Höfðingleg gjöf Soroptimista

Níu konur úr Soroptimistaklúbbi Akraness heimsóttu Höfða í dag og afhentu heimilinu að gjöf 2 rafknúna hægindastóla (lyftistóla). Þetta eru afskaplega þægilegir stólar sem hægt er að stilla á ýmsa vegu og munu nýtast vel hér á Höfða.

 

Ingibjörg Sigurðardóttir ávarpaði íbúa og starfsmenn. Hún kynnti klúbbinn og markmið soroptimista sem er að vinna að bættri stöðu kvenna, gera háar kröfur til siðgæðis, vinna að mannréttindum, jafnrétti, framförum og friði.

 

Soroptimistar skulu beita sér fyrir að veita þjónustu í heimabyggð, heimalandi og á alþjóðavettvangi. Hún gerði grein fyrir ýmsum þörfum verkefnum sem klúbburinn hefur staðið að, bæði hér heima og erlendis.

 

Þá sagði hún að þessi gjöf til Höfða væri í tilefni af 25 ára afmæli klúbbsins.

 

Ása Helgadóttir afhenti síðan framkvæmdastjóra stólana með gjafabréfi. Guðjón Guðmundsson þakkaði konunum þessa höfðinglegu gjöf og bauð þeim til kaffisamsætis með íbúum og starfsmönnum.

Indíánahópur heimsækir Höfða!

Fólk á öllum aldri sækir þær listsýningar sem nú standa yfir á Höfða.

 

Í dag kom Indíánahópur Leikskólans Garðasels í fylgd Guðlaugar Sverrisdóttur leikskólakennara og skoðaði listaverkin. Ræddu þau opinskátt um það sem fyrir augun bar og höfðu gaman af að stúdera listina.

Grunnskólanemar í heimsókn

Í dag heimsóttu nemendur 8.bekkjar BJ í Grundaskóla Höfða í fylgd kennara síns Borghildar Jósúadóttur.

 

Erindið var að skoða þær listsýningar sem nú standa yfir á Höfða, en faðir eins nemandans er einn þeirra listamanna sem sýna verk sín hér á Vökudögum.

 

Unga fólkið hafði gaman af að skoða listaverkin og heilsa upp á þá íbúa Höfða sem urðu á vegi þeirra.

Opið hús – basar

 

Í dag var opið hús á Höfða frá kl. 13-16 í tilefni af 30 ára afmæli Höfða. Mjög margir litu inn. Boðið var upp á skipulagðar skoðunarferðir um húsið í fylgd Helgu Atladóttur hjúkrunarforstjóra.

 

Hinn árlegi Höfðabasar var svo opinn frá kl. 14-16. Gífurleg aðsókn var að basarnum og mikil sala á þeim fallegu vörum sem þar voru í boði.

 

Þá voru hjónin Rakel Jónsdóttir og Björn Gústafsson, íbúar á Höfða, með sölubás þar sem þau seldu fallega muni og skartgripi úr íslensku grjóti sem þau hafa gert á liðnum árum. Mikil sala var á þessu fallega handverki.

 

Boðið var upp á kaffi í samkomusal og þáðu margir sopann, ekki síst þeir sem áttu maka á basarnum.