Rausnarleg gjöf

Um þessi áramót leggst af starfsemi STAK (Starfsmannafélags Akraneskaupstaðar) og félagið verður deild í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar. Við þessi tímamót ákvað stjórn STAK að færa nokkrum stofnunum á Akranesi peningagjafir til ákveðinna verkefna. M.a. voru Höfða færðar 700 þúsund krónur til að bæta aðbúnað starsfmanna og íbúa.

Við athöfn í bæjarþingsalnum í morgun afhenti Valdimar Þorvaldsson formaður STAK fulltrúum viðkomandi stofnana gjafirnar, en alls gaf STAK 5 milljónir króna.

Guðjón Guðmundsson veitti gjöfinni til Höfða viðtöku og þakkaði þessa rausnarlegu gjöf. Guðjón lýsti ánægju með að munað væri eftir starfsmönnum Höfða á þessum tímamótum, en alls störfuðu 59 félagar STAK á Höfða og væru þeir um 2/3 af starfsliði heimilisins.Guðjón sagði að samhent og öflugt starfslið væri einn helsti styrkleiki Höfða og minnti viðstadda á að Höfði væri eitt af því sem Skagamenn gætu verið stoltir af.