Listsýningar

 

Í dag voru opnaðar sýningar á verkum þriggja Skagamanna í tilefni 30 ára afmæli Höfða. Sýndir eru skúlptúrar Guttorms Jónssonar, málverk Guðmundar Þorvaldssonar og glerlist Jónsínu Ólafsdóttur.

 

Við opnun sýninganna flutti Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri Höfða ávarp og Sigursteinn Hákonarson söng nokkur lög við undirleik Sveins Arnars Sæmundssonar.

 

Síðan var boðið upp á léttar veitingar meðan gestir skoðuðu verk listamannanna.

 

Mjög góð aðsókn var að opnuninni, en sýningarnar standa út Vökudaga til 9.nóvember.

 

 

Konsúll Færeyja í heimsókn

Í dag heimsótti Gunnvör Balle konsúll Færeyja á Íslandi Höfða. Með henni för voru Gunnar Sigurðsson settur bæjarstjóri, Jón Pálmi Pálsson bæjarritari og Helga Gunnarsdóttir sviðsstjóri.

 

Gestirnir skoðuðu heimilið og snæddu síðan hádegisverð með framkvæmdastjóra, húsmóður og hjúkrunarforstjóra.

Hallgrímur og Eðvarð syngja

Í dag heimsóttu Hallgrímur Árnason og Eðvarð Árnason Höfða og skemmtu íbúum við góðar undirtektir. Hallgrímur söng gömlu góðu dægurlögin og spilaði á gítar og Eðvarð á harmonikku.

 

Góð aðsókn var að skemmtun þeirra félaga og margir tóku undir sönginn.

Heimsókn þingmanna

Jón Bjarnason og Katrín Jakobsdóttir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs heimsóttu Höfða í dag og spjölluðu við íbúa og starfsmenn, en nú standa yfir kjördæmadagar á Alþingi þar sem þingmenn fara um kjördæmin og hitta fólk að máli.

Sláturgerð

Í dag og í gær hafa íbúar Höfða staðið í sláturgerð með aðstoð nokkurra starfsmanna. Tekin voru 100 slátur. Fólk var einbeitt við sláturgerðina og handtökin fagmannleg. Augljóst var að þeir sem að sláturgerðinni stóðu hafa tekið slátur allan sinn búskap.

 

Létt var yfir mannskapnum og augljóst að allir höfðu af þessu gaman. Fyrsta sláturmáltíðin verður framreidd á morgun, en slátrið er sívinsæll matur hjá íbúum og starfsfólki Höfða.

Yfirblandari í sláturgerðinni var sem endranær Svandís Stefánsdóttir.

Aðalfundur Höfða

Aðalfundur Dvalarheimilisins Höfða var haldinn í gær.

Benedikt Jónmundsson formaður stjórnar Höfða flutti ítarlega skýrslu stjórnar og Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri skýrði ársreikning Höfða og Gjafasjóðs Höfða.

 

Gísli S.Einarsson bæjarstjóri flutti kveðjur bæjarstjórnar og lýsti ánægju með starfsemi Höfða og samstarf við stjórn og starfsfólk.

 

Fundarstjóri var Rún Halldórsdóttir og fundarritari Karen Jónsdóttir.