Jólaball

Í gær var haldið jólaball á Höfða fyrir íbúa, starfsmenn og afkomendur. Höfðasalurinn var troðfullur af gestum, sá yngsti eins árs, sá elsti á tíunda áratugnum, og skemmtu sér allir konunglega. Tveir jólasveinar komu í heimsókn og færðu börnunum poka með góðgæti. Bjórbandið spilaði gömlu góðu jólalögin og gestirnir dönsuðu kringum jólatréð. Að balli loknu þáðu gestir veitingar í boði Höfða.

Helgihald um hátíðarnar

Í morgun var Ragnheiður Guðmundsdóttir djákni með helgistund í Höfðasal þar sem börn hennar og barnabörn sungu jólasálma og léku undir, en það er árvisst að afkomendur djáknans annast tónlistarflutning í helgistund á aðfangadag.

 

Á annan í jólum verður hátíðarguðsþjónust kl. 12,45 þar sem sr. Eðvarð Ingólfsson predikar og kór Akraneskirkju syngur við undirleik kórstjórand Sveins Arnars Sæmundssonar.

 

Á gamlársdag verður svo helgistund djákna kl. 11,30, en þar mun kór Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd syngja.

Samverustund

Í gærkvöldi buðu starfsmenn á 2.og 3.hæð íbúum til samverustundar í aðdraganda jóla. Starfsmennirnir komu með margskonar góðgæti að heiman og buðu íbúunum. Mikil ánægja var með þessa notalegu kvöldstund og þetta skemmtilega framtak starfsmannanna.

Jólatónleikar Grundartangakórsins

Grundartangakórinn hélt sína árlegu jólatónleika á Höfða í gær. Stjórnandi kórsins er Atli Guðlaugsson og einsöngvarar Bjarni Atlason, Guðlaugur Atlason og Smári Vífilsson. Undirleik önnuðust Flosi Einarsson á píanó og Maron Baldursson á trommu.

Tónleikarnir voru vel sóttir að vanda, setið í hverju sæti í Höfðasal og mikið klappað. Adda þakkaði kórfélögum fyrir komuna og tryggð þeirra við íbúa Höfða og sagði að söngur kórsins gerði alltaf jafn mikla lukku hjá Höfðafólki.  Þetta mun vera 30.árið í röð sem kórinn syngur á Höfða og undanfarin ár að jafnaði tvisvar á ári.

Leikskólabörn syngja jólalögin

Í morgun heimsótti Höfða fríður flokkur fjögurra ára leikskólabarna af Akraseli. Börnin sungu jólalögin , fyrst í Höfðasal og síðan á hjúkrunardeild, við góðar undirtektir íbúa Höfða.


Að söng loknum bauð húsmóðirin á Höfða upp á djús og smákökur.

Bæjarstjóri í heimsókn

Jón Pálmi Pálsson sem tók við starfi bæjarstjóra á Akranesi í síðasta mánuði heimsótti Höfða í dag. Með honum í för var Laufey Jónsdóttir verkefnisstjóri heimaþjónustu hjá bænum. Þau skoðuðu nýafstaðnar og yfirstandandi framkvæmdir á Höfða og ræddu síðan við  framkvæmdastjóra og hjúkrunarforstjóra um starfsemi heimilisins.

Leikskólabörn í heimsókn

Í dag heimsóttu börn af leikskólanum Vallarseli íbúa á 3.hæð Höfða í fylgd Aðalheiðar Þrárinsdóttur leikskólakennara. Börnin skoðuðu fiskabúrið, teiknuðu, sungu og spjölluðu við íbúana.

 

Börnin fengu góðar móttökur og ætla að gera þetta reglulega í vetur.

Aðventusamkoma

Í gær var haldin aðventusamkoma á Höfða undir stjórn sr. Eðvarðs Ingólfssonar. Kór Akraneskirkju söng jólalög og sálma undir stjórn og undirleik Sveins Arnars Sæmundssonar. Fjögur ungmenni fluttu tónlistaratriði, þau Halla Margrét Jónsdóttir, Ari Jónsson, Auður Marín Adolphsdóttir og Katarína Stefánsdóttir. Ræðumaður var Ari Jóhannesson læknir. Þá stjórnaði sr. Eðvarð spurningaleik á léttum nótum milli íbúa og starfsmanna Höfða. Liðin skipuðu Jóhanna Ólafsdóttir og Kristján Ásgeirsson íbúar og Adda og Guðjón starfsmenn. Dómari var Indriði Valdimarsson og úrskurðaði hann að liðin hefðu skilið jöfn. Að lokum flutti sr.Eðvarð bæn og blessun.

 

Höfðasalurinn var troðfullur við þessa athöfn sem var bæði skemmtileg og hátíðleg. Að lokum þakkaði Guðjón öllum sem komið hefðu fram fyrir að flytja jólastemninguna inn á Höfða og Adda bauð viðstöddum í kaffi og smákökur.