Allar færslur eftir user7sj1fc4mt

Framboðskynning Samfylkingarinnar.

Í dag heimsóttu frambjóðendur Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi Höfða og kynntu stefnumál flokksins fyrir næstu þingkosningar.

Guðbjartur Hannesson, Karl V.Matthíasson, Anna Kristín Gunnarsdóttir og Helga Vala Helgadóttir spjölluðu við íbúa og starfsmenn og kynntu sér starfsemi heimilisins.

Nýir íbúar á Höfða

Þrír nýir íbúar fluttu á Höfða í síðasta mánuði. Hjónin Ragnheiður Björnsdóttir og Skarphéðinn Árnason í íbúð 119 og Skarpheiður Gunnlaugsdóttir í íbúð 213.

Þau eru boðin velkomin á Höfða.

Kynning á skyndihjálp

Í dag var Gísli Björnsson sjúkraflutningamaður með kynningu á skyndihjálp á Höfða. Fór hann yfir ýmsa þætti skyndihjálpar og fyrstu viðbrögð við ýmsum áföllum.

Kynningin var vel sótt af starfsfólki Höfða.

Vinstri grænir í heimsókn

Steingrímur J.Sigfússon formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og Jón Bjarnason þingmaður flokksins heimsóttu Höfða í dag. Í fylgd með þeim var Rún Halldórsdóttir bæjarfulltrúi og stjórnarmaður í Höfða.

Gestirnir ræddu við heimilisfólk og starfsmenn og kynntu sér starfsemi heimilisins.

Rausnarleg gjöf

Um þessi áramót leggst af starfsemi STAK (Starfsmannafélags Akraneskaupstaðar) og félagið verður deild í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar. Við þessi tímamót ákvað stjórn STAK að færa nokkrum stofnunum á Akranesi peningagjafir til ákveðinna verkefna. M.a. voru Höfða færðar 700 þúsund krónur til að bæta aðbúnað starsfmanna og íbúa.

Við athöfn í bæjarþingsalnum í morgun afhenti Valdimar Þorvaldsson formaður STAK fulltrúum viðkomandi stofnana gjafirnar, en alls gaf STAK 5 milljónir króna.

Guðjón Guðmundsson veitti gjöfinni til Höfða viðtöku og þakkaði þessa rausnarlegu gjöf. Guðjón lýsti ánægju með að munað væri eftir starfsmönnum Höfða á þessum tímamótum, en alls störfuðu 59 félagar STAK á Höfða og væru þeir um 2/3 af starfsliði heimilisins.Guðjón sagði að samhent og öflugt starfslið væri einn helsti styrkleiki Höfða og minnti viðstadda á að Höfði væri eitt af því sem Skagamenn gætu verið stoltir af.

Piparkökuhús á Höfða

 

Skagakonan Valdís Einarsdóttir sigraði í 8.skipti í piparkökuhúsakeppni Kötlu nú fyrir jólin. Að þessu sinni var verðlaunahúsið líkan af Höfða, móttökuhúsi Reykjavíkurborgar. Margir hafa skoðað húsið síðan það var sett upp í gær og eru allir sammála um að þetta sé snilldar handverk

Verðlaunahús Valdísar verður til sýnis á Höfða fram yfir áramót og fer vel á því að Reykjavíkur Höfði sé sýndur á Höfða Akranesi.

Þess má geta að Valdís er dóttir Sigríðar Jónsdóttur og tengdadóttir Herdísar Ólafsdóttur, sem báðar búa á Höfða.

Tækjagjöf

 

MND samtökin á Íslandi hafa að undanförnu staðið fyrir söfnun notaðra hjálpartækja til að senda MND félaginu í Mongólíu.

Ingibjörg Ólafsdóttir iðjuþjálfi og Elísabet Ragnarsdóttirsjúkraþjálfari hafa tekið til tæki sem hætt er að nota á Höfða og voru þau afhent Guðjóni Sigurðssyni formanni MND samtakanna á Íslandi í dag.

Tækin sem gefin voru eru hjólastóll, göngugrindur, hækju, stafir og salernisupphækkanir.

Jólaball

Í dag var haldið jólaball fyrir börn og barnabörn íbúa og starfsmanna Höfða. Jólasveinarnir Kertasníkir og Skyrgámur komu í heimsókn og dansað var í kringum jólatréð. Börnin fengu gos og poka með góðgæti og foreldrarnir kaffi og smákökur.

Gísli S.Einarsson bæjarstjóri stjórnaði jólaballinu af sinni alkunnu snilld, en Gísli hefur stjórnað jólaböllunum á Höfða eins lengi og elstu menn muna. Hann hefur einnig verið óþreytandi við að skemmta íbúum Höfða við ýmis tækifæri svo sem Höfðagleði, kökukvöld, kaffihúsakvöld o.fl. Er ástæða til að þakka Gísla fyrir þá ræktarsemi sem hann sýnir fólkinu á Höfða.

Unga fólkið og foreldrarnir troðfylltu samkomusalinn á Höfða og var það mál manna að aldrei hefðu fleiri sótt jólaballið en að þessu sinni.

Hátíðamatseðill

 

Eins og tíðkast á öllum góðum heimilum verður boðið upp á veislumat á Höfða um jól og áramót. Nú hefur Bjarni bryti gefið út glæsilegan hátíðamatseðil sem afhentur er öllum íbúum hússins.

Eins og sjá má á matseðlinum verða bragðlaukar íbúa og starfsmanna kitlaðir af krafti um hátíðarnar. Á Þorláksmessu verður svo skötuveisla.

 

Annir á fótaaðgerðastofu

Mikil törn er um þessar mundir hjá Guðrúnu fótasérfræðingi, enda vilja flestir vera án líkþorna og óþæginda um jólin. Þegar ljósmyndara bar að garði var Guðrún önnum kafin og að sögn Bjarna bryta mun hún vera að eiga við tær Antons Ottesen varaformanns stjórnar Höfða á myndinni sem fylgir með þessari frétt!