Höfðagleði

Hin árlega Höfðagleði var haldin s.l. föstudagskvöld. Á Höfðagleði mæta íbúar, starfsmenn, fyrrverandi starfsmenn sem hafa hætt vegna aldurs og stjórn Höfða, alls um 170 manns.

 

Boðið var upp á glæsilega þriggja rétta veislumáltíð sem Haukur kokkur og hans fólk í eldhúsinu reiddi fram.

 

Hinn landskunni Ómar Ragnarsson stjórnaði skemmtuninni að þessu sinni og fór á kostum. Hann flutti ótal skemmtiatriði og söng við undirleik Hauks Heiðar.

 

Sigurbjörn Skarphéðinsson söng gamanvísur og Höfðakórinn söng nokkur lög við undirleik Hauks Heiðar. Þá var dregið í happdrætti þar sem íbúar og starfsmenn fengu glæsilega vinninga í boði Einars Ólafssonar kaupmanns.

 

Að lokum var dansað til miðnættis við undirleik Jóns Heiðars Magnússonar, Geirs Guðlaugssonar og Sirrýjar Indriðadóttur.

 

Höfðagleðin tókst vel að vanda og var almenn ánægja með veitingar, skemmtiatriði og músik.

Ljósmyndasýning

Í gær var opnuð á Höfða sýning á ljósmyndum Kristínar Gísladóttur. Myndirnar eru allar til sölu.

 

Fermingarfræðsla

Í dag heimsóttu Höfða 16 ungmenni úr Grundaskóla. Þau eiga að fermast í vor og óskuðu eftir að hitta íbúa Höfða og forvitnast um hvernig undirbúningi og fræðslu var háttað þegar þau voru fermd.

 

Fjórir íbúar Höfða, þau Björn Gústafsson, Gunnvör Björnsdóttir, Kjartan Guðmundsson og Stefán Bjarnason, hittu fjögur ungmenni hver og fræddu þau um hvernig staðið var að fermingu þeirra fyrir mörgum áratugum.

Unga fólkið var í fylgd kennara síns, Hjördísar Grímarsdóttur. Allir sem tóku þátt í þessu spjalli höfðu af því mikla ánægju.

 

Sigríður 100 ára

Sigríður Guðmundsdóttir, sem jafnan er kennd við Hvítanes, á 100 ára afmæli í dag. Sigríður hefur búið á Höfða frá 27.maí 2006 og unir hag sínum vel. Hún mætir á hverjum morgni inn á dagdeild þar sem hún les blöðin og fæst við hannyrðir. Hún mætir reglulega í spilavistina og hefur til skamms tíma fylgst með fótbolta í sjónvarpinu, en margir afkomendur hennar eru landskunnir knattspyrnumenn.

 

Afkomendur Sigríðar halda henni veislu í samkomusal Höfða kl. 16-18 í dag. Íbúar og starfsmenn Höfða senda henni hjartanlegar hamingjuóskir.

 

Á myndinni er Sigríður í stólnum hjá Guðnýju hárgreiðslukonu að morgni afmælisdags.