Ball og KK

Mikið fjör var á Höfða í lok síðustu viku. Á föstudaginn var ball með Bjórbandinu. Þar var mikið stuð og mikið dansað. Þetta er annað ballið með Bjórbandinu á skömmum tíma, en hljómsveitin spilar músík sem fellur íbúum Höfða vel.

 

Á laugardag heimsótti svo KK (Kristján Kristjánsson) Höfða og spilaði á gítar, söng og sagði gamansögur. Íbúar og starfsmenn troðfylltu samkomusalinn og höfðu mikla ánægju af heimsókn þessa góða gests. Þess má geta að tengdamóðir KK, Rannveig Hálfdánardóttir, er íbúi á Höfða.

Gleðivika

Í gær hófst gleðivika á Höfða og stendur hún til 25.nóvember. Þema vikunnar er bleiki liturinn. Starfsmenn klæðast og punta sig með bleiku. Bleiki liturinn er auk þess hafður til skrauts víðs vegar í húsinu. Meira að segja maturinn í gær var bleikur (soðinn lax).

 

Vel heppnuð sýning

Í tilefni Vökudaga á Akranesi var opnuð sýning á handverki og list starfsmanna, íbúa og dagdeildarfólks á Höfða s.l. föstudag.

 

Við opnunina söng nýstofnaður kór starfsmanna Höfða nokkur lög undir stjórn Heiðrúnar Hámundardóttur. Gunnþórunn Valsdóttir og Bjarney Guðbjörnsdóttir léku undir á hljóðfæri.

 

<pMjög margir lögðu leið sína á sýninguna sem stóð alla helgina og við opnunina var troðfullt af fólki sem skoðaði það sem til sýnis var af miklum áhuga og klappaði kórnum lof í lófa fyrir góðan flutning.

 

Segja má að þessi sýning hafi slegið í gegn, enda fjölbreytt handverk og listmunir til sýnis sem vöktu óskipta athygli sýningargesta. Nokkrir íbúa Höfða voru með sölubása og seldu vel af handverki sínu.