Samkoma vegna kvennafrídags

Í dag komu íbúar og starfsmenn saman kl. 14,25 í tilefni kvennafrídagsins og sungu og lásu ljóð. Mæting var mjög góð og mikil stemning í hópnum.

 

 

Gjöf Arion banka

Arion banki hefur fært Höfða að gjöf 20 innrammaðar myndir, teikningar sr. Jóns M.Guðjónssonar af bæjum í nærsveitum Akraness, en þessar myndir hafa prýtt útibú bankans á Akranesi sem nú hefur verið lokað.

 

Myndirnar verða settar upp í nýja matsalnum sem verður tilbúinn til notkunar á fyrri hluta næsta árs.

Ragnar Bjarnason skemmtir á Höfða

Í gær heimsótti hinn sívinsæli Raggi Bjarna Höfða og söng gömlu góðu lögin og fór með gamanmál. Íbúar og dagdeildarfólk tóku undir sönginn og skemmtu sér konunglega. Ása Ólafsdóttir tók tvö lög með Ragga, en hún var dægurlagasöngkona á yngri árum.

 

Bæjarstjóri heimsækir Höfða

Árni Múli Jónasson, nýráðinn bæjarstjóri á Akranesi, heimsótti Höfða í dag. Hann skoðaði heimilið ítarlega, ræddi við starfsmenn og íbúa og fundaði síðan með stjórnendum Höfða þar sem farið var yfir helstu áherslur í starfsemi og rekstri heimilisins. Í för með bæjarstjóra var Tómas Guðmundsson verkefnastjóri bæjarins.