Vel heppnuð samverustund

S.l. föstudag héldu íbúar Höfða og dagdeildarfólk samverustund í samkomusalnum. Þar flutti Kjartan Guðmundsson draugasögur og einnig frumortar gamanvísur, Guðrún Adolfsdóttir lék nokkur lög á píanó.

 

Skarphéðinn Árnason fór með kveðskap og Guðjónína Sigurðardóttir stjórnaði fjöldasöng og lék undir á gítar.

 

Þessi samverustund tókst mjög vel. Samkomusalurinn var troðfullur og skemmti fólk sér vel og höfðu flestir á orði að þetta þyrftum við að gera fljótlega aftur.

Skátabingó

Í dag heimsóttu Höfða góðir gestir, 3 stúlkur úr skátaflokknum Meyjarnar, þær Lilja Rut Bjarnadóttir, Sigríður Lóa Björnsdóttir og Erla Guðmundsdóttir. Þær héldu bingó fyrir heimilisfólk og sungu nokkur lög.

 

Bingóvinningarnir voru sérlega glæsilegir, en þær stöllur höfðu fengið þá gefna hjá nokkrum verslunum á Akranesi.

 

Mikil þátttaka var í bingóinu og almenn ánægja með heimsókn þessara góðu gesta.

Aðstandendafundur

 Í gær var haldinn fundur með aðstandendum íbúa á Höfða. Þar sagði Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri frá rekstri Höfða, starfsmannahaldi, fyrirhuguðum framkvæmdum o.fl. og Helga Atladóttir hjúkrunarforstjóri ræddu um hjúkrun og aðhlynningu og sagði frá tengiliðakerfi sem tekur gildi í þessum mánuði.

 

Þau Guðjón, Helga og deildarstjórarnir Sólveig Kristinsdóttir, Sigrún Valgarðsdóttir og Margrét A.Guðmundsdóttir sátu síðan fyrir svörum og tóku þátt í umræðum með fundargestum.

 

Fundurinn var mjög vel sóttur. Boðið var upp á kaffi, kleinur og heimabakað brauð.

Höfðagleði

Hin árlega Höfðagleði var haldin s.l. föstudagskvöld. Á Höfðagleði mæta íbúar, starfsmenn, fyrrverandi starfsmenn sem hafa hætt vegna aldurs og stjórn Höfða, alls um 170 manns. Margrét A.Guðmundsdóttir setti skemmtunina og stjórnaði henni. Borin var fram þríréttuð veislumáltíð sem samanstóð af humarsúpu, lambafille og desert. Var almenn ánægja með þennan frábæra mat sem Haukur bryti og hans fólk reiddi fram.

 

Dregið var í happdrætti þar sem íbúar og starfsmenn fengu glæsilega vinninga í boði Einars Ólafssonar kaupmanns og Kjarnafæðis.

 

Guðrún Björnsdóttir, Ólöf Auður Böðvarsdóttir og Guðrún Sigurbjörnsdóttir voru með ÚTVARP HÖFÐA, þar sem fluttar voru fréttir og óskalög, Guðrún Sigurbjörnsdóttir lék Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra sem söng ástaróð til framkvæmdastjóra, sonardóttir Sigrúnar Halldórsdóttur og hennar dansherra voru með frábæra danssýningu, Guðni Ágústsson ávarpaði samkomuna og fór á kostum og Hulda Gestsdóttir söng nokkur lög.

 

Að lokum var dansað til miðnættis við undirleik Jóns Heiðars Magnússonar, Geirs Guðlaugssonar og Sirrýjar Indriðadóttur.

 

Höfðagleðin þótti takast sérlega vel að þessu sinni og var  mikil ánægja var með veitingar, skemmtiatriði og músik.