Um heimilið

Höfði hjúkrunar- og dvalarheimili er stofnun í eigu Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar.

Höfði var tekin í notkun í þremur áföngum.  Sá fyrsti 2. febrúar 1978, annar áfangi á árunum 1990-1992 og þriðji áfangi á árunum 2012 og 2013.  Á heimilinu búa nú 74 íbúar í sólarhringsvistun, þ.e. 9 í dvalarrými, 60 í hjúkrunarrými, 4 í biðhjúkrunarrými, auk þess er eitt hvíldar- og skammtímarými á Höfða.  Á heimilinu eru einstaklingsíbúðir, hjónaíbúðir og tvískiptar hjúkrunaríbúðir.  Á Höfða er einnig félags- og þjónustumiðstöð fyrir alla aldraða á starfssvæði heimilisins, en þar er rekin dagdvöl með 25 rýmum.  Reist hafa verið 31 raðhús fyrir aldraða og öryrkja á lóð Höfða (Höfðagrund).

Í hinu sameiginlega rými hússins er m.a. eldhús, matsalur, samkomusalur, herbergi fyrir starfs- og sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, hárgreiðslu, fótsnyrtingu, verslun, þvottahús og endurhæfingarrými. Þá er sérstakt rými fyrir dagdvöl og skrifstofur.  Tvær lyftur eru í húsinu og neyðarkallkerfi úr öllum íbúðum og vistarverum.  Ágætt útivistarsvæði er við Höfða; stór lóð með göngustígum, púttvelli og petanqe velli.  Setbekkir eru næst heimilinu ásamt bílastæðum. Útsýni frá Höfða er mjög fallegt hvert sem litið .  Gott er að fara í gönguferðir á Sólmundarhöfða, niður á Langasand eða upp í skógræktarsvæði Akurnesinga.  Fyrir utan Höfða stendur listaverkið „Grettistak“ eftir Magnús Tómasson.

Undanfari umsóknar um vistun á Höfða er færnis- og heilsumat sem framkvæmt er af Færni- og heilsumatsnefnd Vesturlands, Borgarbraut 65, 310 Borgarnesi. Sími: 432 1430. Umsóknareyðublað er hægt að nálgast á eftirfarandi slóð http://www.landlaeknir.is/gaedi-og-eftirlit/notendur-heilbrigdisthjonustu/faerni-og-heilsumat/ eða á heimasíðu embættis landlæknis.

Nánari upplýsingar:

Höfði hjúkrunar- og dvalarheimili, Sólmundarhöfða 5, 300 Akranes

Sími 433 4300

Heimasíða: http://www.dvalarheimili.is

Netfang: kjartan@dvalarheimili.is

Jafnalaunastefna Höfða

Höfði skuldbindur sig til að greiða jöfn laun og sömu kjör fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf óháð kyni, kynþætti eða örðum órökstuddum viðmiðum.

Tilgangur jafnlaunastefnunnar er að allir starfsmenn Höfða njóti jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að enginn ómálefnalegur launamunur sé til staðar samkvæmt ákvæði laga nr. 10/2008 og annarra laga og krafna er snúa að jafnrétti. Jafnlaunastefnan er órjúfanlegur hluti af launastefnu Höfða og nær til allra starfsmanna heimilisins.

Framkvæmdastjóri og hjúkrunarforstjóri bera ábyrgð á jafnlaunakerfi heimilisins. Ábyrgðaraðilar tryggja að jafnlaunastefnan sé í samræmi við ákvæði laga nr. 10/2008 og annarra laga sem og krafna er tengjast launajafnrétti og öðrum jafnréttismálum sé framfylgt. Framkvæmdastjóri er verkefnastjóri jafnlaunakerfisins og vinnur ásamt launafulltrúa að innleiðingu og viðhaldi þess í samræmi við staðalinn ÍST 85:2012. Framkvæmdastjóri sér einnig um rýni, viðhald og stöðugar umbætur á jafnlaunakerfinu.

Til að framfylgja jafnlaunastefnunni skuldbinda heimilið sig til að skjalfesta, innleiða, viðhalda og bæta stöðugt stjórnun jafnlaunakerfis í samræmi við kröfur staðalsins og ákvarða hvernig kröfur hans verða uppfylltar hverju sinni. Heimilið hefur innleitt verklag og skilgreint viðmið við ákvörðun launa þar sem hver og einn fær greitt fyrir starf sitt út frá verðmæti þess óháð kyni, kynvitund eða öðrum ómálefnalegum ástæðum.

Jafnlaunamarkmið Höfða tímabilið 2020 – 2021 eru eftirfarandi:

  • Stefnt skal að því að enginn óútskýrður launamunur mælist hjá heimilinu og frávik ekki meiri en 5%

Í samræmi við jafnlaunastefnu Höfða skuldbindur heimilið sig til að:

  • Innleiða vottað jafnlaunakerfi sem byggist á jafnlaunastaðlinum ÍST 85, það skjalfest og viðhaldið.
  • Framkvæma árlega launagreiningu þar sem borin eru saman sömu og jafnverðmæt störf og kanna hvort óútskýrður launamunur mælist eftir kyni. Niðurstöður skulu kynntar fyrir starfsfólki.
  • Bregðast við óútskýrðum launamun með stöðugu eftirliti, umbótum og forvörnum.
  • Framkvæma innri úttekt og halda rýni stjórnenda árlega.
  • Fylgja viðeigandi lögum og reglum sem í gildi eru á hverjum tíma.
  • Kynna stefnuna árlega fyrir starfsmönnum.
  • Hafa jafnlaunastefnu aðgengilega á ytri vef.
  • Setja fram og rýna jafnlaunamarkmið árlega.

Jafnlaunastefna samþykkt af stjórn Höfða þann 31.08.2020

Jafnréttisáætlun Höfða

Á stjórnarfundi Höfða þann 22. febrúar 2021 samþykkti stjórn að gera jafnréttisáætlun Akraneskaupstaðar að sinni og starfa eftir henni.

Sjá má jafnaréttisáætlun Akraneskaupstaðar á eftirfarandi vefslóð: https://www.akranes.is/stjornsysla/mannaudur/starfsmannahandbok