Tónleikar Grundartangakórsins

Grundartangakórinn hélt tónleika í samkomusal Höfða í gær.

 

Stjórnandi kórsins er Atli Guðlaugsson og einsöngvarar þeir Smári Vífilsson, Bjarni Atlason og Guðlaugur Atlason. Þá söng Tindatríóið tvö lög, en tríóið er skipað þeim feðgum Atla Guðlaugssyni, Bjarna Atlasyni og Guðlaugi Atlasyni. Flosi Einarsson lék undir á píanó og Sigurbjörn Hlynsson lék á gítar.

 

Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri þakkaði kórnum fyrir góða skemmtun og gat þess að Grundartangakórinn hefði sungið á Höfða árlega s.l. 25 ár og undanfarin ár tvisvar á ári. Kórinn hefði því sýnt íbúum Höfða einstakan hlýhug og vináttu og verið mikill gleðigjafi í félagslífi heimilisins.

 

Í þakklætisskyni færði hann kórnum afsteypu af Grettistaki og bað Þorstein Ragnarsson að veita henni viðtöku, en Þorsteinn er eini kórfélaginn sem hefur sungið samfellt með kórnum þau 28 ár sem hann hefur starfað.

 

Þorsteinn þakkaði gjöfina og sagði að henni yrði fundinn góður staður á Grundartanga. Þá sagði hann alltaf jafn gaman að syngja á Höfða, góðar móttökur og þakklátir áheyrendur.

 

Söngur kórsins gerði að vanda mikla lukku, enda kórinn í miklu uppáhaldi hjá íbúum Höfða. Hylltu þeir kórinn með lófataki.