Góður granni

Eins og kunnugt er stendur Dvalarheimilið Höfði í landi Sólmundarhöfða og dregur nafn sitt af höfðanum. Á Sólmundarhöfða voru á árum áður nokkrir bæir en nú er aðeins einn eftir. Þar hefur Sigursteinn Árnason búið síðan hann fæddist í nóvember árið 1915. Í gær var þessi níræði höfðingi að slá túnið sitt með orfi og ljá og gekk rösklega til verks.

Sigursteinn er góður nágranni sem kíkir oft inn á Höfða í kaffisopa og létt spjall við íbúa og starfsmenn. Þá færir hann heimilinu reglulega afbragðs rabarbara sem hann ræktar.

Góð gjöf

3 krakkar komu færandi hendi á Höfða í morgun. Þau héldu hlutaveltu í anddyri Nettó og gáfu Höfða afraksturinn, 4.741 kr.

Þessum ungu Akurnesingum er færðar kærar þakkir fyrir hlýhug í garð Höfða.

Mynd: f.v. Hinrik Már Guðráðsson, Júlíana Karvelsdóttir, Þorbjörg Eva Ellingsen

Blómabeðið skartar sínu fegursta

Stóra blómabeðið sunnan við Höfða skartar sínu fegursta þessa dagana. Elísabet sjúkraþjálfari og Erla aðstoðarmaður hennar komu upp þessu beði fyrir nokkrum árum með aðstoð nokkura íbúa og starfsmanna Höfða. Hafa þær stöllur annast blómabeðið af mikilli natni og alúð í samráði við íbúa hússins.