Um heimilið

Höfði hjúkrunar- og dvalarheimili er stofnun í eigu Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar.

Höfði var tekin í notkun í þremur áföngum.  Sá fyrsti 2. febrúar 1978, annar áfangi á árunum 1990-1992 og þriðji áfangi á árunum 2012 og 2013.  Á heimilinu búa nú 75 íbúar í sólarhringsvistun, þ.e. , 68 í hjúkrunarrými, 5 í biðhjúkrunarrými, auk þess eru tvö hvíldar- og skammtímarými á Höfða.  Á heimilinu eru einstaklingsíbúðir, hjónaíbúðir og tvískiptar hjúkrunaríbúðir.  Á Höfða er einnig félags- og þjónustumiðstöð fyrir alla aldraða á starfssvæði heimilisins, en þar er rekin dagdvöl með 25 rýmum.  Reist hafa verið 31 raðhús fyrir aldraða og öryrkja á lóð Höfða (Höfðagrund).

Í hinu sameiginlega rými hússins er m.a. eldhús, matsalur, samkomusalur, herbergi fyrir starfs- og sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, hárgreiðslu, fótsnyrtingu, verslun, þvottahús og endurhæfingarrými. Þá er sérstakt rými fyrir dagdvöl og skrifstofur.  Tvær lyftur eru í húsinu og neyðarkallkerfi úr öllum íbúðum og vistarverum.  Ágætt útivistarsvæði er við Höfða; stór lóð með göngustígum, púttvelli og petanqe velli.  Setbekkir eru næst heimilinu ásamt bílastæðum. Útsýni frá Höfða er mjög fallegt hvert sem litið .  Gott er að fara í gönguferðir á Sólmundarhöfða, niður á Langasand eða upp í skógræktarsvæði Akurnesinga.  Fyrir utan Höfða stendur listaverkið „Grettistak“ eftir Magnús Tómasson.

Undanfari umsóknar um vistun á Höfða er færnis- og heilsumat sem framkvæmt er af Færni- og heilsumatsnefnd Vesturlands, Borgarbraut 65, 310 Borgarnesi. Sími: 432 1430. Umsóknareyðublað er hægt að nálgast á eftirfarandi slóð http://www.landlaeknir.is/gaedi-og-eftirlit/notendur-heilbrigdisthjonustu/faerni-og-heilsumat/ eða á heimasíðu embættis landlæknis.

Nánari upplýsingar:

Höfði hjúkrunar- og dvalarheimili, Sólmundarhöfða 5, 300 Akranes

Sími 433 4300

Heimasíða: http://www.dvalarheimili.is

Netfang: kjartan@dvalarheimili.is

Jafnalaunastefna Akraneskaupstaðar og Höfða

Jafnlaunastefna þessi tekur til Akraneskaupstaðar sem sameiginlegs vinnustaðar starfsfólks á bæjarskrifstofu og í stofnunum kaupstaðarins, auk starfsfólks Höfða hjúkrunar- og dvalarheimilis og kveður á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsfólki hans þau réttindi sem kveðið er á um í 18. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr.  150/2020. Jafnlaunastefnan er órjúfanlegur hluti af launastefnu Akraneskaupstaðar og Höfða.

Akraneskaupstaður og Höfði greiðir laun eftir umfangi og eðli starfa og taka þau mið af þeim kröfum sem störf gera um þekkingu, hæfni og ábyrgð. Forsendur launaákvarðana eru að þær séu í samræmi við kröfur starfa, studdar rökum og tryggi að einstaklingum séu greidd jöfn laun og þeir  njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Frávik þurfa því að vera að vera á málefnalegum forsendum og skýranleg með vísan til forsendna launaákvörðunar.

Jafnlaunastefna er hluti af jafnréttisáætlun Akraneskaupstaðar þar sem sérstaklega eru settar fram aðgerðir til að tryggja launajafnrétti. Þar segir að við ákvörðun launa skuli þess gætt að kynjum sé ekki mismunað. Einstaklingar skulu fá greitt fyrir störf sín  óháð kyni, kynvitund eða öðrum ómálefnalegum ástæðum.

Til þess að fylgja eftir jafnlaunastefnu Akraneskaupstaðar skuldbindur hann sig til að:

  • Innleiða, skjalfesta og viðhalda jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85 og öðlast vottun í samræmi við lög 56/2017 um jafnlaunavottun.
  • Framkvæma árlega launagreiningu innan kaupstaðarins.
  • Bregðast við óútskýrðum launamun, sé hann til staðar, með viðeigandi leiðréttingum og úrbótum, stöðugum umbótum og eftirliti.
  • Árlega skal fara fram innri úttekt og rýni stjórnenda.
  • Fylgja lögum, reglum og kjarasamningum sem í gildi eru á hverjum tíma og staðfesta árlega af yfirstjórn að þeim sé hlítt.
  • Kynna árlega niðurstöður launagreininga og jafnlaunastefnu fyrir starfsmönnum Akraneskaupstaðar og Höfða.
  • Stefnan skal vera aðgengileg á heimasíðu Akraneskaupstaðar.

Jafnréttisáætlun Höfða

Á stjórnarfundi Höfða þann 22. febrúar 2021 samþykkti stjórn að gera jafnréttisáætlun Akraneskaupstaðar að sinni og starfa eftir henni.

Sjá má jafnaréttisáætlun Akraneskaupstaðar á eftirfarandi vefslóð:

https://www.akranes.is/stjornsysla/utgefid-efni-1/stefnur-akraneskaupstadar