Helgihald um hátíðarnar

Á aðfangadagsmorgun var Ragnheiður Guðmundsdóttir djákni með helgistund í samkomusal. Með henni voru barnabörn hennar sem sungu nokkra jólasálma við gítarundirleik sonar djáknans.

Á annan jóladag var hátíðarmessa. Sr. Eðvarð Ingólfsson predikaði og kór Akraneskirkju söng við undirleik Sveins Arnar Sæmundssonar.

 

Í morgun var svo helgistund djákna. Þar söng kór Saurbæjarprestakalls. Organisti var Örn Magnússon.

 

Allar þessar samkomur voru vel sóttar og áttu stóran þátt í að skapa hátíðarstemningu á Höfða

Jólaball

Í gær var jólaball á Höfða fyrir börn og barnabörn íbúa og starfsmanna. Bjórbandið lék jólalögin og Andrea Guðjónsdóttir söng. Tveir jólasveinar komu í heimsókn og útdeildu gjöfum til barnanna. Ballið var mjög vel sótt bæði af börnum og aðstandendum og skemmtu sér allir vel. Að balli loknu þáðu gestir veitingar í boði Höfða.

 

 

 

 

 

Skemmtileg sýning

Fyrir jólin bauð Haraldur Sturlaugsson Höfðafólki að heimsækja sýningu sína í stjórnsýsluhúsinu, en þar er íþróttasaga Akraness í 100 ár rakin í máli og myndum. Stór hópur þáði þetta góða boð og hafði mikla ánægju af sýningunni, enda rifjuðust upp fyrir mörgum góðu gömlu dagarnir við að skoða myndirnar.

 

Áður en heim var haldið bauð Haraldur upp á rausnarlegar veitingar.

Góðir gestir heimsækja Höfða

Margir góðir gestir heimsóttu Höfða í síðustu viku. Á þriðjudagsmorgni komu börn úr Leikskólanum Vallarseli og fluttu helgileik. Var gaman að sjá hvað börnin lögðu sig fram og hvað flutningur þeirra var góður. Gerði sýningin mikla lukku hjá íbúum Höfða. Að sýningu lokinni var flytjendum boðið upp á Svala sem rann ljúflega niður.

 

Síðdegis á þriðjudag kom svo Grundartangakórinn með sína árlegu jólatónleika, en þessi góði kór hefur heimsótt Höfða ár hvert í aldarfjórðung. Stjórnandi kórsins er Atli Guðlaugsson.

 

Smári Vífilsson og Guðlaugur Atlason sungu einsöng. Grundartangakórinn er alltaf jafn vinsæll hjá íbúum Höfða sem njóta þess að hlýða á þennan ágæta karlakór.

 

Á miðvikudag kom svo kór Orkuveitu Reykjavíkur söng nokkur lög við góðar undirtektir.

Öllum þeim fjölmörgu listamönnum sem hafa heimsótt Höfða á árinu eru færðar bestu þakkir.

 

 

Skemmtanir

Margir góðir gestir hafa heimsótt Höfða að undanförnu og skemmt íbúum heimilisins. Í síðustu viku komu tvær stúlkur úr tónlistarskólanum og léku nokkur jólalög í matsalnum á kaffitíma. Þær heita Kim Klara sem spilaði á fiðlu og Sóley Hafsteinsdóttir á flautu. Góður rómur var gerður að flutningi þeirra.

 

Á miðvikudag kom Óskar Pétursson, Álftagerðisbróðir, og kynnti nýjan geisladisk sinn. Óskar söng nokkur lög og sagði gamansögur við góðar undirtektir íbúa Höfða sem troðfylltu samkomusalinn.

 

Á föstudag komu svo Davíð Ólafsson bassi og Stefán Helgi Stefánsson tenór og sungu jólalög og önnur lög við mikla hrifningu Höfðafólks sem hyllti þá vel og lengi að skemmtun lokinni. Þess má geta að Davíð er náfrændi Jónínu Finsen íbúa á Höfða og á meðfylgjandi myndi heilsar hann upp á frænku sína.

 

Von er á fleiri góðum gestum í þessari viku.

 

Miss world á laugardag

 

Miss world keppnin verður haldin í Suður-Afríku á laugardaginn. Fulltrúi Íslands í keppninni er fegurðardrottning Íslands, Guðrún Dögg Rúnarsdóttir, en hún hefur starfað í mötuneyti Höfða síðustu tvö sumur og einnig með skóla síðustu tvo vetur.

 

Þátttakendur hafa verið í stífum  undirbúningi s.l. 7 vikur í London, Dubai og Suður-Afríku frá því snemma á morgnana og fram á kvöld dag eftir dag.

 

Íbúar og starfsmenn Höfða senda Guðrúnu Dögg baráttukveðjur og óska henni góðs gengis í keppninni.

Aðventusamkoma

Í gær var aðventusamkoma á Höfða. Sr. Eðvarð Ingólfsson stjórnaði samkomunni.

 

Ræðumaður var Ingibjörg Pálmadóttir. Sr. Eðvarð fór með gamanmál. Kór Akraneskirkju söng undir stjórn Sveins Arnars Sæmundssonar.

 

Þá lék Baktríóið, skipaði þeim Sveini Arnari, Kristínu Sigurjónsdóttur og Baldri Ketilssyni tvö lög, annað þeirra samið af Baldri. Að lokum sameinuðust allir í bæn.

 

Hátíðin tókst í alla staði mjög vel og var vel sótt af íbúum Höfða og Höfðagrundar sem fylltu samkomusalinn. Eftir samkomuna var svo boðið upp á kaffi og smákökur.