Læknisþjónusta

Öldrunarbreytingar og heilsufarsbrestur eru ástæður þess að fólk sækir um dvöl á dvalarheimili. Oft er erfitt að greina á milli þess hvað eru öldrunarbreytingar og hvað eru afleiðingar sjúkdóma. Nú til dags er yfirleitt búið að reyna allar leiðir til að aðstoða fólk til að geta búið heima áður en til þess kemur að fólk fer á hjúkrunarheimili. Mikið er lagt uppúr því, enda talinn mun ódýrari kostur fyrir þjóðfélagið og gjarnan það sem fólkið sjálft vill. Á öllum stigum öldrunar er mikilvægt að viðhalda og styrkja sjálfsbjargargetu einstaklinga. Fólk hefur að sjálfsögðu sínar leiðir til þess og til að veita aukinn stuðning kemur heimilisaðstoð og heimahjúkrun að málum sem samfélagsaðstoð þegar þess gerist þörf. Ágætur aðgangur er að skammtímavistun hér í bæ, á sjúkrahúsinu, til að meta einstaklinga og endurhæfa í tengslum við þjónustu öldrunarlæknis þar.

Það kemur þó að því að ekki eru önnur ráð betri en að sækja um á dvalarheimili. Mörgum reynist það þó erfiður biti að kyngja.

Stífari reglur eru í dag um hverjir fá inni á heimili en var fyrir 20 árum. Allir einstaklingar sem sækja um vistun á Höfða fara í gegnum svokallað vistunarmat þar sem metin er andleg, líkamleg og félagsleg staða einstaklingsins. Það er svo vistunarmatsnefnd  fyrir landsfjórðunginn sem forgangsraðar inná hin ýmsu dvalar- og hjúkrunarheimili í landshlutanum.

Mikil fjölgun eldra fólks verður á næstu árum. Búast má við að fólk 65 ára og eldra sem er um 13% í dag verði 23% þjóðarinnar e. 30 ár.

Í grein í Læknablaðinu um íbúa hjúkrunarheimila frá sl. ári kom ma. fram að meðaldvalartími á hjúkrunarheimilum á Íslandi er um 3 ár.

Oft eru nýir íbúar fjölveikir einstaklingar. Meðalyfjafjöldi hjá íbúum hjúkrunarheimila eru 9,91 lyf af fjölbreyttu tagi.

Nýir íbúar vistast ýmist á almennu vistrými eða hjúkrunardeild. Það fer eftir getu hvers og eins hvor kosturinn verður fyrir valinu. Með ýmsum ráðum er reynt að viðhalda og styrkja heilsu fólks þegar fólk er komið hér inn. Eftir því sem sjálfsbjargargeta almennra vistmanna verður minni og þeir þarfnast meiri umönnunar færast þeir gjarnan þangað sem hægt er að veita meiri stuðning og á endanum á hjúkrunardeild. Fjölþættri starfsemi bæði dægradvöl og endurhæfingu með góðu starfsfólki er sinnt á heimilinu.

Mikil samvinna er við hjúkrunarfræðinga heimilisins um úrlausnir heilsuvanda sem er auðvitað lykilatriði og þær fylgja síðan eftir fyrirmælum læknisins.

Læknisheimsókn er á mánudögum og fimmtudögum en síðan er læknir á vakt allan sólarhringinn eins og fyrir aðra íbúa læknishéraðsins, bæði fyrir símaráðgjöf og vitjanir.

Meðferð og forvarnir eru með hefðbundnum hætti eftir að fólk kemur á Höfða og gjarnan framhald á þeim samskiptum sem íbúar höfðu áður átt við lækna heilsugæslunnar. Bólusetningar við lungnabólgu og flensum fara fram reglulega. Læknar koma að nokkrum verkefnum sem eru unnin með reglubundnum hætti og eru teymisverkefni ss. byltuforvörnum og RAI mati.

Læknar sinna síðan vanda fólks sem óskar eftir viðtali og auk þess sinna læknar þeim málum sem  hjúkrunafræðingar óska eftir að séu skoðuð. Brugðist er við bráðavandamálum eftir atvikum. Við komu á Höfða er farið ítarlega yfir heilsufar og lyfjanotkun einstaklinga og lögð á ráðin um heilsueflingu. Reglulegt heilsufarsviðtal um almenn heilsuvandamál er síðan árlega við alla íbúa, þar sem farið er yfir hlutina og endurskoðuð lyfjameðferð ofl.

Þegar um er að ræða veikindi sem ekki er talið mögulegt að leysa úr á heimilinu er gjarnan leitað aðstoðar sérfræðinga eftir eðli vandans. Við eigum ágætt samstarf við sérfræðinga sjúkrahússins og leitum iðulega ráða hjá þeim ma. öldrunarlækni. Gott samstarf er við sjúkrahúsið um að taka sjúklinga inn til læknisrannsókna og meðferðar þegar það á við. Við sérstakar aðstæður getur þurft að leita til sérfræðinga á læknastofum.

Íbúar fá öll lyf sem læknar ávísa sér að kostnaðarlausu. Föst lyf eru afgreidd í ½ mánaðarpakkningum “rúllum”  frá Lyfjaveri í Reykjavík. Öll lyfjanotkun og sérfræðingaþjónusta sem greidd er af Höfða þarf að vera í samráði við lækni heimilisins.

Ýmis alvarleg heilsufarsvandamál geta gjörbreytt lífsgæðum eldra fólks og alvarlegir sjúkdómar tekið völdin. Þetta geta verið vandamál sem sækja að sem hægfara hrörnun en einnig sjúkdómar sem skyndilega breyta lísgæðum fólks hjartaáföll, heilablóðföll, krabbamein og fleira.