Piparkökuhús á Höfða

Næstu daga verður til sýnis á Höfða verðlaunahúsið í piparkökuhúsakeppni Kötlu. Húsið er gert af Valdísi Einarsdóttur sem sigraði í þessari keppni í níunda skipti. Að þess sinni er verðlaunahúsið líkan af húsi sem Thor Jensen byggði við Fríkirkjuveg 11 í upphafi síðustu aldar, en þetta hús setur mikinn svip á umhverfi sitt.

 

Þess má geta að móðir Valdísar, Sigríður Jónsdóttir, er íbúi á Höfða.

Kór Saurbæjarkirkju syngur á Höfða

Í morgun var Ragnheiður Guðmundsdóttir djákni með helgistund í samkomusal Höfða. Með henni var kór Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd sem söng nokkra sálma við undirleik Arnar Magnússonar organista.

 

Mikil aðsókn var að þessari helgistund og hátíðleg stemning í salnum.

Jólaball

Í gær var haldið jólaball fyrir börn og barnabörn íbúa og starfsmanna Höfða. Jólasveinarnir Stekkjastaur og Hurðaskellir komu í heimsókn og dansað var í kringum jólatréð. Börnin fengu gos og poka með sælgæti og foreldrarnir kaffi og smákökur.

 

Börn og foreldrar troðfylltu samkomusal Höfða og skemmtu sér vel.

 

Helgihald um jólin

Ragnheiður Guðmundsdóttir djákni var með helgistund í samkomusal á aðfangadagsmorgun. Með henni mættu 8 barnabörn hennar sem sungu nokkra sálma við góðar undirtektir.

 

Á annan í jólum var hátíðarmessa. Sr. Eðvarð Ingólfsson prédikaði og kór Akraneskirkju söng við undirleik Sveins Arnars Sæmundssonar organista. Þórgunnur Stefánsdóttir söng einsöng.

 

Báðar þessar athafnir voru mjög vel sóttar og sköpuðu góða jólastemningu á Höfða.

Gjöf frá nemendum Grundaskóla

Í morgun komu tveir nemendur Grundaskóla, Adda Malín Vilhjálmsdóttir og Nína Alexandersdóttir, og færðu heimilinu fallegan handunninn kertastjaka sem unninn var af nemendum skólans.

 

Nemendur Grundaskóla hafa þann góða sið að heimsækja Höfða fyrir hver jól og færa heimilinu hluti gerða af nemendum. Þessir fallegu munir prýða Höfða.

 

Sigurbjörg Halldórsdóttir hjúkrunarforstjóri veitti gjöfinni viðtöku og þakkaði stúlkunum fyrir þessa góðu gjöf og þann hlýhug sem henni fylgir.

Söngskemmtun

Kvennakórinn Ymur hélt söngskemmtun í samkomusal Höfða s.l. laugardag. Stjórnandi kórsins er Sigríður Elliðadóttir.

 

Góð aðsókn var að tónleikunum og þökkuðu íbúar Höfða þessum góðu gestum fyrir sönginn með öflugu lófataki.

Jólasöngur

Góðir gestir heimsóttu Höfða í morgun. 4 ára börn af Leikskólanum Garðaseli komu ásamt fóstrum og sungu nokkur jólalög í anddyrinu við góðar undirtektir.

Tónleikar Grundartangakórsins.

Grundartangakórinn hélt tónleika á Höfða í gær. Stjórnandi kórsins er Atli Guðlaugsson og einsöngvarar þeir Smári Vífilsson og Bjarni Atlason. Þá söng Tindatríóið sem er skipað þeim feðgum Atla Guðlaugssyni, Bjarna Atlasyni og Guðlaugi Atlasyni.

 

Íbúar Höfða troðfylltu samkomusalinn og gerði söngurinn mikla lukku að vanda, en Grundartangakórinn heimsækir Höfða reglulega og er í miklu uppáhaldi hjá Höfðafólki.

Aðventuhátíð

Aðventuhátíð var haldin á Höfða í gær. Sr. Eðvarð Ingólfsson stjórnaði samkomunni. Ræðumaður var Sigríður Indriðadóttir. Sr. Eðvarð fór með gamanmál. Stúlknakór Akraness og félagar úr Kór Akraneskirkju sungu. Að lokum sameinuðust allir í bæn.

 

Hátíðin tókst í alla staði mjög vel og aðsókn var meiri en nokkru sinni áður.