Greinasafn fyrir flokkinn: Uncategorized

Tilkynning til aðstandenda íbúa á Höfða

Kæru aðstandendur

Á upplýsingafundi almannavarna í dag voru kynntar tilslakanir varðandi heimsóknir á hjúkrunarheimili.

Samkvæmt útgefnum leiðbeiningum þarf hvert heimili að aðlaga fjölda heimsókna að sínum aðstæðum.

Heimsóknir verða leyfðar inn á hjúkrunarheimili frá 4. maí 2020 samkvæmt nánari reglum hvers heimilis en lagt er til að aðeins nánasta aðstandanda verði leyft að koma inn á heimilið fyrstu tvær vikurnar frá því að tilslakanir hefjast og lengur ef svo ber undir.

Hafin er vinna við reglur um heimsóknir til íbúa á Höfða og verða þeir kynntar þriðjudaginn 28. apríl. 

Heilsa og velferð íbúanna okkar þarf alltaf að vera í forgangi og því munum við fara varlega í tilslakanir á heimsóknarbanni og verða þær með miklum takmörkunum.

Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri

Ólína Ingibjörg Gunnarsdóttir hjúkrunarforstjóri

Fréttir frá Höfða

Kæru aðstandendur

Á upplýsingafundi ríkisstjórnarinnar 14. apríl s.l. nefndi forsætisráðherra í máli sínu að tilslakanir á heimsóknarbanni hjúkrunarheimila væru í undirbúningi og á daglegum fundi Almannavarna í vikunni nefndi Landlæknir að þessar tillögur yrðu kynntar í næstu viku.

Vinnuhópur á vegum Almannavarna, Embættis landlæknis, heilbrigðisráðuneytis og hjúkrunarheimila hefur fundað reglulega síðustu vikur og er hópurinn nú að vinna tillögur að þessum tilslökunum. Þær verða gerðar í hægum skrefum en fyrstu tilslakanirnar munu væntanlega taka gildi 4. maí. Fram að 4. maí verða engar breytingar á núverandi heimsóknarbanni.

Tilslakanirnar verða kynntar síðasta vetrardag, miðvikudaginn í næstu viku (22. apríl) og þykir okkur líklegt að það muni verða mjög lítil skref í einu til að byrja með. Um leið og þessar upplýsingar liggja fyrir munum við fara að skipuleggja með hvað hætti þetta yrði hér hjá okkur.

Við gerum okkur grein fyrir að aðstandendur og íbúar eru orðnir óþreyjufullir að hittast en á sama tíma viljum við vera mjög varkár. Þar sem íbúar Höfða rétt eins og annarra hjúkrunarheimila eru flestir aldraðir og/eða með ýmsa undirliggjandi sjúkdóma eru þeir í sérstökum áhættuhóp tengt því að veikjast alvarlega af Kórónaveirunni. Það þarf því að fara afskaplega varlega í að opna heimilið fyrir utanaðkomandi gestum.

Heilsa og velferð íbúanna okkar þarf alltaf að vera í forgangi og því ef til vill vissara að byrja mjög hægt og með miklum takmörkunum.

Allmargir íbúar á Höfða hafa lýst yfir ótta og þykir öryggi sínu ógnað ef opna á heimilið. Við þurfum líka að virða óskir þeirra og sýna þeim skilning.

Að lokum viljum við þakka fyrir þolinmæði ykkar og skilning og ekki hvað sist góðar og hlýjar kveðjur.

Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri

Ólína Ingibjörg Gunnarsdóttir hjúkrunarforstjóri

Tilkynning til aðstandenda íbúa á Höfða

Kæru aðstandendur

Mörg heimili eru að fá fyrirspurnir frá ættingjum varðandi það að taka íbúa hjúkrunarheimila út af heimilinu yfir páska í matarboð eða í heimsóknir til ættingja. Almennt hafa stjórnendur heimila verið hvattir til að hafna slíkum beiðnum og er bent á upplýsingafund Almannavarna frá því á mánudaginn þar sem Anna Birna hjúkrunarforstjóri Sóltúns fór yfir stöðuna og síðustu mínúturnar á fundi Almannavarna og sóttvarnalæknis í gær. Eins og fram kom á þessum fundum erum við að nálgast hápunkt faraldursins og nauðsynlegt að allt samfélagið virði þessar takmarkanir og allir séu samtaka í því að vernda þennan áhættuhóp sem býr innan heimilisins. Á hjúkrunarheimilum býr viðkvæmasti hópurinn og ljóst að ef upp kemur sýking þá er það dauðans alvara.

Eins og Víðir tók fram á fundinum í gær þá vilja almannavarnir og sóttvarnarlæknir að heimsóknarbannið gangi í báðar áttir. Þannig að ef íbúi hjúkrunarheimilis fer sjálfur eða er tekinn af ættingjum út af hjúkrunarheimilinu, getur heimilið hafnað því að hleypa honum aftur inn. Mun þá væntanlega þurfa að skoða að útskrifa íbúann. Ef til þessa kemur mun verða farið yfir málið í samstarfshóp á vegum sóttvarnarlæknis.

Í ljósi þessara upplýsinga og þessarar grafalvarlegu stöðu í þjóðfélaginu eru það eindregin tilmæli frá okkur að ættingjar taki ekki aðstandanda sinn af Höfða heim til sín í heimsókn eða í bíltúr meðan á samkomubanninu stendur. Íbúar eins og aðrir þegnar þjóðfélagsins verða að virða 2ja metra regluna og ferðast innanhúss eins og við hin og hlýða Víði. Þetta er gert af umhyggju og til að gæta fyllstu varúðar gagnvart skjólstæðingum okkar.

Við höfum fengið nokkrar athugasemdir varðandi starfsfólk okkar sem kemur inn á heimilið og fer heim að vakt lokinni. Það er algjörlega ljóst að við getum ekki veitt þjónustu inn á heimilinu nema hafa starfsfólk. Hér hefur starfsfólk tekið hlutverk sitt mjög alvarlega og dregið sig í hlé eins og kostur er utan vinnutíma til að vernda skjólstæðinga sína hér á heimilinu.

Við biðlum til aðstandenda að virða þessi tilmæli og bjóða ekki íbúum Höfða heim um páskana

Með vinsemd og virðingu

Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri

Ólína Ingibjörg Gunnarsdóttir hjúkrunarforstjóri

Gjöf frá Lionsklúbbi Akraness

Frá afhendingu Ipad spjaldtölvanna. F.v. Benjamín Jósefsson, Kjartan Kjartansson, Ólína Ingibjörg Gunnarsdóttir og Ólafur Grétar Ólafsson.

Þeir komu færandi hendi forsvarsmenn Lionsklúbbs Akraness í gær þegar þeir gáfu Höfða að gjöf fjórar Ipad spjaldtölvur, ásamt heyrnartólum. Það voru þau Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri og Ólína Ingibjörg Gunnarsdóttir hjúkrunarforstjóri sem veittu gjöfinni viðtöku. Að sögn Benjamíns Jósefssonar hjá Lionsklúbbi Akraness ákvað klúbburinn að bregðast skjótt við í ljósi þess að heimsóknabann er í gildi. Tækin eiga að auðvelda að íbúar á Höfða geti haft samskipti í gegnum tölvurnar við vini og venslafólk heima fyrir. Benjamín gat þess einnig að verslunin Omnis á Akranesi hafi bæði gefið klúbbnum veglegan afslátt af tækjakaupunum en auk þess gefur verslunin hulstur til að hlífa tækjunum við hnjaski.

Við á Höfða viljum færa Lionsmönnum kærar þakkir fyrir gjöfina sem mun koma sér vel fyrir íbúa heimilisins.

Bakvarðasveit Höfða

Góðan dag kæru vinir og velunnarar

Höfði hjúkrunar- og dvalarheimili hefur í ljósi stöðunnar sem uppi er ákveðið að kalla eftir vöskum einstaklingum sem væru tilbúnir til að vera í Bakvarðasveit Höfða ef upp koma þær aðstæður að okkar öflugu starfsmenn forfallast.

Okkar starfsemi eru þannig að það er ekki hægt að minnka eða hætta þjónustu og við þurfum að hafa starfsfólk til taks allan sólarhringinn alla daga.

Starfsemin nær yfir marga þætti, hjúkrun, umönnun, aðhlynningu, félagsstarf og margt fleira. Og eins og á öðrum heimilum þá þarf að elda mat og þrífa.

Við leitum því til allra þeirra sem hafa tök á að veita tímabundna aðstoð með skömmum fyrirvara og mynda þannig bakvarðasveit um okkar mikilvægu starfsemi.

Reynsla af störfum er kostur en ekki skilyrði. Við viljum vera viðbúin hinu versta en vonum það besta.

Þeir sem vilja skrá sig í bakvarðasveitina sendi póst á netfangið o.ingibjorg@dvalarheimili.is merkt bakvarðasveit.

Með vinsemd og þakklæti
Ólína Ingibjörg Gunnarsdóttir
Hjúkrunarforstjóri Höfða

 

Áríðandi tilkynning til íbúa, ættingja og starfsfólks Höfða

Áríðandi tilkynning til íbúa, ættingja og starfsfólks Höfða vegna sýkingar af völdum Kórónaveirunnar (COVID-19) á Íslandi.

Stjórn og stjórnendur Höfða hefur tekið þá ákvörðun að loka hjúkrunarheimilinu fyrir heimsóknum ættingja og annarra gesta frá og með 7. mars 2020 þar til annað verður formlega tilkynnt. Er þetta gert að höfðu samráði við Sóttvarnarlækni og Landlækni eftir að Neyðarstigi almannavarna var lýst yfir í gær. Höfði er hér að fylgja eindregnum tilmælum þessara aðila sem eru í framvarðasveit Almannavarna Íslands.

 Heilsa og velferð íbúanna þarf alltaf að vera í forgangi !

Nú er staðfest að smit vegna Kórónaveirunnar hafa borist á milli einstaklinga í þjóðfélaginu. Þar sem íbúar Höfða eru flestir aldraðir og / eða með ýmsa undirliggjandi sjúkdóma eru þeir í sérstökum áhættuhóp tengt því að veikjast alvarlega af Kórónaveirunni.

Leita þarf allra leiða til að draga úr þeirri hættu að íbúar heimilsins veikist af Kórónaveirunni. Okkur þykir mjög leitt að þurfa að taka svo stóra ákvörðun en þetta er gert með velferð íbúanna okkar í huga og biðjum við fólk að sýna þessari ákvörðun virðingu og skilning. Það er ljóst að það getur reynst íbúa mjög erfitt að fá ekki heimsóknir frá ættingjum sínum og á sama hátt getur það reynst ættingjum íbúans mjög erfitt að heimsækja hann ekki.  Það er samt nauðsynlegt að grípa til þessarra ráðstafana til að koma í veg fyrir að íbúi veikist af veirunni og eins geta smit borist frá ættingjum eins íbúa til annars íbúa.

Jafnframt verður umferð allara annara gesta en nauðsynlegs starfsfólks á vakt, takmörkuð inn á Höfða og gerðar hafa verið sérstakar reglur um það. Svo sem birgja með vörur, iðnaðarmenn og aðra sem þurfa að koma inn á heimilið.

Varðandi símtöl inn á heimilið og upplýsingar um líðan heimilisfólks þá bendum við á bein númer inn á hvert heimili sem nálgast má á www.dvalarheimili.is

Dagdvöl aldraðra á Höfða verður lokuð meðan lokun heimilisins varir.

Einnig er mikilvægt að þið kynnið ykkur upplýsingar og leiðbeiningar á vef Landlæknisembættisins www.landlaeknir.is Þar eru greinargóðar upplýsingar og leiðbeiningar tengdar stöðu málar, en þær geta breyst frá degi til dags.

 F.h. Höfða hjúkrunar- og dvalarheimilis

Kjartan Kjartansson                             Ólína Ingibjörg Gunnarsdóttir             framkvæmdastjóri                                hjúkrunarforstjóri                                      Sími 856-4302                                         Sími 856-4304

Sýkingavarnir vegna Kórónaveirunnar (COVID-19)

Íbúar Höfða eru í sérstökum áhættuhóp tengt því að veikjast alvarlega af Kórónaveirunni. Við viljum því biðja þá sem eru með kvefeinkenni, flensulík einkenni eða hafa ferðast nýlega til skilgreindra áhættusvæða samkvæmt upplýsingum á vef Landlæknis að gæta varúðar og koma ekki í  heimsóknir á Höfða. 

Mikilvægt er að þeir sem eru frískir, hafa ekki verið á skilgreindum áhættusvæðum og hafa því ekki ástæðu til að ætla að þeir hafi smitasta af veirunni hafi eftirfarandi í huga:

  • Handþvottur er mikilvægasta ráðið til að forðast smit og einnig er mikilvægt að nota handspritt. Hafið þetta alltaf í huga þegar komið er inn á Höfða.
  • Forðist alla líkamlega snertingu eins og hægt er svo sem handabönd, faðmlög og kossa við íbúa.
  • Forðist að koma við snertifleti í almennum rýmum svo sem handriði og hurðarhúna.

Við bendum ykkur á að kynna ykkur leiðbeiningar á vef Landlæknisembættisins https://www.landlaeknir.is/  því staða mála og leiðbeiningar þeim tengdar geta breyst dag frá degi.

Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri

Ólína Ingibjörg Gunnarsdóttir hjúkrunarforstjóri

 

Helgihald um hátíðarnar

Nú um hádegisbilið var Ragnheiður Guðmundsdóttir djákni með helgistund í Höfðasal þar sem börn hennar og barnabörn sungu jólasálma og léku undir, en það er árvisst að afkomendur djáknans annast tónlistarflutning í helgistund á aðfangadag. Á annan í jólum verður hátíðarguðsþjónusta kl. 12.45. Á gamlársdag verður svo helgistund djákna kl. 11.30, en þar mun kór Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd syngja.

Óskum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Þökkum ánægjuleg samskipti á árinu sem er að líða.

Íbúar og starfsfólk Höfða.

Evrópudagur sjúkraliða

Í dag er Evrópudagur sjúkraliða

Sjúkraliðar eru einn af burðarásunum í þjónustu við skjólstæðinga okkar hér á Höfða.  Þeir vinna mikilvægt starf allan sólarhringinn, alla daga, allt árið um kring. Þeir sinna starfi sínu af alúð, umhyggju og fagmennsku svo eftir hefur verið tekið.

Sjúkraliðar eru vel menntaðir og þekking þeirra nýtist á markvissan hátt. En það þarf líka ákveðna eiginleika til að vera sjúkraliði, ákveðna mannkosti. Það þarf að hafa bæði skilning og innsæi í aðstæður hins sjúka eða aldraða og fjölskyldu hans, geta sýnt þolinmæði og leysa og finna réttu úrræðin sem hjálpa.

Við viljum þakka sjúkraliðum á Höfða fyrir þeirra störf bæði fyrr og síðar og óskum þeim velfarnaðar í leik og starfi. Þið sinnið krefjandi starfi bæði líkamlega og andlega en gefið af ykkur af einlægni og hjartahlýju. Þið eruð okkur algjörlega ómetanleg.

Ólína Ingibjörg Gunnarsdóttir hjúkrunarforstjóri

Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri

Starfsaldursviðurkenningar 2019

Myndasafn

Síðastliðinn fimmtudag, á kvöldvöku sem haldin var af starfsmönnum fyrir íbúa Höfða, voru afhentar árlegar starfsaldursviðurkenningar. Að þessu sinni fengu eftirtaldir 17 starfsmenn viðurkenningu:

Fyrir 5 ára starf: Anna Snjólaug Eiríksdóttir, Evelyn Hipertor Jóhannsson, Guðrún Fanney Pétursdóttir, Gunnar Bergmann Steingrímsson, Harpa Hólm Heimisdóttir, Linda Hrönn Óðinsdóttir, Málmfríður Guðrún Sigurvinsdóttir, Svava Hrund Guðjónsdóttir, Valborg Reisenhaus og Þórlína Jóna Sveinbjörnsdóttir.

Fyrir 10 ára starf: Ásdís Garðarsdóttir, Ólöf Lilja Magnúsdóttir og Sigurður Jóhann Hauksson.

Fyrir 15 ára starf: Marianne Ellingsen.

Fyrir 20 ára starf: Ingigerður Höskuldsdóttir.

Fyrir 25 ára starf: Dagný Fjóla Guðmundsdóttir.

Fyrir 30 ára starf: Guðný Sjöfn Sigurðardóttir

Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri sagði að með þessum viðurkenningum vildi stjórn Höfða þakka þessum góðu starfsmönnum tryggð þeirra við Höfða og íbúa heimilisins og sagði að starfsfólkið væri helsti styrkleiki Höfða.

Við sama tækifæri kvaddi Höfðafólk starfsmenn sem látið hafa af störfum  eða eru að láta af störfum á Höfða eftir farsælan starfsferil, þær eru Sigurbjörg Ragnarsdóttir, Lára V. Jóhannesdóttir, Marianne Ellengsen, Sigríður V. Gunnarsdóttir og Guðfinna Þorgeirsdóttir.  Samtals höfðu þær starfað á Höfða í um 75 ára.

Um leið og Kjartan þakkaði störf þeirra og rakti farsælan starfsferil afhenti hann þeim blómvönd og litla gjöf frá Höfða. Kjartan óskaði þeim góðs gengis á ókomnum árum og að þær mættu njóta eftirlaunaáranna við góða heilsu og farsæld.