Endurbætur ganga vel

Undanfarna tvo mánuði hefur verið unnið að miklum endurbótum á hjúkrunargangi á 1.hæð Höfða. M.a. er öllum íbúðum breytt úr tvíbýli í einbýli. Næstu daga verður flutt í fyrstu endurgerðu íbúðirnar og í morgun  tóku smiðirnir niður þilið sem lokað hefur aðgangi að hjúkrunarganginum.


Verkið heldur svo áfram aaf fullum krafti, en í verksamningi er gert ráð fyrir verklokum 12.apríl.

Samfélagsverkefni

Í morgun heimsóttu Höfða 25 ungmenni úr 7.bekk í Grundaskóla. Með þeim í för var Úrsúla Ásgrímsdóttir umsjónarkennari bekkjarins.

 

Krakkarnir lásu ljóð og spiluðu á fiðlu og píanó. Að því loknu spiluðu þau og tefldu við Höfðafólk og einnig buðu þau fólki í minigolf.

 

Þessi heimsókn var liður í samstarfi við Norðurál sem greiðir rútu fyrir bekkinn til ferðar í Reykjaskóla að því tilskyldu að þau taki þátt í einhverju samfélagsverkefni.

 

Greinilegt var að bæði Höfðafólk og ungmennin höfðu mikla ánægju af þessari samverustund. Í næstu viku kemur svo annar hópur úr Grundaskóla á Höfða í sama tilgangi.

Afmæli Höfða

S.l. föstudag var haldið upp á 35 ára afmæli Höfða, en fyrstu íbúarnir fluttu inn á heimilið 2.febrúar 1978. Boðið var upp á kaffi og glæsilegt kökuhlaðborð og sá Sigurlaug Garðarsdóttir starfsmaður mötuneytis um baksturinn.


Ásmundur Ólafsson fyrrverandi framkvæmdastjóri lýsti aðdraganda að stofnun Höfða, byggingasögu og starfsemi heimilisins. Var góður rómur gerður að erindi hans.  Þá söng Valgerður Jónsdóttir nokkur lög við undirleik Þórðar Sævarssonar.


Talsvert á annað hundrað manns sóttu þessa afmælishátið.

Starfsmenn kvaddir

Í dag kvaddi Höfðafólk starfsmenn sem látið hafa af störfum á Höfða á síðustu mánuðum eftir langan og farsælan starfsferil, þær Arínu Guðmundsdóttur sem var sjúkraliði á Höfða í 16 ár, Sigrúnu Valgarðsdóttur sem var hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri öldrunardeildar í 11 ár, Júlíönu Karvelsdóttur sem starfaði við aðhlynningu í 12 ár og Eddu Guðmundsdóttur sem sem starfaði í býtibúri og síðan við iðjuþjálfun í 9 ár.


Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri þakkaði störf fjórmenninganna og rakti farsælan starfsferil þeirra. Guðjón óskaði þeim góðs gengis á ókomnum árum og að þau mætti njóta eftirlaunaáranna við góða heilsu og farsæld. Kristján Sveinsson formaður stjórnar Höfða afhenti konunum blómvönd og litla gjöf frá Höfða