Afmælishátíð

2.febrúar voru 30 ár liðin síðan fyrstu íbúarnir fluttu inn á Höfða. Í tilefni af því var haldin afmælishátíð s.l. föstudag. Þar mættu íbúar, starfsmenn og nokkrir gestir og þáðu góðar veitingar sem starfsmenn mötuneytis reiddu fram.

 

Benedikt Jónmundsson formaður stjórnar Höfða setti hátíðina með stuttu ávarpi og fól Margréti A.Guðmundsdóttur stjórn samkomunnar.

 

Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri rifjaði upp aðdragandann að byggingu Höfða og uppbyggingu heimilisins s.l. 30 ár. Hann gat þess að Emilía Petrea Árnadóttir væri eini fasti starfsmaður Höfða frá upphafi og að Reynir Þorsteinsson hefði verið læknir Höfða þessi 30 ár. Voru þeim færð blóm í þakklætisskyni og viðstaddir þökkuðu þeim þeirra góðu störf með lófataki.

 

Emilía Petrea Árnadóttir flutti síðan kröftugt hvatningarávarp. Að því loknu lék Þjóðlagasveit Tónlistarskóla Akraness nokkur lög við góðar undirtektir.

 

Þá flutti Gísli S.Einarsson bæjarstjóri ávarp og færði Höfða að gjöf rausnarlega peningagjöf frá Akraneskaupstað. Einar Örn Thorlacius sveitarstjóri í Hvalfjarðarsveit tók næstur til máls og færði kveðjur og hamingjuóskir úr sinni sveit ásamt veglegri blómaskreytingu.

 

Hanna Þóra Guðbrandsdóttir söng nokkur lög við undirleik Sveins Arnars Sæmundssonar. Söngurinn vakti mikla hrifningu og var hún klöppuð upp.

 

Þá voru afhent verðlaun fyrir Boccia mótið sem lauk í síðustu viku. Þrjár efstu sveitirnar fengu verðlaun og allir þátttakendur viðurkenningarskjöl.

 

Að lokum flutti Skarphéðinn Árnason íbúi á Höfða ávarp og rifjaði upp að þegar hann flutti til Akraness um miðja síðustu öld hafi það verið draumur margra Skagamanna að eignast heimili á borð við Höfða.

 

Guðjón þakkaði svo fólki komuna og sleit þessari afmælishátíð.