Þóra heimsækir Höfða

Þóra Arnórsdóttir forsetaframbjóðandi heimsótti Höfða í dag. Með henni í för var Svavar Halldórsson eiginmaður Þóru og nýfædd dóttir þeirra.

Þóra hélt fund í Höfðasal þar sem hún ávarpaði Höfðafólk og síðan spjallaði hún við íbúa og starfsmenn.

Upptökulið frá þýska sjónvarpinu fylgdi frambjóðandanum og tók m.a. viðtöl við nokkra íbúa Höfða.

Herdís heimsækir Höfða

Herdís Þorgeirsdóttir forsetaframbjóðandi heimsótti Höfða í dag og spjallaði við íbúa og starfsmenn. Á myndinni heilsar Herdís upp á Freystein Jóhannsson en þau eru gamlir vinnufélagar af Morgunblaðinu.

Ný gönguleið

Undanfarnar vikur hafa íbúar Höfða og dagdeildarfólk farið í daglegar gönguferðir um hið fagra umhverfi Höfða. Nú hefur ný gönguleið bæst við þær sem fyrir voru, en kominn er malbikaður gangstígur fram á Sólmundarhöfðann með fínum sólpalli þar sem fjöldi manns getur setið og notið góða veðursins.

Haraldur Sturlaugsson beitti sér fyrir þessari framkvæmd og safnaði til þess framlögum frá fjölda einstaklinga og fyrirtækja. Gaf Haraldur nýja gangstígnum nafnið Samfélagsstígurinn.

Ástæða er til að þakka Haraldi og öllum þeim sem lögðu þessu verkefni lið fyrir þessa frábæru viðbót við gönguleiðir í nágrenni Höfða.

Góðviðrisins notið

Undanfarna daga hefur verið frábært veður á Akranesi og hafa íbúar Höfða og dagdeildarfólk notað það til gönguferða um nágrennið. Í næstu viku bætist við ný gönguleið þegar Samfélagsstígurinn verður tekinn í notkun, en han liggur frá lóð Höfða og niður á Sólmundarhöfðann. Þessa dagana er verið að ljúka við smíði sólpalls við stíginn og verður þarna útivistarparadís.

 

Í gær tóku margir þátt í útileikjum; golfpútti, keilukasti o.fl. á nýju aðstöðunni sunnan við viðbygginguna. Þar eru einnig stórir gróðurkassar með jarðarberjaplöntum, kryddjurtum og káli og fylgjast íbúar Höfða vel með hvernig til tekst með ræktunina.