Sumarferð

Hin árlega sumarferð Höfðafólks var farin í gær. 50 manns tóku þátt í ferðinni, íbúar Höfða og dagdeildarfólk ásamt nokkrum starfsmönnum. Lagt var af stað kl. 13 og ekið um Bessastaði, Álftanes, Hafnarfjörð og til Keflavíkur þar sem boðið var upp á kaffihlaðborð í Kaffi Duus. Eftir kaffið litu margir við í safni sem er í sama húsi, en þar má sjá á annað hundrað skipslíkön auk fjölda gamalla muna og ljósmynda frá liðinni tíð. Næst var ekið til Grindavíkur og þaðan um hinn nýja Suðurstrandarveg til Þorlákshafnar og síðan haldið heim um Þrengslin og með Hafravatni. Heim var svo komið kl. 18,50.

 

Á suðurleiðinni rigndi nokkuð á Kjalarnesi og til Kópavogs en eftir það var blíðskaparveður alla leið. Ferðast var með sérútbúinni hjólastólarútu frá Sæmundi. Leiðsögumaður var Björn Ingi Finsen og var leiðsögn hans stórskemmtileg og fróðleg.