Í morgun heimsóttu Höfða 37 sænskumælandi sveitarstjórnarmenn frá Finnlandi í fylgd Gísla S.Einarssonar bæjarstjóra sem sagði þeim frá starfsemi Höfða og sýndi þeim heimilið í fylgd Sigurbjargar Ragnarsdóttur og Elísabetar Ragnarsdóttur.
Fylgst með handboltanum
Frábær árangur íslenska handboltalandsliðsins á Olympíuleikunum í Kína er helsta umræðuefni fólksins á Höfða og allir sem vettlingi geta valdið fylgjast með leikum liðsins í sjónvarpinu.
Á myndinni sjást þær Guðrún Ólafsdóttir, Guðrún Adolfsdóttir og Lára Arnfinnsdóttir gera hlé á handavinnunni til að fylgjast með glæsilegum sigri okkar manna gegn Pólverjum.
Góðir gestir í heimsókn
Samstarfsnefnd um málefni aldraðra ásamt fulltrúum Félags- og tryggingamálaráðuneytis heimsótti Höfða í dag.
Þetta voru nefndarmennirnir Ágúst Ólafur Ágústsson formaður, Ásta Möller, Margrét Margeirsdóttir, Ragnhildur Eggertsdóttir, Dögg Pálsdóttir Helgi K.Hjálmsson og Bernharður Guðmundsson ásamt starfsmönnum ráðuneytisins þeim Vilborgu Ingólfsdóttur og Láru Björnsdóttur.
Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri, Helga Atladóttir hjúkrunarforstjóri, Margrét A.Guðmundsdóttir húsmóðir og Benedikt Jónmundsson formaður stjórnar Höfða tóku á móti þessum góðu gestum, kynntu þeim starfsemi Höfða og sýndu þeim nokkrar íbúðir. Þá voru þeim kynntar áætlanir um stækkun þjónusturýmis heimilisins, svo og framtíðarhugmyndir stjórnenda Höfða.
Gestirnir snæddu hádegisverð með heimamönnum og héldu síðan áfram ferð sinni um Vesturland.
Tónleikar
Í gær héldu feðginin Ingibjörg Aldís, sópransöngkona og Ólafur B.Ólafsson tónleika á Höfða. Ingibjörg Aldís söng innlend og erlend lög við undirleik föður síns og Ólafur lék einnig á harmonikku og stjórnaði hópsöng.
Samkomusalurinn var fullur út úr dyrum og íbúar Höfða skemmtu sér konunglega, enda fóru þau feðginin á kostum í flutningi sínum.
Ólafur minntist þess að þau feðginin hefðu áður skemmt á Höfða og liðið hér afskaplega vel. Í tilefni af því hefði hann sett saman svohljóðandi Höfðabrag:
Á dvalarheimilinu Höfða
glaðar hef ég sálir séð.
Menn og svannar syngja með.
Þakklátur ég staðinn kveð.
Svona var það líka síðast
saman hér við mættum mörg.
Vorum við þá ekki örg
Ólafur og Ingibjörg.
Starfsfólkið á þakkir skilið
stendur gjarnan heiðursvörð,
er heim við sækjum Höfðahjörð
hina bestu hér á jörð.
Guðjón framkvæmdastjóri þakkaði þeim feðginum komuna og frábæra skemmtun og bað þau að koma sem fyrst aftur.
Starfsmenn á faraldsfæti
Starfsmenn Höfða hafa notað góða veðrið í sumar til að bregða undir sig betri fætinum. Föstudaginn 30.maí fór tæplega 40 manna hópur í heimsókn á Hrafnistu og fékk þar frábærar móttökur hjá Skagamanninum Pétri Magnússyni framkvæmdastjóra og hans fólki.
Frá Hrafnistu var haldið í Bláa lónið þar sem flestir busluðu í lóninu meðan aðrir slöppuðu af í notalegum veitingasalnum.
Loks var svo snæddur kvöldverður í Salthúsinu í Grindavík og stiginn þar dans á sjómannaballi þegar leið á kvöldið.
14.júní fór svo 12 manna hópur í gönguferð um Síldarmannagötur. Eftir 6 tíma labb var svo haldið í sumarbústað Guðrúnar fótaaðgerðafræðings í Skorradal þar sem slappað var af í heita pottinum og snæddur ljúffengur grillmatur.
Þessar ferðir voru báðar mjög vel heppnaðar og komu allir ánægðir heim.
Sumarferð
Hin árlega sumarferð Höfðafólks var farin s.l. föstudag.
Rúmlega 40 manns, íbúar Höfða, dagvistarfólk og íbúar Höfðagrundarhúsanna tóku þátt í ferðinni ásamt nokkrum starfsmönnum. Lagt var af stað kl. 13 og ekið í átt til Reykjavíkur þar sem nýjustu hverfi borgarinnar voru skoðuð.
Síðan var ekið að Hellisheiðarvirkjun þar sem starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur sögðu frá virkjuninni og buðu síðan upp á kaffi og meðlæti. Að því loknu var svo ekið fyrir Ingólfsfjall og heim um Grafning vestan við Þingvallavatn. Heim var svo komið kl. 18.
Hópurinn fékk frábært ferðaveður, logn, sólarlaust og 14 stiga hita. Leiðsögumaður í þessari ferð var Björn Ingi Finsen og var leiðsögn hans að vanda frábærlega fróðleg og skemmtileg.
Almenn ánægja var með þessa ferð sem tókst í alla staði mjög vel.
Vinnuskólinn aðstoðar
Í góða veðrinu að undanförnu hefur verið mikil þátttaka í gönguferðum um hið fagra umhverfi Höfði og niður með Langasandi.
Leitað var til vinnuskóla bæjarins og óskað eftir aðstoð þaðan. Einar Skúlason forstöðumaður skólans tók þessari málaleitan ljúflega og útvegaði 4 stúlkur sem mæta á hverjum morgni og aðstoða við göngutúrana.
Mikil ánægja er með þátttöku þessara dugnaðarstúlkna sem án efa hafa gott af að kynnast gamla fólkinu.
Stefnt að einbýlum
Bæjarstjórn Akraness samþykkti á fundi sínum í fyrradag að leggja til 10 milljónir króna úr bæjarsjóði til að hefja viðbyggingu húsnæðis til fjölgunar einbýlum á Höfða. Bæjarstjórn gerir ráð fyrir framlagi Hvalfjarðarsveitar til viðbótar í samræmi við eignaraðild.
Félagsliðar útskrifast
Í lok maí luku 8 starfsstúlkur á Höfða námi sem félagsliðar, en námið hafa þær stundað af miklum krafti samhliða vinnu í 4 annir.
Þær sem útskrifuðust voru: Erna Kristjánsdóttir, Guðmunda Hallgrímsdóttir, Guðmunda Maríasdóttir, Helga Jónsdóttir, Hjördís Guðmundsdóttir, Katrín Björk Baldvinsdóttir, Sonja Hansen og Steina Ósk Gísladóttir.
Þessum dugnaðarkonum eru færðar bestu hamingjuóskir.
Bólu-hjálmar
Stoppleikhópurinn heimsótti Höfða í dag og sýndi nýtt íslenskt leikrit sem byggir á ævi og skáldskap Bólu-Hjálmars.
Handritshöfundar eru Ármann Guðmundsson, Snæbjörn Ragnarsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason, leikstjóri er Ágústa Skúladóttir og leikarar Eggert Kaaber, Magnús Guðmundsson og Margrét Sverrisdóttir. Leikmynd og búningar eru eftir Guðrúnu Öyahals.
Íbúar Höfða skemmtu sér mjög vel á þessari frábæru sýningu og þökkuðu flytjendum með lófataki.