Stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra í heimsókn

Í dag heimsótti stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra Höfða, þau Rannveig Guðmundsdóttir formaður, Unnar Stefánsson, Bernharður Guðmundsson, Dagmar Huld Matthíasdóttir og Helgi Hjálmsson. Með þeim í för voru Ólafur Gunnarsson öldrunarlæknir, Guðbjartur Hannesson formaður fjárlaganefndar og Vilborg Ingólfsdóttir frá Félagsmálaráðuneytinu.

 

Benedikt Jónmundsson formaður stjórnar Höfða, Helga Atladóttir hjúkrunarforstjóri, Margrét A.Guðmundsdóttir húsmóðir og Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri tóku á móti gestunum og sýndu þeim heimilið. Guðjón kynnti þeim starfsemi Höfða og fyrirhugaðar framkvæmdir við stækkun þjónusturýma og lokaða deild fyrir heilabilaða.

 

Gestir og heimamenn ræddu ítarlega um stækkunarhugmyndir, en fyrir stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra liggur umsókn Höfða vegna næsta framkvæmdaáfanga.

Höfðagleði

Hin árlega Höfðagleði var haldin s.l. föstudagskvöld. Á Höfðagleði mæta íbúar, starfsmenn, fyrrverandi starfsmenn sem hafa hætt vegna aldurs og stjórn Höfða, alls um 170 manns.

 

Boðið var upp á glæsilega þriggja rétta veislumáltíð sem Haukur kokkur og hans fólk í eldhúsinu reiddi fram.

 

Hinn landskunni Ómar Ragnarsson stjórnaði skemmtuninni að þessu sinni og fór á kostum. Hann flutti ótal skemmtiatriði og söng við undirleik Hauks Heiðar.

 

Sigurbjörn Skarphéðinsson söng gamanvísur og Höfðakórinn söng nokkur lög við undirleik Hauks Heiðar. Þá var dregið í happdrætti þar sem íbúar og starfsmenn fengu glæsilega vinninga í boði Einars Ólafssonar kaupmanns.

 

Að lokum var dansað til miðnættis við undirleik Jóns Heiðars Magnússonar, Geirs Guðlaugssonar og Sirrýjar Indriðadóttur.

 

Höfðagleðin tókst vel að vanda og var almenn ánægja með veitingar, skemmtiatriði og músik.

Ljósmyndasýning

Í gær var opnuð á Höfða sýning á ljósmyndum Kristínar Gísladóttur. Myndirnar eru allar til sölu.

 

Fermingarfræðsla

Í dag heimsóttu Höfða 16 ungmenni úr Grundaskóla. Þau eiga að fermast í vor og óskuðu eftir að hitta íbúa Höfða og forvitnast um hvernig undirbúningi og fræðslu var háttað þegar þau voru fermd.

 

Fjórir íbúar Höfða, þau Björn Gústafsson, Gunnvör Björnsdóttir, Kjartan Guðmundsson og Stefán Bjarnason, hittu fjögur ungmenni hver og fræddu þau um hvernig staðið var að fermingu þeirra fyrir mörgum áratugum.

Unga fólkið var í fylgd kennara síns, Hjördísar Grímarsdóttur. Allir sem tóku þátt í þessu spjalli höfðu af því mikla ánægju.

 

Sigríður 100 ára

Sigríður Guðmundsdóttir, sem jafnan er kennd við Hvítanes, á 100 ára afmæli í dag. Sigríður hefur búið á Höfða frá 27.maí 2006 og unir hag sínum vel. Hún mætir á hverjum morgni inn á dagdeild þar sem hún les blöðin og fæst við hannyrðir. Hún mætir reglulega í spilavistina og hefur til skamms tíma fylgst með fótbolta í sjónvarpinu, en margir afkomendur hennar eru landskunnir knattspyrnumenn.

 

Afkomendur Sigríðar halda henni veislu í samkomusal Höfða kl. 16-18 í dag. Íbúar og starfsmenn Höfða senda henni hjartanlegar hamingjuóskir.

 

Á myndinni er Sigríður í stólnum hjá Guðnýju hárgreiðslukonu að morgni afmælisdags.

Bocciamót

Hinu árlega Boccia móti Höfða lauk í gær. Keppnin var að vanda jöfn og spennandi. 8 lið tóku þátt í mótinu.

 

Liðin voru þannig skipuð:

SKÝIN:

Anna M.Jónsdóttir,

Sjöfn Jóhannesdóttir og

Guðrún Adolfsdóttir.

 

FÁLKAR:

Guðný Þorvaldsdóttir,

Lilja Pétursdóttir og

Ásta Albertsdóttir.

 

FOLAR:

Björn Gústafsson,

Hákon Björnsson og

Guðrún Kjartansdóttir.

 

STRÁIN:

Jóhannes P.Halldórsson,

Rakel Jónsdóttir og

Bjarney Hagalínsdóttir.

 

ERNIR:

Magnús Guðmundsson,

Lára Arnfinnsdóttir og

Gunnvör Björnsdóttir.

 

RÚSÍNUR:

Tómas Sigurðsson,

Vigfús Sigurðsson og

Lúðvík Björnsson.

 

SÓLIR:

Þuríður Jónsdóttir,

Auður Elíasdóttir og

Kristján Pálsson.

 

GARPAR:

Gunnar Guðjónsson,

Sigurjón Jónsson og

Svava Símonardóttir.

 

Í þriggja liða úrslitum kepptu FOLAR, STRÁIN og RÚSÍNUR. Úrslit urðu þau að FOLAR sigruðu, RÚSÍNUR lentu í 2.sæti og STRÁIN í 3 sæti.

 

Edda og Adda voru dómarar og stjórnuðu mótinu af röggsemi og í léttum dúr. Fjöldi áhorfenda var á öllum leikjunum.

 

Verðlaunaafhending fór fram í morgun. Að henni lokinni léku 3 starfsmenn; Unnur, Sigurbjörg og Erla sýningarleik. Kom í ljós að þær komust ekki með tærnar þar sem íbúarnir hafa hælana í Boccia!

Höfðabíó

S.l. föstudagskvöld bauð Höfði starfsmönnum og gestum á einkasýningu á kvikmyndinni MAMMA GÓGÓ í Bíóhöllinni. Um 160 manns mættu á sýninguna og skemmtu sér vel.

Höfðingleg gjöf

Í dag heimsóttu Höfða 8 konur úr Kvenfélaginu Björk í Skilmannahreppi og færðu heimilinu að gjöf rafstýrðan, leðurklæddan hægindastól fyrir dagdeild og hjartastuðtæki. Skilmannahreppur hefur nú sameinast öðrum hreppum sunnan Skarðsheiðar í sveitarfélagið Hvalfjarðarsveit og Kvenfélagið Björk hefur hætt starfsemi sinni. Félagið átti peninga í sjóði og ákváðu konurnar að gefa þá til góðra mála og nýtur Höfði góðs af því. Þess má geta að starfssvæði Höfða er Akranes og Hvalfjarðarsveit.

 

Margrét Magnúsdóttir afhenti gjafirnar. Helga Atladóttir og Margrét A.Guðmundsdóttir veittu þeim viðtöku.