Afhending á hjóli

IMG_2669

Síðastliðinn fimmtudag fór fram formleg afhending á nýja hjólinu okkar á Höfða. Í febrúar sl. var hrundið af stað formlegri söfnun fyrir hjólinu. Skemmst er frá því að segja að eftir að söfnun hófst hafði Lionsklúbburinn Eðna samband og vildi gefa íbúum á Höfða hjólið. Auk framlags Lionsklúbbsins færði Slysavarnadeildin Líf bæði fjárframlag og hjólahjálma. Einnig safnaðist töluvert í söfnunarbauka á Höfða og að lokum safnaði Andrea Björnsdóttir töluverðum fjármunum í hjólasjóðinn.

Forvígismenn að söfnun og komu hjólsins á Höfða voru María Ásmundsdóttir iðjuþjálfi og Elísabet Ragnarsdóttir sjúkraþjálfari.

Með öllum þessum gjöfum safnaðist fyrir hjólinu töluvert umfram kaupverð þess sem notað verður í búnaðarkaup tengd hjólinu og viðhaldssjóð.

Við athöfnina afhenti Auður Líndal formaður Lionsklúbbsins Eðnu, Maríu Ásmundsdóttur iðjuþjálfa lykla af hjólinu. Við sama tilefni afhentu þær Hallfríður Jóna Jónsdóttir og Anna Kristjánsdóttir hjálma til notkunar á hjólinu ásamt fjárframlag frá Slysavarnadeildinni Líf.

Í ávarpi sínu við afhendinguna þakkaði Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri öllum gefendum fyrir höfðinglega gjöf.

Mikil gleði er meðal íbúa Höfða með nýja hjólið og skín bros úr andliti hvers þess sem sest hefur í hjólið og hlakkar öllum til að hjóla inn í sumarið á Höfða.

Vormarkaður á Höfða

IMG_2599

S.l. laugardag var haldinn vormarkaður á Höfða. Þar var meðal annars í boði úrval af brauði, kleinum, kökum, sultum, broddur, garðplöntum, smámunum o.fl. sem starfsmenn seldu til fjáröflunar fyrir væntanlega utanlandsferð.

Tveir íbúar, Ólöf Hjartardóttir og Anna Þorvarðardóttir,  voru með stórskemmtilega sölubása þar sem boðið var upp á falleg gjafakort, skartgripi og prjónavörum, allt unnið af seljendum.

Í samkomusalnum var boðið upp á kaffi og vöfflur og ávaxtasafa fyrir börnin. Vormarkaðurinn var vel sóttur og mikil ánægja með hann.

Hjólað óháð aldri

HOA_1

Hjólarar óskast

Nú fer að líða að því að við fáum hjólið okkar fína og þá vantar okkur sjálfboðaliða eða svokallaða hjólara til að hjóla með íbúana okkar. Hjólarar eru oftast úr röðum aðstandenda, starfsmanna og annarra velunnara og munu hjólarar fá kennslu á hjólið og læra hvernig umgangast á hjólið.

Sá sem gerist hjólari er vitaskuld í sjálfsvald sett hversu miklum tíma og hversu oft hann sinnir þessu verkefni. Þeir sem ætla aðeins að hjóla með sinn aðstandenda þurfa að gerast hjólarar til að læra umgengnisreglurnar.

Hugmyndin er að stofna lokaðan Facebook hóp fyrir hjólarana, fólk þarf að vita hvenær hjólið er laust og aðrar praktískar upplýsingar.

Allar góðar hugmyndir um hvernig við getum unnið að þessu verkefni saman vel þegnar.

Áhugasamir hafi samband við:

Lísu sjúkraþjálfara sími: 433 4314 sjukrathjalfari@dvalarheimili.is

Maríu iðjuþjálfa sími: 856 4316 idjuthjalfi@dvalarheimili.is