Höfðafólk heimsækir byggðasafnið

Að undanförnu hefur heimilis- og dagdeildarfólk á Höfða heimsótt Byggðasafnið að Görðum.

Margt gladdi Höfðafólk á byggðasafninu, ekki síst Axelsbúð þar sem menn fengu sér sæti á gamla trébekknum og fengu sér kók úr goskælinum sem var hluti af Axelsbúð um áratugaskeið.

Þessar heimsóknir á byggðasafnið hafa gert mikla lukku, enda er safnið af flestum talið eitt allra besta byggðasafn á landinu.

Starfsfólk dagvistar, þær Emilía P.Árnadóttir, Arinbjörg Kristinsdóttir og Marianne Ellingsen höfðu veg og vanda af þessum heimsóknum.

Iðjuþjálfar í heimsókn

Í gær heimsóttu Höfða 9 iðjuþjálfar af Faxaflóasvæðinu. Þessi faghópur í öldrun hittist nokkrum sinnum á ári til að bera saman bækur sínar.

Ingibjörg Ólafsdóttir iðjuþjálfi á Höfða tók á móti hópnum og sýndi þeim heimilið og kynnti starfsemi sína. Hún bauð þeim síðan í kaffi þar sem rædd voru hin ýmsu mál stéttarinnar.

Spilað og teflt.

Í vetur verður spilað og teflt á Höfða hvern miðvikudag kl. 14-16. Þessi starfsemi hófst í síðustu viku. Ingibjörg og María stjórna þessum spila- og taflfundum. Í dag var vel mætt, spilað á 6 borðum og teflt á einu borði. Létt var yfir fólki við spilamennskuna og góðir taktar sáust á sumum borðum, enda margir spilarar með áratuga reynslu við græna borðið.

Góðir gestir frá Færeyjum

Í dag heimsótti Höfða 10 manna hópur sveitarstjórnarmanna og embættismanna frá Sörvogi, vinabæ Akraness í Færeyjum. Í fylgd með þeim voru 2 fulltrúar Akraneskaupstaðar, Rakel Óskarsdóttir og Hörður K.Jóhannesson.

Gestirnir gáfu sér góðan tíma til að skoða heimilið og hrifust af því sem fyrir augu bar. Að skoðun lokinni snæddu þeir hádegisverð í mötuneyti Höfða og hældu mjög þeim góða mat sem Bjarni bryti og hans fólk bar fram.

Margrét A.Guðmundsdóttir, Guðjón Guðmundsson og Jóhannes Ingibjartsson tóku á móti þessum góðu gestum.