Færeyskir gestir

Í dag heimsóttu Höfða góðir gestir frá Færeyjum í fylgd Gísla S.Einarssonar bæjarstjóra. Hér voru á ferðinni Heðin Mortensen borgarstjóri í Tórshavn ásamt borgarfulltrúum og mökum.

 

Gestirnir litu inn í nokkrar íbúðir og komu við í mötuneytinu þar sem íbúar voru í kaffi. Þar var þeim vel tekið og margir vildu spjalla við þá um ættingja sína í Færeyjum. Áberandi var hvað íbúar Höfða tóku þessum gestum vel og hvað þeim var hlýtt til Færeyinga.

 

Að lokum drukku svo gestirnir kaffi með framkvæmdastjóra og forstöðukonu þar sem þeim var kynnt starfsemi Höfða. Spurðu þeir margs og sýndu starfseminni mikinn áhuga.

Heimsókn frá Kanada

Í dag heimsóttu Höfða góðir gestir frá dvalarheimilil aldraðra í Vancouver, Höfn Icelandic Harbour, þeir Norman Eyford stjórnarformaður og Erlendur Oli Leifsson stjórnarmaður.

 

Með þeim í för voru tveir Skagamenn, feðgarnir Sigurbjörn Björnsson og Ómar Sigurbjörnsson, en Ómar hefur stundað háskólanám í Vancouver.

 

Gestirnir frá Vancouver skoðuðu Höfða hátt og lágt, litu inn í íbúðir og spjölluðu við íbúana, kynntu sér starfsemi heimilisins og ræddu við starfsmenn. Þeir létu í ljós mikla hrifningu af Höfða og aðbúnaði öllum á heimilinu.

 

Norman Eyford færði Höfða að gjöf vandaða tösku, merkta Höfn Icelandic Harbour og Höfði gaf þeim hina landsþekktu grjónapoka sem hér eru framleiddir.

Keppt í róðri

Hátíð hafsins var haldin á Akranesi um helgina. Meðal skemmtiatriða var kappróður og sendi Höfði í fyrsta sinn róðrarsveit til keppni. Sveitin stóð sig vel undir öruggri stjórn Guðnýjar kapteins og lenti í 2.sæti, en sveit Vignis Jónssonar sigraði.

 

Sveit Höfða skipuðu:

Guðný Aðalgeirsdóttir,

Helga Atladóttir,

Ásta Björk Arngrímsdóttir,

Katrín Baldvinsdóttir,

Sóley Dögg Guðbjörnsdóttir,

Vilborg Inga Guðjónsdóttir og

Fanney Reynisdóttir.

Góðar gjafir

Við hátíðarguðsjónustu á Höfða á hvítasunnudag bárust heimilinu góðar gjafir.

 

Afkomendur hjónanna Guðbjargar Guðjónsdóttur og Guðmundar Jónassonar frá Bjarteyjarsandi gáfu nýtt altari og afkomendur hjónanna Guðveigar Jónsdóttur og Eiríks Jónssonar frá Gröf gáfu nýtt ræðupúlt.

 

Sr. Eðvarð Ingólfsson vígði altarið og ræðupúltið og þakkaði þessar góðu gjafir.

 

Bæði altarið og ræðupúltið voru smíðuð af Þóri Gíslasyni húsgagnasmið í Hafnarfirði.

 

Að athöfn lokinni var boðið upp á veitingar. Þar þakkaði framkvæmdastjóri Höfða fyrir þessar góðu gjafir og þann góða hug sem þeim fylgdi.