Fréttir frá Höfða

Kæru aðstandendur

Á upplýsingafundi ríkisstjórnarinnar 14. apríl s.l. nefndi forsætisráðherra í máli sínu að tilslakanir á heimsóknarbanni hjúkrunarheimila væru í undirbúningi og á daglegum fundi Almannavarna í vikunni nefndi Landlæknir að þessar tillögur yrðu kynntar í næstu viku.

Vinnuhópur á vegum Almannavarna, Embættis landlæknis, heilbrigðisráðuneytis og hjúkrunarheimila hefur fundað reglulega síðustu vikur og er hópurinn nú að vinna tillögur að þessum tilslökunum. Þær verða gerðar í hægum skrefum en fyrstu tilslakanirnar munu væntanlega taka gildi 4. maí. Fram að 4. maí verða engar breytingar á núverandi heimsóknarbanni.

Tilslakanirnar verða kynntar síðasta vetrardag, miðvikudaginn í næstu viku (22. apríl) og þykir okkur líklegt að það muni verða mjög lítil skref í einu til að byrja með. Um leið og þessar upplýsingar liggja fyrir munum við fara að skipuleggja með hvað hætti þetta yrði hér hjá okkur.

Við gerum okkur grein fyrir að aðstandendur og íbúar eru orðnir óþreyjufullir að hittast en á sama tíma viljum við vera mjög varkár. Þar sem íbúar Höfða rétt eins og annarra hjúkrunarheimila eru flestir aldraðir og/eða með ýmsa undirliggjandi sjúkdóma eru þeir í sérstökum áhættuhóp tengt því að veikjast alvarlega af Kórónaveirunni. Það þarf því að fara afskaplega varlega í að opna heimilið fyrir utanaðkomandi gestum.

Heilsa og velferð íbúanna okkar þarf alltaf að vera í forgangi og því ef til vill vissara að byrja mjög hægt og með miklum takmörkunum.

Allmargir íbúar á Höfða hafa lýst yfir ótta og þykir öryggi sínu ógnað ef opna á heimilið. Við þurfum líka að virða óskir þeirra og sýna þeim skilning.

Að lokum viljum við þakka fyrir þolinmæði ykkar og skilning og ekki hvað sist góðar og hlýjar kveðjur.

Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri

Ólína Ingibjörg Gunnarsdóttir hjúkrunarforstjóri