Jólaball

Í dag var haldið jólaball á Höfða fyrir íbúa, starfsmenn og afkomendur. Höfðasalurinn var troðfullur af gestum, sá yngsti eins árs, sá elsti á tíunda áratugnum, og skemmtu sér allir konunglega.

Tveir jólasveinar komu í heimsókn og færðu börnunum poka með góðgæti. Bjórbandið spilaði gömlu góðu jólalögin og gestirnir dönsuðu kringum jólatréð.

Að balli loknu þáðu gestir veitingar í boði Höfða.

Helgihald um hátíðarnar

Í morgun var Ragnheiður Guðmundsdóttir djákni með helgistund í Höfðasal þar sem börn hennar og barnabörn sungu jólasálma og léku undir, en það er árvisst að afkomendur djáknans annast tónlistarflutning í helgistund á aðfangadag.


Á annan í jólum verður hátíðarguðsþjónusta kl. 12,45 þar sem sr. Eðvarð Ingólfsson predikar og kór Akraneskirkju syngur við undirleik Sveins Arnars Sæmundssonar.


Á gamlársdag verður svo helgistund djákna kl. 11,30, en þar mun kór Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd syngja.


Óskum öllum landsmönnum gleðilegrar jólahátíðar.

Tónleikar

Mikið tónlistarlíf hefur verið á Höfða á aðventunni. Nemendur úr Tónlistarskóla Akraness héltu tónleika í Höfðasala í síðustu viku. Kór eldri borgara var með tónleika sl. þriðjudag og seinnipartinn í gær var Grundartangakórinn með tónleika í Höfðasal.

Allir þessir viðburðir voru vel sóttir og almenn ánægja með þá.

Aðventan gengur í garð

Síðastliðinn föstudag var hið árlega jólahlaðborð Höfða haldið og komu fjölmargir aðstandendur og borðuðu með sínu fólki.   Í framhaldi af jólahlaðborðinu var hin síungi Þorvaldur Halldórsson með tónleika fyrir Höfðafólk sem endaði með dansi.  Helgin endaði svo með aðventustund á sunnudag sem var í umsjón Séra Eðvarðs Ingólfssonar.  Allir þessir viðburðir voru vel sóttir og almenn ánægja með þá.