Brunavarnarnámskeið

Þessa dagana er Þráinn Ólafsson slökkviliðsstjóri með námskeið í brunavörnum fyrir starfsmenn Höfða. Stefnt
er að því að allir starfsmenn sæki námskeiðið. 1.hópurinn mætti í dag og hófst námskeiðið í samkomusal Höfða.Síðan var verkleg æfing utandyra þar sem allir viðstaddir prófuðu notkun slökkvitækis með því að slökkva eld sem kveiktur var í stórri pönnu.

Þorrablót.

Í dag var haldið hið árlega þorrablót Höfða. Boðið var upp á hefðbundinn þorramat og snafs. Almenn ánægja var með matinn sem var frábærlega góður. Tekin voru í notkun tvö trog sem Baldur smíðaði og var súrmatur í öðru en ósúrt í hinu.

 

Kaffihúsakvöld.

Kaffihúsakvöld var á Höfða í gær frá kl. 20-22. Mikil aðsókn var og á mörkunum að samkomusalurinn væri nógu stór.

 

Ingibjörg, María og Adda afhentu verðlaun fyrir Boccia mótið og Guðjón þakkaði þeim fyrir undirbúning og framkvæmd mótsins sem tókst í alla staði frábærlega.

 

Sigurbjörg hjúkrunarforstjóri lagði til skemmtikrafta. Hallgrímur maður hennar lék á gítar og stjórnaði fjöldasöng. Börn þeirra Harpa og Halldór ásamt Sigurbjörgu dóttur Halldórs sungu og að lokum tóku hjónin lagið vegna eindreginna tilmæla gesta. Mjög góður rómur var gerður að tónlistarflutningi þessarar söngelsku fjölskyldu.

 

Mikil ánægja var með þetta kaffihúsakvöld sem tókst í alla staði mjög vel.

 

Úrslit í Boccia móti.

Síðdegis var leikið til úrslita í Boccia móti Höfða. Í 4 liða úrslitum sigruðu FOLAR LÓUR 4-3 og FÁLKAR sigruðu GARPA 17-4. Þá var leikið um 3-4.sæti og mættust þar LÓUR OG GARPAR í æsispennandi leik sem lauk 4-4, en í bráðabana sigruðu GARPAR og lentu því í 3.sæti, en LÓUR í 4 sæti.

Í úrslitaleiknum mættust FOLAR og FÁLKAR. Leiknum lauk með yfirburðasigri FÁLKA 16-0. Þess má geta að í 4 leikjum mótsins skoruðu FÁLKAR samtals 49 stig og komst ekkert lið nálægt þeim í stigaskorun. Lið FÁLKA skipuðu Guðrún Adolfsdóttir, Sjöfn Jóhannesdóttir og Skúli Þórðarson.

Ingibjörg iðjuþjálfi
stjórnaði mótinu af röggsemd og dæmdi alla leikina. Henni til aðstoðar við skipulagningu og framkvæmd mótsins voru María og Adda. Mótið tókst í alla staði mjög vel og fjöldi áhorfenda fylgdist með öllum umferðum.

Verðlaunaafhending verður á kaffihúsakvöldi sem hefst kl. 20 í kvöld.

Boccia mót 3.dagur.

Í morgun var keppt í C og D riðlum Boccia mótsins. Liðin í C riðli eru þannig skipuð:

NAGLAR: Siggi H, Fríða, Helga
HRÚTAR: Árni, Guðbjörg P, Grétar
FOLAR: Guðný, Þura, Inga

Úrslit urðu sem hér segir:

NAGLAR 6 – HRÚTAR 5
HRÚTAR 3 – FOLAR 8
FOLAR 6 – NAGLAR 3

Folar urðu í 1.sæti og fara í úrslit.

Liðin í D-riðli eru þannig skipuð:
HETJUR: Ingileif, Sigrún S, Einar
ERNIR: Adda, Lárus, Bjarney
FÁLKAR: Guðrún A, Skúli Þ, Sjöfn

Úrslit urðu sem hér segir:

ERNIR 1 – FÁLKAR 8
FÁLKAR 8 – HETJUR 3
HETJUR 7 – ERNIR 5

Folar urðu í 1.sæti og fara í úrslit

Boccia mót 2.dagur.

Í dag var keppt í B-riðli Boccia mótsins. Liðin í B-riðli eru þannig skipuð:
RÚSÍNUR: Magnús, Ella, Bjarni
STRÁIN: Hákon, Herdís, Guðbjartur
GARPAR: Tómas S, Sigrún H, Eggert
ÚLFAR: Valgerður, Skúli K, Gunnar
Úrslit urðu sem hér segir: 

RÚSÍNUR 9 – STRÁIN 1
GARPAR 8 – ÚLFAR 2
RÚSÍNUR 2 – GARPAR 12
STRÁIN 8 – GARPAR 5
ÚLFAR 6 – RÚSÍNUR 5
STRÁIN 5 – ÚLFAR 5 

GARPAR urðu í 1.sæti og fara í úrslit.

Boccia mót.

3ja daga Boccia mót Höfða hófst í dag, en því lýkur með verðlaunaafhendingu á kaffihúsakvöldi n.k. fimmtudagskvöld. 14 lið taka þátt í mótinu og eru 3 keppendur í hverju liði. Liðunum er skipt í 4 riðla og kemst sigurlið hvers riðils í úrslit. Liðin eru í 1.riðli eru þannig skipuð:
SÓLIR: Magni, Guðbjörg Þ, Siggi B.
MÁNAR: Kristján, Halla, Bára.
SKÝIN: Svava, Diddi, Marinó.
LÓUR: Sigurbjörg, Steinunn H, Jón.

Keppni í 1.riðli lauk í dag og urðu úrslit sem hér segir: 
SÓLIR 6 – MÁNAR 5
SKÝIN 3 – LÓUR 5
MÁNAR 7 – SKÝIN 1
LÓUR 4 – SÓLIR 7
SÓLIR 1 – SKÝIN 8
MÁNAR 1 – LÓUR 8

LÓUR og SÓLIR
urðu því efst og jöfn, en LÓUR fara í úrslit eftir sigur á SÓLUM í bráðabana.

Höfðinglegur arfur.

Hjónin Andrés Andrésson og Kristgerður Þórðardóttir, Skagabraut 25, arfleiddu Dvalarheimilið Höfða að öllum sínum eignum (íbúðarhúsi, innbúi og bankainnistæðum). Arfurinn rennur í gjafasjóð Höfða og verður notaður til kaupa á nauðsynlegum tækjum og búnaði sem koma mun íbúum heimilisins til góða. Höfðinglegar gjafir velunnara Höfða í gjafasjóðinn á undanförnum árum hafa nýst mjög vel og eiga stóran þátt í því að Höfði er eitt best búna dvalarheimili landsins.

 

Andrés Andrésson fæddist á Hamri í Múlasveit í A-Barðastrandasýslu 28.júní 1925. Hann lést 22.apríl 2003. Andrés var starfsmaðurSementsverksmiðjunnar til starfsloka. Hann var orðlagður völundur í höndunum og hafði að aukastarfi smíði húsgagna, rokka o.fl.

 

Kristgerður Þórðardóttir fæddist á Ásmundarstöðum í Rangárvallasýslu 30.ágúst 1922. Hún lést 23.desember 2005. Kristgerður starfaði við fiskvinnslu um langt árabil.

 

Hún var mikil hannyrðakona og nutu þeir hæfileikar hennar sín vel í dagvistinni á Dvalarheimilinu Höfða sem hún stundaði reglulega síðustu árin og líkaði vel.

 

Stjórn Höfða, starfsfólk og íbúar minnast þessara heiðurshjóna með hlýhug og þakklæti fyrir einstakan höfðingsskap.

Nýtt hjúkrunarskráningarkerfi.

Hjúkrunarforstjóri fór þess á leit við Jóhönnu Fjólu Jóhannesdóttur að hún leiðbeindi okkur við að koma af stað upplýsingasöfnun- og skráningu hjúkrunar hér á Höfða. Skráning hjúkrunar er nauðsynleg til að gera hjúkrunina markvissari og skilvirkari. Einnig er skráning hjúkrunar nauðsynleg til að fylgja eftir og meta árangur af hjúkrunarmeðferð.

 

Jóhanna Fjóla hefur útbúið eyðublöð fyrir upplýsingasöfnun hjúkrunar staðfærða fyrir Höfða. Einnig færði hún okkur að gjöf skráningarkerfi með hjúkrunargreiningum, sem hún hefur unnið fyrir SHA. Þetta er sama skráningarkerfi og er notað á E-deild SHA og á hjúkrunarheimilum víða um land og hefur reynst vel.

 

Höfði þakkar SHA rausnarlega gjöf og Jóhönnu Fjólu fyrir aðstoðina.

Starfsmenn kvaddir.

Í dag kvöddu íbúar og starfsmenn tvær heiðurskonur sem létu af störfum á Höfða á síðasta ári eftir langan og farsælar starfsferil, þær Elsu Guðmundsdóttur sem starfaði rúmlega 13 ár í eldhúsi Höfða og Áslaugu Hjartardóttur sem var hárgreiðslumeistari heimilisins í 22 ár.

 

Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri ávarpaði þær stöllur, þakkaði störf þeirra og rakti farsælan starfsferil, en báðar voru þær vinsælar og vel látnar af íbúum og samstarfsmönnum á Höfða.Guðjón óskaði þeim góðs gengis á ókomnum árum og að þær mættu njóta eftirlaunaáranna við góða heilsu og farsæld.

 

Sigríður Gróa Kristjánsdóttir, formaður stjórnar Höfða, afhenti þeim afsteypu af Grettistaki með áletrun þar sem þeim eru þökkuð góð störf. Hún þakkaði störf þeirra og óskaði þeim velfarnaðar.

 

Þær Elsa og Áslaug þökkuðu íbúum og starfsfólki ánægjuleg samskipti og óskuðu Höfða og þeim sem þar búa og starfa farsældar á ókomnum árum.