Nýir íbúar.

Þrír nýir íbúar fluttu á Höfða um síðustu helgi; hjónin Hallveig Eiríksdóttir og Sveinn Jónsson í íbúð 214 og Sigrún Halldórsdóttir í íbúð 265.

 

Þau eru boðin velkomin á Höfða.

Opið hús.

Fyrsta “Opna hús” vetrarins var á Höfða í dag. Aðsókn var sæmileg og spilað á 9 borðum. Næst verður “Opið hús” þriðjudaginn 4.október og síðan fyrsta og þriðja þriðjudag í hverjum mánuði.

Umhverfisverðlaun afhent.

Skipulags- og umhverfisnefnd bæjarins efndi til móttöku á Kirkjuhvoli í dag. Þar voru afhentar viðurkenningarfyrir snyrtilegar og vel hirtar lóðir á Akranesi 2005.

Í flokki fyrirtækja/stofnana hlaut Höfði þessa viðurkenningu, fagran skjöld og blómvönd. Sigríður Gróa Kristjánsdóttir formaður stjórnar Höfða og Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri veittu viðurkenningunni móttöku.

Mikill áhugi á boccia.

Nýlega hófust æfingar í boccia á Höfða. Mikill áhugi er fyrir íþróttinni og allt að 40 íbúar Höfða mæta reglulega í boccia tíma. Ingibjörg Ólafsdóttir iðjuþjálfi stjórnar æfingunum ásamt aðstoðarmanni sínum Maríu Ásmundsdóttur.

Heimsókn úr ráðuneyti.

Oddný Vestmann starfsmaður heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins heimsótti Höfða 15.september og kynnti sér starfsemina. Sigurbjörg Ragnarsdóttir tók á móti Oddnýju, en þær eiga mikil og góð samskipti vegna vistunarmála.

Heimsending á mat.

Undanfarin ár hefur Höfði útbúið matarbakka fyrir eldri borgara á starfssvæði heimilisins. Mikil ánægja er með þessa þjónustu og í hverjum mánuði eru sendir út milli sjö og átta hundruð bakkar. Fjölskyldusvið Akraneskaupstaðar annast heimakstur og innheimtu matarins. Sólveig Reynisdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs og Sigrún Gísladóttir öldrunarfulltrúi heimsóttu Höfða 15.september til að ræða ýmis samskiptamál, en samskipti Höfða og bæjarins eru margþætt og samstarfið í alla staði ágætt. Þær létu í ljós mikla ánægju með samskiptin við Bjarna Þór Ólafsson bryta og starfslið hans, bæði gæði matarins og frábæra þjónustu.

Samið við bókasafnið.

Þann 14.september undirrituðu Halldóra Jónsdóttir bæjarbókavörður og Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri Höfða samning um bókasafnsþjónustu á Höfða, en bókasafni heimilisins var nýlega lokað og húsnæði þess tekið undir iðjuþjálfun. Samkvæmt samningnum mun starfsfólk bókasafnsins annast þjónustu við íbúa Höfða annan hvern miðvikudag. Reynist þörf fyrir aukna þjónustu verður um það samið sérstaklega.

Starfsemi símenntunar kynnt á Höfða.

Tveir fulltrúar Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi, Inga Sigurðardóttir og Inga Dóra Halldórsdóttir, heimsóttu Höfða 12. september og kynntu starfsmönnum þau námskeið sem boðið verður upp á í vetur. Var þeim vel tekið og margir starfsmenn lýstu áhuga á þátttöku í hinum ýmsu námskeiðum.

Höfði fær umhverfisverðlaun.

Á fundi Skipulags- og umhverfisnefndar bæjarins 5.sept. s.l. voru samþykktar tilnefningar til verðlauna fyrir vel snyrta garða og umhverfi á Akranesi. Veitt eru þrenn verðlaun; fyrir sérbýli, fjölbýlishús og fyrirtæki/stofnanir.

 

Dvalarheimilið Höfði hlaut viðurkenningu í flokki fyrirtækja/stofnana fyrir lóð sína, en mikil áhersla hefur verið lögð á umhverfi heimilisins um langt árabil.

 

Þá hafa þær Elísabet Ragnarsdóttir og Erla Björg Sveinsdóttir starfsmenn sjúkraþjálfunar byggt upp stórfallegt blómabeð sunnan við heimilið í samstarfi við nokkra íbúa og starfsmenn heimilisins.

Stórgjöf til dvalarheimilins

Jóhannes Gunnarsson bifvélavirki, sem bjó á Dvalarheimilinu Höfða frá 1. des.2001 til dánardags 13. júlí 2005 arfleiddi Höfða að öllum sínum fjármunum, alls tæpum 5,7 millj.kr. sem lagðar hafa verið í gjafasjóð Höfða og munu verða notaðir til kaupa á nauðsynlegum tækjum og búnaði sem koma íbúum heimilisins til góða.

Jóhannes hafði áður gefið Höfða stórgjafir, alls 8 millj.kr. á árunum 2000 og 2002. Þessar höfðinglegu gjafir hafa nýst mjög vel og eiga stóran þátt í því að Höfði er eitt best búna dvalarheimili landsins. fæddist að Kistufelli í Lundarreykjadal árið 1913 og var lengst af kenndur við þann stað. Hann bjó á Akranesi frá árinu 1933, lengst á Laugarbraut 14 (Kistufelli) og Heiðargerði 15. Jóhannes starfaði lengi hjá Sementsverksmiðjunni, einnig var hann aðstoðarmaður í Bíóhöllinni. Hann átti sæti í stjórnum Iðnaðarmannafélags Akraness,Bindindisfélags ökumanna og Leikfélags Akraness. Auk þess starfaði hann í Skátafélagi Akraness og Góðtemplarareglunni um árabil.

Stjórn Höfða, starfsfólk og íbúar minnast Jóhannesar með hlýhug og þakklæti fyrir einstakan höfðingsskap.