Jólaball 2016

img_3352

Í gær var haldið hið árlega jólaball á Höfða fyrir íbúa, starfsmenn og afkomendur. Höfðasalurinn var fullur af gestum, sá yngsti eins árs, sá elsti á tíunda áratugnum, og skemmtu sér allir konunglega.

Tveir jólasveinar komu í heimsókn og færðu börnunum poka með góðgæti. Bjórbandið spilaði gömlu góðu jólalögin og gestirnir dönsuðu kringum jólatréð.

Að balli loknu þáðu gestir veitingar í boði Höfða.

Helgihald um hátíðarnar

img_3332

 

Í morgun var Ragnheiður Guðmundsdóttir djákni með helgistund í Höfðasal þar sem börn hennar og barnabörn sungu jólasálma og léku undir, en það er árvisst að afkomendur djáknans annast tónlistarflutning í helgistund á aðfangadag.
Á annan í jólum verður hátíðarguðsþjónusta kl. 12.45 þar sem sr. Eðvarð Ingólfsson predikar og kór Akraneskirkju syngur við undirleik Sveins Arnars Sæmundssonar.
Á gamlársdag verður svo helgistund djákna kl. 11.30, en þar mun kór Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd syngja.


Óskum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Þökkum ánægjuleg samskipti á árinu sem er að líða.

Íbúar og starfsfólk Höfða.

 

Gerum góðverk

kerta-brekko

Gerum góðverk er samfélagsverkefni í hönnun og smíði í Brekkubæjarskóla.  Brekkubæjarskóli er Grænfánaskóli og hefur sparnað, endurvinnslu og endurnýtingu að leiðarljósi.

Nemendur í hönnun og smíði í 1.-7. bekk skáru niður kertaafganga bræddu og endurunnu í ný kerti.  Þeir seldu kertin síðan í verslunum á Akranesi. Einnig seldu nemendur kortin á árlegum Höfðabasar í desember.

Tilgangur verkefnisins var að kynna fyrir nemendum hvernig hægt væri að láta gott af sér leiða með vinnu og endurnýtingu án þess að kosta mikið til.  Ágóði kertasölunnar rennur óskertur í gjafasjóð Höfða til kaupa á fjölþjálfa fyrir aldraða í sjúkraþjálfun.

Elísabet Ragnarsdóttir sjúkraþjálfari Höfða tók á móti afrakstri söfnunarinnar í morgunstund í Brekkubæjarskóla sl. fimmtudag. Fjölþjálfi fyrir aldraða er dýrt tæki, en margt smátt gerir eitt stórt, en krakkanir söfnuðu rúmum 60.000 krónum fyrir að nýta það sem margir henda.

Við þökkum innilega fyrir þetta fallega góðverk og framtak krakkana og kennara þeirra.  Það voru kennararnir Kristrún Sigurbjörnsdóttir og Ingibjörg Torfadóttir sem stjórnuðu verkefninu.

Takk fyrir okkur.