Stefán Bjarnason 100 ára

Í dag fagnar Stefán Bjarnason fyrrum yfirlögregluþjónn á Akranesi og nú íbúi Höfða 100 ára afmæli sínu. Í tilefni dagsins heimsóttu Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri og Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri Höfða Stefán og færðu honum blóm.

Fyrr um morguninn höfðu félagar Stefáns í leikfimishópi á Höfða sungið honum afmælissönginn.

Stefán mun fagna afmælisdeginum með fjölskyldu sinni og vinum.

Íbúar og starfsfólk Höfða óska Stefáni innilega til hamingju með daginn.

Lífeyrisskuldbindingar Höfða heyra sögunni til.

Í dag var skrifað undir samning varðandi útfærslu á yfirtöku ríkissjóðs á lífeyrisskuldbindingum Höfða en Höfði er eitt þeirra heimila sem rekið hefur verið á ábyrgð sveitarfélaga.

Samkomulagið nú miðast við að yfirtaka ríkisins á lífeyrisskuldbindingunum verði afturvirk frá 31. desember 2015.

Fyrir Höfða voru þessar skuldbindingar um einn milljarður króna og fara með þessu samkomulagi alfarið út úr ársreikningum Höfða og mun samhliða því lækka lífeyrisskuldbindingar Akraneskaupstaðar sem því nemur.

Við þetta tækifæri vilja stjórnendur Höfða færa sérstakar þakkir til Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra og Ólafs Adolfssonar formanns bæjarráðs fyrir þeirra þátt í því að lífeyrisskuldbindingar Höfða heyra nú sögunni til.

Jafnréttisstefna Höfða

Á síðasta fundi stjórnar Höfða var tekin fyrir og samþykkt jafnréttisstefna  fyrir Höfða.  Stefnan tekur til starfsmanna, íbúa og aðstandenda þeirra:

Jafnréttisstefna Höfða

Markmið: Markmið jafnréttisstefnunnar er að leggja áherslu á jafnan rétt karla og kvenna til launa, stöðuveitinga, starfa og þátttöku í nefndum og störfum á vegum Höfða innan allra starfsstétta. Starfsmenn Höfða skulu njóta sömu tækifæra, réttinda og starfsaðstæðna óháð kyni, þjóðerni og trúarbrögðum.

Skilgreining: Stefna Höfða í jafnréttismálum er að vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna innan heimilisins. Í áætlunni eru sett upp markmið og viðbragðsáætlanir til að ná þessum markmiðum. Auk þess sem endurskoðun fer reglulega fram. Jafnréttisstefnan er sett fram samkvæmt lögum um jafnan rétt og jafna stöðu karla og kvenna nr. 96/2000.

Launajafnrétti

Konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Með launum í lögum þessum er átt við almennt endurgjald fyrir störf og hvers konar frekari þóknun, beina og óbeina, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða með öðrum hætti, sem atvinnurekandi greiðir starfsmanni sínum fyrir vinnu hans. Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla og að þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun feli ekki í sér kynjamismunun. Með kjörum í lögum þessum er, auk launa, átt við lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur starfskjör eða réttindi sem metin verða til fjár.” 14. grein 96/2000

Markmið: Gæta þess að karlar og konur fái sömu laun og njóti sömu kjara fyrir sambærileg störf.

Framkvæmd: Árleg endurskoðun á launamun með tölfræðilegri samantekt. Leiðrétta laun ef óútskýrður munur er til staðar.

Ábyrgð: Framkvæmdastjóri.

Endurskoðun: Árlega.

Laus störf

Starf sem laust er skal standa opið jafnt konum og körlum.” 15. grein 96/2000.

Markmið: Laus störf á Höfða skulu standa opin bæði fyrir karla og konur

Framkvæmd: Allar auglýstar stöður skulu vera opnar fyrir bæði karla og konur. Samantekt um auglýst störf á hverju ári.

Ábyrgð: Framkvæmdastjóri og hjúkrunarforstjóri.

Endurskoðun: Árlega.

Starfsþjálfun og endurmenntun

”Atvinnurekendur skulu tryggja að konur og karlar njóti sömu möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings öðrum störfum.” 15. grein 96/2000.

Markmið: Tryggja að starfsþjálfun og endurmenntun sé aðgengileg báðum kynjum. Greining á sókn kynjanna í starfsþjálfun og endurmenntunarnámskeið

Ábyrgð: Hjúkrunarforstjóri, deildarstjórar og húsmóðir.

Endurskoðað: Árlega.

Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs

”Atvinnurekendur skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu. Ráðstafanir þær skulu m.a. miða að því að auka sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að tekið sé tillit til þarfa atvinnulífs og fjölskylduaðstæðna starfsmanna, þar með talið að þeim sé auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- eða foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna (force majeure).” 16. grein 96/2000.

Markmið: Sveigjanlegur vinnutími í boði. Auk þess að vinnuskýrslur liggi frammi með réttum fyrirvara vegna áherslu á að samhæfa fjölskyldulíf og vinnutíma.

Framkvæmd: Kynna möguleika á sveigjanlegum vinnutíma. Kynna starfsemi Höfða hvað varðar samhæfingu fjölskyldulífs og vinnutíma.

Ábyrgð: Hjúkrunarforstjóri, deildarstjórar og húsmóðir.

Kynning: Á deildarfundi ár hvert.

Jafnréttisstefna fyrir íbúa og aðstandendur

 Markmið: Stefna Höfða er að allir íbúar og aðstandendur, njóti jafns réttar án tillits til kyns, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, kynhneigðar, litarháttar, efnahags, ætternis, fötlunar, aldurs og stöðu að öðru leyti. Jafnréttisáætlun Höfða er ætlað að vera mikilvægur liður í gæðaumbótum á heimilinu.

Framkvæmd: Allir íbúar og skráðir aðstandendur skulu eiga jafnan aðgang að upplýsingum um starfsemi heimilisins. Komið skal til móts við ólíkar þarfir íbúa og jafnan skal þess gætt að þjónustan og verklag sé miðað við bæði kynin.

Ávallt skal skrá bæði kynin sem aðstandendur þar sem því er við komið til að skapa jafnan rétt aðstandenda til upplýsinga óháð kyni.

Ábyrgð: Hjúkrunarforstjóri og deildarstjóri.

 

Ágreiningsmál

Ef upp kemur ágreiningur vegna jafnréttismála þá er hægt að vísa honum til stjórnar Höfða. Stjórnin kallar inn fleiri ef þurfa þykir til að leysa ágreiningsmál.

Endurskoðun jafnréttisstefnu Höfða

Jafnréttisstefnu ber að endurskoða reglulega til þess að markmið og framkvæmdaáætlanir séu í samræmi við daglegt starf á Höfða. Endurskoða skal jafnréttisstefnuna í lok október hvert ár og oftar ef þurfa þykir. Þessi jafnréttisstefna er unnin eftir lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000 auk þess sem stuðst var við leiðbeiningar við gerð jafnréttisáætlunar frá Jafnréttisstofu frá árinu 2007.