Heimsókn frá Hrafnistu

Starfsfólk endurhæfingardeildar Hrafnistu heimsótti Höfða s.l. föstudag. Þau skoðuðu heimilið í fylgd Elísabetar Ragnarsdóttur sjúkraþjálfara. Leist þeim mjög vel á heimilið og hið fagra umhverfi þess.

 

Að lokum þáðu þau veitingar og fóru síðan í heimsókn á Sjúkrahús Akraness.

Heilbrigðisráðherra í heimsókn

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra heimsótti Höfða í morgun. Í fylgd með honum var Gunnar Sigurðsson forseti bæjarstjórnar Akraness.

 

Þeir funduðu með formanni stjórnar og framkvæmdastjóra Höfða sem kynntu þeim rekstur heimilisins og fyrirætlanir um stækkun húsnæðis Höfða. Þá kynnti ráðherra framtíðarsýn sína í málefnum aldraðra.

 

Þá færði dagvistarfólk ráðherranum að gjöf rúðusköfu með lopahanska fyrir veturinn, en þetta er meðal þeirra fjölmörgu muna sem þar eru framleiddir og verða seldir á bazarnum 3.nóvember n.k.

Höfðingleg gjöf

 

Í gær afhenti Svanborg Frostadóttir útibússtjóri Kaupþing banka Höfða að gjöf 500 þúsund krónur sem bankinn gefur til kaupa á öryggismyndavél.

 

Benedikt Jónmundsson formaður stjórnar Höfða veitti gjöfinni viðtöku og þakkaði bankanum þessa höfðinglegu gjöf.

Söngskemmtun Kammerkórs Akraneskirkju

Í gær hélt Kammerkór Akraness söngskemmtun á Höfða. Flutt var úrval laga upp úr Ljóðum og lögum, söngheftum sem Þórður Kristleifsson gaf út á árunum 1939-1949. Meðal þekktra laga sem þarna voru flutt voru Húmar að kvöldi, Efst á Arnarvatnshæðum, Álfareiðin og Við brunninn bak við hliðið.

 

Þetta var frábær söngskemmtun og troðfullur samkomusalur þakkaði flytjendum með lófataki og uppklappi.

 

Stjórnandi Kammerkórs Akraness er Sveinn Arnar Sæmundsson.

Góð bókagjöf

Í dag kom Kristján Kristjánsson bókaútgefandi hjá Uppheimum færandi hendi á Höfða og færði dagvistun heimilisins að gjöf allar 7 bækurnar sem hann hefur gefið út af Árbók Akurnesinga.

 

Þessi höfðinglega gjöf er vel þeginn, en fólkið í dagvistinni les mikið og hefur gaman af upprifjun á sögu bæjarins.