Vökudagar

Hin árlega menningarhátíð Akurnesinga, Vökudagar, hefst 27.október. Höfði tekur að vanda þátt í Vökudögum og býður upp á aðstandendaþema. Dagskráin er svohljóðandi:

28.október kl. 17:

Pétur Ottesen spjallar á léttum nótum.
Hanna Þóra Guðbrandsdóttir syngur við undirleik
Sveins Arnars Sæmundssonar.

Léttar veitingar.

 

29.október kl. 14:

Tinda tríó (Atli Guðlaugsson, Bjarni Atlason og Guðlaugur Atlason) og Sveinn Arnar syngja

Ármann Jónsson og Erna Dögg Pálsdóttir sýna dansa.

 

28. október kl. 17 – 20 og 29.október kl. 14 -17:

Björn Lúðvíksson sýnir málverk og ljósmyndir.

Mömmur.is sýna hvað þær eru að gera.

Íbúar Höfða; Auður Elíasdóttir, Björn Gústafsson og Ólöf Hjartardóttir selja kort, skartgripi o.fl.

Sláturgerð 2011

 

Í gær stóðu íbúar Höfða í sláturgerð með aðstoð nokkurra starfsmanna. Tekin voru 140 slátur. Fólk var einbeitt við sláturgerðina og handtökin fagmannleg, enda hafa flestir þeir sem að sláturgerðinni stóðu tekið slátur á hverju hausti í áratugi.

 

Sigríður Guðmundsdóttir mætti að vanda í sláturgerðina, en hún er 101 árs gömul og hefur yfir 90 ára reynslu af sláturgerð.

 

Létt var yfir öllum við sláturgerðina, lagið tekið og augljóst að allir höfðu gaman af verkefninu.  Fyrsta sláturmáltíðin verður framreidd á morgun, en slátrið er alltaf jafn vinsæll matur hjá íbúum og starfsfólki Höfða.

 

Yfirblandari í sláturgerðinni var sem endranær Svandís Stefánsdóttir.

Sungið á Höfða

 

 

Undanfarna fimmtudaga hefur Elísabet Karlsdóttir komið með gítarinn sinn á Höfða og sungið með heimilis- og dagdeildarfólki gömlu góðu lögin sem allir kunna. Góð aðsókn hefur verið að þessum söngstundum.

 

Elísabet mun áfram heimsækja Höfða á fimmtudögum.

Kristján Jóhannsson í Höfðasal

 

 

Stórsöngvarinn Kristján Jóhannsson hélt tónleika í Höfðasal á laugardaginn. Meðleikari var Guðbjörg Sigurjónsdóttir. Kristján söng íslensk, skandinavísk og ítölsk lög.

 

Höfðasalur var troðfullur og um 100 áheyrendur skemmtu sér konunglega. Kristján endaði tónleikana  með því að syngja Hamraborgina og risu áheyrendur úr sætum og þökkuðu kröftuglega fyrir þessa frábæru söngskemmtun.

Starfsmenn kvaddir

 

Í dag kvaddi Höfðafólk starfsmenn sem látið hafa af störfum á Höfða á árinu eftir langan og farsælan starfsferil, þau Baldur Magnússon sem starfaði við akstur og umsjón fasteigna í 17 ár, Erlu Óskarsdóttur sem starfaði við aðhlynningu í 7 ár og Sólveigu Kristinsdóttir sem var hjúkrunarforstjóri í 3 ár og deildarstjóri hjúkrunardeildar í 12 ár.  Fjórði starfsmaðurinn sem lét af störfum á árinu, Sonja Hansen, var ekki viðstödd en hún starfaði á Höfða í 25 ár.

 

Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri þakkaði störf fjórmenninganna og rakti farsælan starfsferil þeirra. Guðjón óskaði þeim góðs gengis á ókomnum árum og að þau mættu njóta eftirlaunaáranna við góða heilsu og farsæld.