Sumardagurinn fyrsti

IMG_2460

Á sumardaginn fyrsta var gestkvæmt á Höfða, dagurinn byrjaði á heimsókn félaga úr Hestmannafélaginu Dreyra á fákum sínum.

Karlakórinn Svanir hélt söngskemmtun undir stjórn Valgerðar Jónsdóttur sem jafnframt sá um undirleik ásamt Jóni Trausta Hervarssyni.

Í framhaldi af söngskemmtun var boðið upp á vöflukaffi í umsjón Höfðavina, félags vina og velunnara heimilisfólks á Höfða. Vöflukaffið heppnaðist vel sem og önnur atriði dagsins.

Á laugardaginn kom svo Þjóðdansafélagið Sporið í heimsókn til okkar og sýndi þjóðdansa fyrir heimilisfólk á Höfða. Skemmtunin var vel sótt og var almenn ánægja með hana.

Söngskemmtun

IMG_2438

Sigurður Guðmundsson og Sigurður Ólafsson buðu upp á samsöng í Höfðasal í síðustu viku.

Góður rómur var gerður af framtaki þeirra vina og er beðið í  eftirvæntingu eftir næsta samsöng.

Minningargjöf til Höfða

IMG_2426

Í dag kom Jón Guðjónsson færandi hendi til okkar á Höfða.

Til minningar um eiginkonu sína Sigrúnu Níelsdóttur færði hann heimilinu veglega peningagjöf til kaupa á tæki eða búnaði fyrir starfsemi dagdeildar Höfða.

Við þetta tækifæri vildi Jón færa starfsfólki Höfða innilegar þakkir fyrir umönnun þá og alúð sem Sigrún naut í dagvistun Höfða og átti þátt í að létta henni síðustu æviár hennar.

Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri veitti gjöfinni viðtöku og þakkaði fyrir höfðinglega gjöf sem mun nýtast starfsemi dagdeildar vel.

 

Samið við sjúkraliða

Í nótt undirritaði samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga nýjan kjarasamning við Sjúkraliðafélag Íslands. Þar með hefur boðuðu verkfalli sjúkraliða verið afstýrt.

Því verður starfsemi á Höfða með eðlilegum hætti eftir helgi.

Orðsending til aðstandenda íbúa Höfða

Sælir aðstandendur,

Vegna yfirvofandi verkfalls sjúkraliða gæti skapast neyðarástand á heimilinu ef af verkfalli verður, sjúkraliðar eru stór hluti starfsfólks  og óskar því heimilið eftir aðstoð ykkar við umönnun.

Ef af verður mun verkfallið hefjast á mánudaginn 4/4 og er fyrirséð að neyðarástand skapast á kvöldvöktum sem eru frá 15 til 23.  Gott væri ef þið gætuð séð ykkur fært að aðstoða við umönnun ykkar aðstandanda á þessum tíma.  Leyfilegt er samkvæmt Sjúkraliðafélagi Íslands að aðstandandi aðstoði sinn ættingja.

Við óskum þess að ekki komi til þessa verkfalls en við vonumst eftir góðum viðbrögðum frá ykkur við þessari beiðni ef af verkfalli verður.

Virðingarfyllst,

Hallveig Skúladóttir hjúkrunarforstjóri

Bylgja Kristófersdóttir hjúkrunardeildarstjóri

Margrét Vífilsdóttir hjúkrunardeildarstjóri