Sumarferð

 

Hin árlega sumarferð Höfðafólks var farin í gær. Hátt í 50 manns, íbúar Höfða og dagdeildarfólk, tóku þátt í ferðinni ásamt nokkrum starfsmönnum. Lagt var af stað kl. 13 og farið um Melasveit upp Norðurárdal að Bifröst og þaðan um Stafholtstungur að Deildartunguhver og síðan að Reykholti þar sem boðið var upp á kaffihlaðborð í hótelinu. Eftir kaffi var síðan ekið um Skorradal yfir Geldingadraga og yfir í Hvalfjörð þar sem Hvalstöðin var skoðuð. Kristján Loftsson forstjóri Hvals lýsti starfsemi fyrirtækisins, en fyrsti hvalurinn á þessari vertíð var væntanlegur hálftíma seinna. Síðan var haldið heim á leið og komið að Höfða kl. 18,30.

 

Ferðaveður var frábært, logn, sólarlaust og 17-19 stiga hiti. Fararkosturinn var sérútbúin hjólastólarúta frá Sæmundi. Leiðsögumaður var Björn Ingi Finsen og var leiðsögn hans einstaklega fróðleg og skemmtileg.

 

Ferðalangarnir voru ánægðir með þessa ferð sem tókst í alla staði mjög vel.

 

 

 

 

Síðasti fundur stjórnar

 

Síðasti fundur stjórnar Dvalarheimilisins Höfða á þessu kjörtímabili var haldinn í gær, en umboð stjórnarinnar rennur út á morgun og ný stjórn verður kosin 15.júní n.k. Anton Ottesen, sem setið hefur í stjórn frá 1982 og áður sem varamaður frá því heimilið tók til starfa 1978, tilkynnti að hann hyrfi nú úr stjórn og var honum þakkað langt og farsælt starf í stjórn Höfða. Anton rifjaði í stuttu máli upp ýmis mál sem upp hafa komið og kvað oft hafa verið erfiðleika í rekstrinum og því ánægjulegt að kveðja núna þegar staða Höfða væri jafn góð og raun ber vitni. Framkvæmdastjóri þakkaði fráfarandi stjórn fyrir ánægjulegt samstarf og Benedikt Jónmundsson formaður þakkaði meðstjórnarmönnum og starfsfólki fyrir vel unnin störf, en hann hefur setið í stjórninni s.l. 12 ár.

 

Á fundinum var lagt fram bréf félags- og tryggingamálaráðherra þar sem hann tilkynnir að hann hafi að fenginni tillögu Framkvæmdasjóðs aldraðra ákveðið að veita Höfða styrk að fjárhæð 113,350 millj.kr. vegna byggingar tíu hjúkrunarrýma til að fækka fjölbýlum á heimilinu. Stjórn Höfða fagnaði afgreiðslu ráðherra.

Með yl í hjarta og birtu á brá

Fyrirsögnin er heitið á tónleikum sem feðginin Ólafur Beinteinn og Ingibjörg Aldís óperusöngkona héldu á Höfða í dag. Þau fluttu innlenda og innlenda tónlist auk þess sem Ólafur stýrði hópsöng og sló á létta strengi með harmónikkunni.

 

Íbúar Höfða troðfylltu samkomusalinn og höfðu mikla ánægju af þessum frábæru tónleikum.

 

Orkuveita Reykjavíkur styrkti tónleikana.

 

 

Starfsaldursviðurkenningar – Margrét kvödd

 

Í dag fengu 13 starfsmenn Höfða starfsaldursviðurkenningar.

Þeir voru:

 

Fyrir 5 ára starf:

Guðjón Guðmundsson.

 

Fyrir 10 ára starf:

Ingibjörg Rósa Aðalsteinsdóttir,

Júlíana Karvelsdóttir,

Margrét Rögnvaldsdóttir og Vigdís Jóhannsdóttir.

 

Fyrir 15 ára starf:

Ólöf Auður Böðvarsdóttir og

Ragna Ragnarsdóttir.

 

Fyrir 20 ára starf:

Guðmundína Hallgrímsdóttir,

Hjördís Guðmundsdóttir,

Jóna Björk Guðmundsdóttir og

Sigurbjörg Ragnarsdóttir.

 

Og fyrir 30 ára starf:

Arinbjörg Kristinsdóttir og

Unnur Guðmundsdóttir.

 

Framkvæmdastjóri minnti á mikilvægi stöðugs vinnuafls og sagði að stjórn Höfða vildi með þessum viðurkenningum þakka þessum góðu starfsmönnum tryggð þeirra við Höfða og íbúa heimilisins.

 

Þá kvöddu íbúar og starfsmenn Margréti Þórarinsdóttur sem lét af störfum í mötuneyti Höfða um s.l. áramót. Guðjón rakti farsælan starfsferil Margrétar, þakkaði störf hennar og óskaði henni góðs gengis á ókomnum árum og að hún megi njóta eftirlaunaáranna við góða heilsu og farsæld.