Vökudagar 2015

IMG_0585

Föstudaginn 30. október kl. 17.00 verða Vökudagar settir á Höfða.

Ásgeir Samúelsson sýnir útskurð, börn af leikskólanum Garðasel verða með ljósmyndasýningu og myndlistarkonurnar Jóhanna Vestmann og Nína Áslaug Stefánsdóttir sýna m.a. olíu- og vatnslitamyndir.

Við opnunina mun Þjóðlagasveit Tónlistaskólans á Akranesi spila og boðið verður upp á léttar veitingar.

Allir velkomnir.

 

Þemavika á Höfða

IMG_1628

Líf og fjör hefur verið á öllum deildum Höfða í vikunni og allir keppst við að skreyta sína deild. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum hefur ríkt mikil hugmyndaauðgi og hart barist um bestu skreytinguna.

Eftir hádegi í dag kom sérstök dómnefnd í heimsókn og tók út skreytingarnar. Dómnefndina skipa Kirstín Benediktsdóttir blómaskreytir, Jón Þórir Guðmundsson garðyrkjufræðingur og Ólöf Una Ólafsdóttir hársnyrtir. Úrslit og verðlaun verða svo kynnt og afhent á árshátíð starfsmanna á laugardagskvöld.

 

Gangurinn minn

Gulli skrýddur er gangurinn minn

sem gleður augað og hressir sinni

ánægju og gleði ég aftur finn

sem eflaust geymist lengi í minni.

 

Kjartan H. Guðmundsson

Íbúi á Jaðri

Sláturgerð á Höfða

IMG_1494

Í gær var unnið í sláturgerð á Höfða með aðkomu íbúa og starfsmanna. Tekin voru 150 slátur. Fólk var einbeitt við sláturgerðina og handtökin fagmannleg og augljóst að margir þeirra sem að sláturgerðinni stóðu hafa tekið slátur allan sinn búskap.

Fyrsta sláturmáltíðin verður framreidd í dag fimmtudag, en slátrið er sívinsæll matur hjá íbúum og starfsfólki Höfða.

Yfirblandari í sláturgerðinni var Sigurlaug Garðarsdóttir.