Vegleg hljóðfæragjöf

Í gær afhenti Hafdís Daníelsdóttir Höfða veglega hljóðfæragjöf, píanó og gítar, til minningar um mann sinn Helga Andrésson sem lést í bílslysi á Kjalarnesi þennan dag fyrir 10 árum. Gjöfin er frá Hafdísi, börnum hennar og barnabörnum og voru þau viðstödd athöfn í tilefni gjafarinnar.

 

Margrét A. Guðmundsdóttir bauð gesti velkomna, Hafdís flutti ávarp og afhenti framkvæmdastjóra fallegan blómvönd, Kristján Sveinsson formaður stjórnar Höfða þakkaði þessa góðu gjöf og minntist starfa Helga fyrir Starfsmannafélag Akraneskaupstaðar, en meirihluti starfsmanna Höfða eru þar félagsmenn.

 

Viðstaddir þessa athöfn voru flestir íbúar Höfða, en að henni lokinni var boðið upp á kaffi og meðlæti. Þar fluttu stutt ávörp Guðjón framkvæmdastjóri og Ragnar Leósson íbúi á Höfða

Höfðagleði 2012

Hin árlega Höfðagleði var haldin s.l. föstudagskvöld. Á Höfðagleði mæta íbúar, starfsmenn, fyrrverandi starfsmenn sem hafa hætt vegna aldurs, læknar og stjórn Höfða, alls um 170 manns.

Boðið var upp á glæsilega þriggja rétta veislumáltíð sem Haukur bryti og hans fólk í eldhúsinu reiddi fram.

Guðjón setti skemmtunina og tilnefndi Anton Ottesen sem veislustjóra. Ásmundur Ólafsson fyrrverandi framkvæmdastjóri flutti hvatningarávarp, Guðrún fótaaðgerðafræðingur og Guðný hárgreiðslukona fluttu létt skemmtiatriði við undirleik Sigríðar Ketilsdóttur, Jóhannes Kristjánsson fór á kostum í gamanmálum og Karlakórinn Pungur söng nokkur lög.

Margrét A.Guðmundsdóttir og Kristján Sveinsson stjórnarformaður stjórnuðu happdrætti þar sem íbúar og starfsmenn fengu góða vinninga í boði Einars Ólafssonar kaupmanns, Kjarnafæðis og Íslensk Ameríska.

Að lokum var dansað við undirleik hljómsveitarinnar Egg og Bacon sem hélt uppi miklu stuði til miðnættis.

Höfðagleðin þótti takast sérlega vel að þessu sinni og voru þátttakendur hæstánægðir með veitingar, skemmtiatriði og músik.

Pilsavika

Starfsfólk Höfða gerir oft eitthvað skemmtilegt í aðdraganda hinnar árlegu Höfðagleði, en hún verður haldin í kvöld. Að þessu sinni var starfsfólk hvatt til að mæta í pilsum í vinnuna þessa viku.

 

Konurnar tóku sig vel út í pilsunum, en ekki tókst að troða neinum þeirra 5 karla sem starfa á Höfða í Skotapils þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir kvennanna.

 

Á myndinni sjást Hildur Bernódusdóttir og Ásta Björk Arngrímsdóttir með Sigurð J.Hauksson umsjónarmann á milli sín.