Fyrsti fundur nýrrar stjórnar

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Höfða var haldinn í gær. Stjórnina skipa Kristján Sveinsson formaður, Kjartan Kjartansson varaformaður og Guðrún M.Jónsdóttir tilnefnd af bæjarstjórn Akraness og Margrét Magnúsdóttir tilnefnd af sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar. Varamenn eru Helgi Daníelsson, Valdimar Þorvaldsson, Rún Halldórsdóttir og Dóra Líndal Hjartardóttir. Áheyrnarfulltrúi starfsmanna er Hjördís Guðmundsdóttir.

 

Aðal- og varamenn mættu á þennan fyrsta fund þar sem framkvæmdastjóri og hjúkrunarforstjóri kynntu starfsemi Höfða og stöðu mála. Síðan var farin skoðunarferð um heimilið.

Írskir dagar

Í dag hófust Írskir dagar á Akranesi og stendur hátíðin í 3 daga. Íbúar Höfða og dagdeildarfólk héldu upp á þetta með samkomu um miðjan daginn. Boðið var upp á léttar veitingar, Adda las upp gamlar fréttir frá Oddi og ljóð eftir Kjartan Guðmundsson. 4 stúlkur úr þjóðlagasveitinni léku Írsk lög á fiðlu, en þær starfa allar á Höfða í sumar. Þetta eru þær Kristín Sigurjónsdóttir, Gunnþórunn Valsdóttir, Harpa Gylfadóttir og Kristín Ragnarsdóttir. Að lokum tóku svo allir lagið og sungu nokkur gömul og góð lög.

 

Vegna framkvæmda við Höfða er samkomusalurinn lokaður og var samkoman því á gangi 1.hæðar og var mjög vel sótt. Sannaðist þar hið fornkveðna að þröngt mega sáttir sitja.