Vígsla hjúkrunarálmu

Nýja hjúkrunarálman var vígð í dag. Kristján Sveinsson formaður stjórnar Höfða bauð gesti velkomna og Sr. Eðvarð Ingólfsson flutti blessunarorð og vígði húsi.

 

Eftir að gestir höfðu skoðað húsið var boðið til kafiisamsætis í Höfðasal. Þar söng Árni Geir Sigurbjörnsson nokkur lög við undirleik Sveins Arnars Sæmundssonar bæjarlistamanns. Þá flutti Sigurfinnur Sigurjónsson ávarp fyrir hönd verktaka, Þorvaldur Vestmann formaður framkvæmdanefndar rakti sögu byggingarinnar og síðan fluttu ávörp Margrét Magnúsdóttir sem afhenti rausnarlega gjöf frá Kvenvélaginu Björk í Skilmannahreppi, Ása Helgadóttir sveitarstjórnarmaður í Hvalfjarðarsveit, Guðmundur Páll Jónsson formaður bæjarráðs Akraness og Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra.

 

Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri þakkaði öllum sem að verkinu hafa komið og einnig þeim sem færðu Höfða gjafir og blóm.

Góð uppskera

Mjög góð grænmetisuppskera var í sumar í nýju gróðurkössunum á lóð Höfða. Hafa starfsmenn gætt sér á grænmetinu með hádegismatnum undanfarnar vikur. Þá uxu fyrstu eplin á eplatrjánum sem sett voru niður í fyrra.

Fjölgun dvalarrýma

Í lok ágúst heimilaði Velferðarráðuneytið Höfða að fjölga dvalarrýmum um þrjú frá og með 1.september. Þar með hefur þeim fimm rýmum sem tekin voru af Höfða í ársbyrjun 2011 verið skilað aftur, en tveimur hjúkrunarrýmum var skilað í ársbyrjun 2012 samfara lokun E-deildar sjúkrahússins á Akranesi.

 

Fjölgun dvalarrýma kemur sér vel þar sem yfir 30 manns eru á biðlista fyrir vistun á Höfða.