Tónleikar

Í gær héldu feðginin Ingibjörg Aldís, sópransöngkona og Ólafur B.Ólafsson tónleika á Höfða. Ingibjörg Aldís söng innlend og erlend lög við undirleik föður síns og Ólafur lék einnig á harmonikku og stjórnaði hópsöng.

 

Samkomusalurinn var fullur út úr dyrum og íbúar Höfða skemmtu sér konunglega, enda fóru þau feðginin á kostum í flutningi sínum.

 

Ólafur minntist þess að þau feðginin hefðu áður skemmt á Höfða og liðið hér afskaplega vel. Í tilefni af því hefði hann sett saman svohljóðandi Höfðabrag:

 

Á dvalarheimilinu Höfða

glaðar hef ég sálir séð.

Menn og svannar syngja með.

Þakklátur ég staðinn kveð.

Svona var það líka síðast

saman hér við mættum mörg.

Vorum við þá ekki örg

Ólafur og Ingibjörg.

Starfsfólkið á þakkir skilið

stendur gjarnan heiðursvörð,

er heim við sækjum Höfðahjörð

hina bestu hér á jörð.

 

Guðjón framkvæmdastjóri þakkaði þeim feðginum komuna og frábæra skemmtun og bað þau að koma sem fyrst aftur.

Starfsmenn á faraldsfæti

Starfsmenn Höfða hafa notað góða veðrið í sumar til að bregða undir sig betri fætinum. Föstudaginn 30.maí fór tæplega 40 manna hópur í heimsókn á Hrafnistu og fékk þar frábærar móttökur hjá Skagamanninum Pétri Magnússyni framkvæmdastjóra og hans fólki.

 

Frá Hrafnistu var haldið í Bláa lónið þar sem flestir busluðu í lóninu meðan aðrir slöppuðu af í notalegum veitingasalnum.

 

Loks var svo snæddur kvöldverður í Salthúsinu í Grindavík og stiginn þar dans á sjómannaballi þegar leið á kvöldið.

 

14.júní fór svo 12 manna hópur í gönguferð um Síldarmannagötur. Eftir 6 tíma labb var svo haldið í sumarbústað Guðrúnar fótaaðgerðafræðings í Skorradal þar sem slappað var af í heita pottinum og snæddur ljúffengur grillmatur.

 

Þessar ferðir voru báðar mjög vel heppnaðar og komu allir ánægðir heim.

Sumarferð

Hin árlega sumarferð Höfðafólks var farin s.l. föstudag.

 

Rúmlega 40 manns, íbúar Höfða, dagvistarfólk og íbúar Höfðagrundarhúsanna tóku þátt í ferðinni ásamt nokkrum starfsmönnum. Lagt var af stað kl. 13 og ekið í átt til Reykjavíkur þar sem nýjustu hverfi borgarinnar voru skoðuð.

 

Síðan var ekið að Hellisheiðarvirkjun þar sem starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur sögðu frá virkjuninni og buðu síðan upp á kaffi og meðlæti. Að því loknu var svo ekið fyrir Ingólfsfjall og heim um Grafning vestan við Þingvallavatn. Heim var svo komið kl. 18.

 

Hópurinn fékk frábært ferðaveður, logn, sólarlaust og 14 stiga hita. Leiðsögumaður í þessari ferð var Björn Ingi Finsen og var leiðsögn hans að vanda frábærlega fróðleg og skemmtileg.

 

Almenn ánægja var með þessa ferð sem tókst í alla staði mjög vel.