Allar færslur eftir user7sj1fc4mt

Höfðagleði

Hin árlega Höfðagleði var haldin s.l. föstudagskvöld. Á Höfðagleði mæta íbúar, starfsmenn, fyrrverandi starfsmenn sem hætt hafa vegna aldurs, læknar og stjórn Höfða, alls um 170 manns.

 

Margrét A.Guðmundsdóttir setti skemmtunina og stjórnaði henni. Boðið var upp á glæsilegt veisluhlaðborð sem Haukur bryti og hans fólk reiddi fram.

 

Jóhannes Kristjánsson eftirherma skemmti gestum af sinni alkunnu snilld við frábærar undirtektir. Þá söng Tinda tríóið nokkur lög, en tríóið samanstendur af þeim feðgum Atla Guðlaugssyni og sonum hans Bjarna og Guðlaugi. Gerði söngur þeirra mikla lukku.

 

Dregið var í happdrætti þar sem íbúar og starfsmenn fengu glæsilega vinninga í boði Verslunar Einars Ólafssonar.

 

Að lokum var dansað til miðnættis við undirleik Jóns Heiðars Magnússonar, Geirs Guðlaugssonar og Sirrýjar Indriðadóttur.

 

Góð stemning var á Höfðagleðinni og almenn ánægja með veitingar, skemmtiatriði og músik. Höfðagleðin tókst því í alla staði mjög vel.

Afmælisrit

Í tilefni af 30 ára afmæli Höfða kom í dag út 24 síðna afmælisrit. Í blaðinu er fjöldi viðtala við íbúa, starfsmenn og lækni auk upplýsinga um starfsemi heimilisins. Þá er mikill fjöldi mynda af íbúum og starsmönnum í leik og starfi.

 

Jóhanna Harðardóttir blaðamaður tók öll viðtöl og annaðist uppsetningu og frágang blaðsins.

 

Blaðið verður sent á öll heimili og fyrirtæki á starfssvæði Höfða.

Afmælishátíð

2.febrúar voru 30 ár liðin síðan fyrstu íbúarnir fluttu inn á Höfða. Í tilefni af því var haldin afmælishátíð s.l. föstudag. Þar mættu íbúar, starfsmenn og nokkrir gestir og þáðu góðar veitingar sem starfsmenn mötuneytis reiddu fram.

 

Benedikt Jónmundsson formaður stjórnar Höfða setti hátíðina með stuttu ávarpi og fól Margréti A.Guðmundsdóttur stjórn samkomunnar.

 

Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri rifjaði upp aðdragandann að byggingu Höfða og uppbyggingu heimilisins s.l. 30 ár. Hann gat þess að Emilía Petrea Árnadóttir væri eini fasti starfsmaður Höfða frá upphafi og að Reynir Þorsteinsson hefði verið læknir Höfða þessi 30 ár. Voru þeim færð blóm í þakklætisskyni og viðstaddir þökkuðu þeim þeirra góðu störf með lófataki.

 

Emilía Petrea Árnadóttir flutti síðan kröftugt hvatningarávarp. Að því loknu lék Þjóðlagasveit Tónlistarskóla Akraness nokkur lög við góðar undirtektir.

 

Þá flutti Gísli S.Einarsson bæjarstjóri ávarp og færði Höfða að gjöf rausnarlega peningagjöf frá Akraneskaupstað. Einar Örn Thorlacius sveitarstjóri í Hvalfjarðarsveit tók næstur til máls og færði kveðjur og hamingjuóskir úr sinni sveit ásamt veglegri blómaskreytingu.

 

Hanna Þóra Guðbrandsdóttir söng nokkur lög við undirleik Sveins Arnars Sæmundssonar. Söngurinn vakti mikla hrifningu og var hún klöppuð upp.

 

Þá voru afhent verðlaun fyrir Boccia mótið sem lauk í síðustu viku. Þrjár efstu sveitirnar fengu verðlaun og allir þátttakendur viðurkenningarskjöl.

 

Að lokum flutti Skarphéðinn Árnason íbúi á Höfða ávarp og rifjaði upp að þegar hann flutti til Akraness um miðja síðustu öld hafi það verið draumur margra Skagamanna að eignast heimili á borð við Höfða.

 

Guðjón þakkaði svo fólki komuna og sleit þessari afmælishátíð.

Bocciamót

3ja daga árlegu Boccia móti Höfða lauk í morgun, en verðlaun verða afhent á afmælisthátíð Höfða á morgun. Keppnin var gríðarlega jöfn og spennandi. 10 3ja manna lið tóku þátt í mótinu. Liðunum var skipt í 4 riðla og komst sigurlið hvers riðils í úrslit.

 

Liðin voru þannig skipuð:

 

FOLAR: Valgerður Einarsdóttir, Helga Árnadóttir og Kristján Pálsson.

 

FÁLKAR: Steinunn Hafliðadóttir, Guðbjörg Pétursdóttir og Guðný Þorvaldsdóttir.

 

RÚSÍNUR: Bjarni Guðmundsson, Magnús Guðmundsson og Aðalheiður Arnfinnsdóttir.

 

NAGLAR: Sigurjón Jónsson, Svava Gunnarsdóttir og Gunnar Guðjónsson.

 

HETJUR: Bára Pálsdóttir, Grétar Jónsson og Þuríður Jónsdóttir.

 

ÚLFAR: Sigurður Halldórsson, Lilja Pétursdóttir og Vigfús Sigurðsson.

 

MÁNAR: Guðrún Adolfsdóttir, Guðbjartur Andrésson og Lúðvík Björnsson.

 

HRÚTAR: Lára Arnfinnsdóttir, Rakel Jónsdóttir og Tómas Sigurðsson.

 

STRÁIN: Einar Þóroddsson, Bjarney Hagalínsdóttir og Skarphéðinn Árnason.

 

ERNIR: Björn Gústafsson, Eygló Halldórsdóttir og Jón Einarsson.

 

Úrslitaleikurinn um 3.sætið var milli HRÚTA og FOLA. Leikurinn var hnífjafn og þurfti bráðabana til að fá úrslit og unnu HRÚTAR.

 

Til úrslita um 1.sætið léku NAGLAR og ÚLFAR. Leikurinn var í járnum fram undir leikslok, en svo fór að ÚLFAR sigruðu og NAGLAR lentu í 2.sæti.

 

Edda Guðmundsdóttir og Margrét A.Guðmundsdóttir voru dómarar og stjórnuðu mótinu af mikilli röggsemi og á léttum nótum. Mikill fjöldi áhorfenda var á öllum leikjunum.

Piparkökuhús á Höfða

Næstu daga verður til sýnis á Höfða verðlaunahúsið í piparkökuhúsakeppni Kötlu. Húsið er gert af Valdísi Einarsdóttur sem sigraði í þessari keppni í níunda skipti. Að þess sinni er verðlaunahúsið líkan af húsi sem Thor Jensen byggði við Fríkirkjuveg 11 í upphafi síðustu aldar, en þetta hús setur mikinn svip á umhverfi sitt.

 

Þess má geta að móðir Valdísar, Sigríður Jónsdóttir, er íbúi á Höfða.

Kór Saurbæjarkirkju syngur á Höfða

Í morgun var Ragnheiður Guðmundsdóttir djákni með helgistund í samkomusal Höfða. Með henni var kór Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd sem söng nokkra sálma við undirleik Arnar Magnússonar organista.

 

Mikil aðsókn var að þessari helgistund og hátíðleg stemning í salnum.

Jólaball

Í gær var haldið jólaball fyrir börn og barnabörn íbúa og starfsmanna Höfða. Jólasveinarnir Stekkjastaur og Hurðaskellir komu í heimsókn og dansað var í kringum jólatréð. Börnin fengu gos og poka með sælgæti og foreldrarnir kaffi og smákökur.

 

Börn og foreldrar troðfylltu samkomusal Höfða og skemmtu sér vel.

 

Helgihald um jólin

Ragnheiður Guðmundsdóttir djákni var með helgistund í samkomusal á aðfangadagsmorgun. Með henni mættu 8 barnabörn hennar sem sungu nokkra sálma við góðar undirtektir.

 

Á annan í jólum var hátíðarmessa. Sr. Eðvarð Ingólfsson prédikaði og kór Akraneskirkju söng við undirleik Sveins Arnars Sæmundssonar organista. Þórgunnur Stefánsdóttir söng einsöng.

 

Báðar þessar athafnir voru mjög vel sóttar og sköpuðu góða jólastemningu á Höfða.

Gjöf frá nemendum Grundaskóla

Í morgun komu tveir nemendur Grundaskóla, Adda Malín Vilhjálmsdóttir og Nína Alexandersdóttir, og færðu heimilinu fallegan handunninn kertastjaka sem unninn var af nemendum skólans.

 

Nemendur Grundaskóla hafa þann góða sið að heimsækja Höfða fyrir hver jól og færa heimilinu hluti gerða af nemendum. Þessir fallegu munir prýða Höfða.

 

Sigurbjörg Halldórsdóttir hjúkrunarforstjóri veitti gjöfinni viðtöku og þakkaði stúlkunum fyrir þessa góðu gjöf og þann hlýhug sem henni fylgir.

Söngskemmtun

Kvennakórinn Ymur hélt söngskemmtun í samkomusal Höfða s.l. laugardag. Stjórnandi kórsins er Sigríður Elliðadóttir.

 

Góð aðsókn var að tónleikunum og þökkuðu íbúar Höfða þessum góðu gestum fyrir sönginn með öflugu lófataki.