Vel heppnuð árshátíð.

Árshátíð starfsmanna Höfða var haldin að Miðgarði s.l. laugardagskvöld. Þetta er í fyrsta skipti sem Höfðafólk heldur sérstaka árshátíð, en fram að þessu hafa starfsmenn tekið þátt í sameiginlegri árshátíð með bæjarstarfsmönnum. Sú árshátið hefur ekki verið haldin s.l. 2-3 ár og tóku þau Unnur Guðmundsdóttir, Sigríður Einarsdóttir og Baldur Magnússon af skarið, skipuðu sig í skemmtinefnd og undirbjuggu árshátíðina.

 

Kristín Einarsdóttir var veislustjóri, hinn landskunni Gísli Einarsson flutti gamanmál og nokkrir starfsmenn tróðu upp með stórgóð skemmtiatriði. Guðmundur Haukur sá um músíkina.

 

Árshátíðin tókst í alla staði einstaklega vel og var mikil ánægja meðal þátttakenda sem hylltu skemmtinefndina fyrir frábær störf.

Söngsystur skemmta.

Í gær mættu þær Sigríður Ketilsdóttir, Friðrika Bjarnadóttir, Hulda Óskarsdóttir og Auður Árnadóttir með gítarana og tóku lagið á hjúkrunardeildinni við frábærar undirtektir íbúanna sem sungu fullum hálsi með þeim stöllum. Þessar heiðurskonur, sem meðal Höfðafólks ganga undir nafninu Söngsystur, koma oft á hjúkrunardeildina og eru miklir aufúsugestir. Hafi þær þökk fyrir.

Músikfundur.

Í gær voru haldnir þverflaututónleikar á Höfða. Nemar úr Tónlistarskóla Akraness léku undir stjórn Patricju B.S. Mochola tónlistarkennara. Tónleikarnir voru vel sóttir og undirtektir mjög góðar.

Vel heppnaður höfðabazar.

Mikil aðsókn var að Höfðabazarnum s.l. laugardag. Fjölbreytt úrval góðra muna vakti mikla aðdáun gesta og rokseldist varningurinn. Gestum var boðið upp á molakaffi og sýningu Íslandsbanka á verkum Blaðaljósmyndarafélags Íslands, sem stendur yfir á Höfða þessa dagana.

Kökukvöld.

Hið árlega kökukvöld var haldið á Höfða í gærkvöldi. Þar koma starfsmenn með kökur og annað góðgæti að heiman og bjóða íbúum hússins til veislu. Voru veitingar sérlega glæsilegar. Margt var til gamans gert; gamanmál, tónlistarflutningur, danssýning og tískusýning þar sem heimilisfólkið var í aðalhlutverki. Þá lék Gísli Einarsson á harmonikku og stjórnaði fjöldasöng. Þessi skemmtun tókst frábærlega, var mjög vel sótt af íbúum og starfsfólki sem skemmtu sér vel. Þetta árlega boð starfsmanna lýsir vel þeim góða anda sem ríkir á Höfða og þeirri vináttu sem er milli starfsmanna og íbúa hússins.

Ljósmyndasýning á Höfða.

Í dag var opnuð á Höfða sýningin myndir ÁRSINS 2004. Sýndar eru 27 myndir frá Blaðaljósmyndarafélagi Íslands, en myndirnar voru sýndar á menningarnótt í Reykjavík s.l. sumar. Íslandsbanki stendur fyrir sýningunni sem er liður í VORDÖGUM sem standa yfir á Akranesi næstu viku.

 

Við þetta tækifæri færði Íslandsbanki Höfða að gjöf um 70 metra af brautum til að hengja á listaverk. Brautirnar verða settar upp á næstunni og munu auðvelda mjög sýningarhald á Höfða. Íslandsbanka eru færðar þakkir fyrir þessa góðu gjöf.