Heimsókn úr Borgarnesi

Í dag heimsóttu Höfða þrír starfsmenn frá sjúkraþjálfun og handavinnu Dvalarheimilis aldraðra í Borgarnesi. Þær skoðuðu heimilið í fylgd Ingibjargar Ólafsdóttur iðjuþjálfa og fengu upplýsingar um þá starfsemi sem fer fram í sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og handavinnu Höfða. Einnig skoðuðu þær hjálpartækjakost heimilisins.

Vel heppnuð árshátíð

Árshátíð starfsmanna Höfða var haldin að Miðgarði s.l. laugardagskvöld. Mæting var mjög góð og kvöldið vel heppnað, enda skemmtunin vel undirbúin af árshátíðarnefnd sem hafði m.a. gert kvikmynd af starfsmönnum í léttum dúr, en nefndina skipuðu Ingibjörg Ólafsdóttir, Maggi G.Ingólfsson og Nanna Sigurðardóttir.

Veislustjóri var Halldór Jónsson blaðamaður á Skessuhorni sem fór á kostum. Hljómsveit Friðjóns Jóhannssonar lék fyrir dansi og hélt uppi stanslausu fjöri fram á fjórða tímann.

Árshátíðin tókst í alla staði mjög vel og var almenn ánægja meðal þátttakenda sem hylltu árshátíðarnefndina fyrir góð störf. Þrír starfsmenn, Bjarni Þ.Ólafsson, Sigurbjörg Ragnarsdóttir og Hjördís Guðmundsdóttir, fengu viðurkenninguna “árshátíðartak”, litla styttu í stíl við “Grettistakið” sem er tákn Höfða. Viðurkenningunni fylgdi sú kvöð að viðkomandi skipa næstu árshátíðarnefnd.

Vel heppnað “OPIÐ HÚS”

OPIÐ HÚS á Höfða í gær tókst einstaklega vel. Um 400 manns heimsóttu Höfða og skoðuðu þær sýningar sem boðið var upp á, þ.e. málverkasýningu Sveins Guðbjarnasonar, ljósmyndasýningu Helga Daníelssonar og sýningu á skipslíkönum í eigu Sveins Sturlaugssonar.

Allar sýningarnar gerðu mikla lukku. Gömlu ljósmyndirnar og skipslíkönin rifjuðu upp lífið á Akranesi á sjöunda áratugnum. Málverk Sveins vöktu mikla athygli og fjölmargir vildu kaupa myndir, en þær voru ekki til sölu að þessu sinni.

Þá var stanslaus ös á bazarnum og mikið selt af þeim fallegu munum sem þar voru til sölu, en flestir voru þeir framleiddir af dagvistarfólki og íbúum á Höfða.

Margir gestanna skoðuðu í leiðinni starfsemi sjúkraþjálfunar og iðjuþjálfunar og litu í heimsókn til íbúa Höfða.

Harmonikuleikur

Gestur Friðjónsson heimsótti höfða og lék á harmonikku í félagsrými og á sjúkradeild við góðar undirtektir áheyrenda.

Helgi Dan í heimsókn

Helgi Daníelsson heimsótti Höfða í morgun, en sýning á ljósmyndum hans frá sjöunda ártugnum verður opnuð á laugardaginn. Helgi hafði meðferðis fjölda mynda af íbúum Höfða sem teknar voru í lok síðustu aldar. Myndir þeirra Skagamannanna og feðganna Helga og Friðþjófs sonar hans af lífi og starfi Akurnesinga eru ómetanlegar og ræktarsemi þeirra við bæinn sinn einstök.

OPIÐ HÚS – BAZAR

N.k. laugardag verður OPIÐ HÚS á Höfða frá kl. 14-17.

Þar verður öllum velkomið að skoða heimilið og heilsa upp á íbúana. Hinn árlegi Höfðabazar verður opinn á þessum tíma, þar verða seldir munir framleiddir af íbúum og dagvistarfólki.

Boðið verður upp á:
Sýningu á nýjum málverkum Sveins Guðbjarnasonar íbúa á Höfða.
Sýningu á ljósmyndum úr bæjarlífinu fyrir 40 árum eftir Helga Daníelsson.
Sýningu á skipslíkönum í eigu Sveins Sturlaugssonar.
Kynningu á heimasíðu Höfða.
Kaffisopa í tilefni dagsins.