameðferð er að ræða hjá íbúa).
  • Undanþága frá reglum um heimsóknir hverju sinn, er aðeins veitt við mikil veikindi íbúa og þarf leyfi frá vaktstjóra deildar.

Sem fyrr er mikilvægt að hafa í huga að gestir mega ekki koma í heimsókn ef þeir:

  • eru í sóttkví.
  • eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu úr sýnatöku).
  • hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.
  • eru með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang o.fl.).
  • eru með einhver önnur almenn einkenni um veikindi.

Munið að sýna ýtrustu varkárni og virða sóttvarnaráðstafanir í heimsóknum. Við þurfum öll að hafa í huga persónulegar sýkingavarnir s.s. handþvott og handsprittun.

 Með virðingu, vinsemd og ósk um gleðileg jól kæru vinir með þökk fyrir afskaplega góð samskipti á árinu sem er að líða.

Kær jólakveðja,

Stjórnendur Höfða