Aðalfundur Höfða

Aðalfundur Dvalarheimilisins Höfða var haldinn 6.júlí s.l. Þar flutti Benedikt Jónmundsson formaður stjórnar Höfða skýrslu stjórnar fyrir starfsárið 2008 og Jóhann Þórðarson endurskoðandi fór yfir ársreikning félagsins og svaraði spurningum ásamt framkvæmdastjóra. Reikningurinn var síðan samþykktur samhljóða.

 

Rekstur Höfða gekk vel á árinu, en uppreiknaðar lífeyrisskuldbindingar hækkuðu mikið.

Sumarferð

Hin árlega sumarferð Höfðafólks var farin í gær. Yfir 40 manns, íbúar Höfða og dagdeildarfólk, tóku þátt í ferðinni ásamt nokkrum starfsmönnum. Lagt var af stað kl. 13 og ekið til Stykkishólms með viðkomu við Gerðuberg. Eftir skoðunarferð um Stykkishólm var haldið á hótelið þar sem boðið var upp á kaffi og glæsilegt hlaðborð af meðlæti. Að því loknu var svo ekið heim með viðkomu við Helgafell og í Borgarnesi og komið heim að Höfða upp úr kl. 19.

 

Hópurinn fékk frábært ferðaveður, logn, sólarlaust og 17 stiga hita. Farið var með nýrri Sæmundarrútu sem tekur hjólastóla, en undanfarin sumur hefur hjólastólafólk þurft að vera í sér bifreið. Er auðvitað skemmtilegra að allir geti verið í sömu rútu. Leiðsögumaður í þessari ferð var Björn Ingi Finsen og var leiðsögn hans fróðleg og skemmtileg að vanda.

 

Almenn ánægja var með þessa ferð sem tókst í alla staði mjög vel.

 

Írskir dagar

Í dag hófust Írskir dagar á Akranesi og stendur hátíðin í 3 daga. Íbúar Höfða og dagdeildarfólk héldu upp á þetta með útiskemmtun um miðjan daginn. Boðið var upp á léttar veitingar og Jón Heiðar spilaði á harmonikku.

 

Þessi uppákoma tókst í alla staði vel, enda besta veður ársins – logn og 20 stiga hiti.

 

 

 

 

 

 

Færeyskir gestir

Í dag heimsóttu Höfða góðir gestir frá Færeyjum í fylgd Gísla S.Einarssonar bæjarstjóra. Hér voru á ferðinni Heðin Mortensen borgarstjóri í Tórshavn ásamt borgarfulltrúum og mökum.

 

Gestirnir litu inn í nokkrar íbúðir og komu við í mötuneytinu þar sem íbúar voru í kaffi. Þar var þeim vel tekið og margir vildu spjalla við þá um ættingja sína í Færeyjum. Áberandi var hvað íbúar Höfða tóku þessum gestum vel og hvað þeim var hlýtt til Færeyinga.

 

Að lokum drukku svo gestirnir kaffi með framkvæmdastjóra og forstöðukonu þar sem þeim var kynnt starfsemi Höfða. Spurðu þeir margs og sýndu starfseminni mikinn áhuga.

Heimsókn frá Kanada

Í dag heimsóttu Höfða góðir gestir frá dvalarheimilil aldraðra í Vancouver, Höfn Icelandic Harbour, þeir Norman Eyford stjórnarformaður og Erlendur Oli Leifsson stjórnarmaður.

 

Með þeim í för voru tveir Skagamenn, feðgarnir Sigurbjörn Björnsson og Ómar Sigurbjörnsson, en Ómar hefur stundað háskólanám í Vancouver.

 

Gestirnir frá Vancouver skoðuðu Höfða hátt og lágt, litu inn í íbúðir og spjölluðu við íbúana, kynntu sér starfsemi heimilisins og ræddu við starfsmenn. Þeir létu í ljós mikla hrifningu af Höfða og aðbúnaði öllum á heimilinu.

 

Norman Eyford færði Höfða að gjöf vandaða tösku, merkta Höfn Icelandic Harbour og Höfði gaf þeim hina landsþekktu grjónapoka sem hér eru framleiddir.

Keppt í róðri

Hátíð hafsins var haldin á Akranesi um helgina. Meðal skemmtiatriða var kappróður og sendi Höfði í fyrsta sinn róðrarsveit til keppni. Sveitin stóð sig vel undir öruggri stjórn Guðnýjar kapteins og lenti í 2.sæti, en sveit Vignis Jónssonar sigraði.

 

Sveit Höfða skipuðu:

Guðný Aðalgeirsdóttir,

Helga Atladóttir,

Ásta Björk Arngrímsdóttir,

Katrín Baldvinsdóttir,

Sóley Dögg Guðbjörnsdóttir,

Vilborg Inga Guðjónsdóttir og

Fanney Reynisdóttir.

Góðar gjafir

Við hátíðarguðsjónustu á Höfða á hvítasunnudag bárust heimilinu góðar gjafir.

 

Afkomendur hjónanna Guðbjargar Guðjónsdóttur og Guðmundar Jónassonar frá Bjarteyjarsandi gáfu nýtt altari og afkomendur hjónanna Guðveigar Jónsdóttur og Eiríks Jónssonar frá Gröf gáfu nýtt ræðupúlt.

 

Sr. Eðvarð Ingólfsson vígði altarið og ræðupúltið og þakkaði þessar góðu gjafir.

 

Bæði altarið og ræðupúltið voru smíðuð af Þóri Gíslasyni húsgagnasmið í Hafnarfirði.

 

Að athöfn lokinni var boðið upp á veitingar. Þar þakkaði framkvæmdastjóri Höfða fyrir þessar góðu gjafir og þann góða hug sem þeim fylgdi.

Fegurðardrottning á Höfða

Um síðustu helgi var Guðrún Dögg Rúnarsdóttir kosin fegurðardrottning Íslands.

 

Guðrún Dögg er sumarstarfsmaður í mötuneyti Höfða annað árið í röð. Í hádeginu í dag færði Adda húsmóðir henni blómvönd og hamingjuóskir frá Höfðafólki og íbúar Höfða tóku undir með kröftugu lófataki, enda stoltir af sinni drottningu.

Starfsaldursviðurkenningar

Í dag fengu 17 starfsmenn Höfða starfsaldursviðurkenningar.

 

Fyrir 5 ára starf fengu viðurkenningu þær:

Edda Guðmundsdóttir,

Erla Óskarsdóttir,

Inga Lilja Guðmundsdóttir og

Marianne Ellingsen.

 

Fyrir 10 ára starf:

Erla B.Sveinsdóttir,

Ester Theódórsdóttir,

Guðrún Björnsdóttir,

Ingibjörg Sigurðardóttir,

Ingigerður Höskuldsdóttir,

Marta Ásgeirsdóttir,

Svanhildur Skarphéðinsdóttir og

Vilborg H.Kristinsdóttir.

 

Fyrir 15 ára starf:

Baldur Magnússon,

Erna Kristjánsdóttir og

Ragnheiður Pétursdóttir.

 

Fyrir 20 ára starf:

Guðný Sjöfn Sigurðardóttir.

 

og fyrir 25 ára starf:

Kristín Magnúsdóttir.

 

Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri minnti á mikilvægi stöðugs vinnuafls og sagði að stjórn Höfða vildi með þessum viðurkenningum þakka þessum góðu starfsmönnum tryggð þeirra við Höfða og íbúa heimilisins. Guðjón sagðist vona að Höfði fengi að njóta starfskrafta þeirra sem lengst.

Starfsmenn kvaddir

Í dag kvöddu íbúar og starfsmenn fjóra starfsmenn sem látið hafa af störfum á Höfða nýlega eftir langan og farsælan starfsferil, þau Emilíu Petreu Árnadóttur deildarstjóra dagdeildar sem var síðasti starfsmaðurinn sem hér hafði starfað frá því Höfði tók til starfa 1.febrúar 1978, Sigrúnu Björgvinsdóttur sem starfaði hér við umönnun í 28 ár, Jónas Kjerúlf sem var umsjónarmaður fasteigna í rúm 20 ár og Ásthildi Theodórsdóttir sem starfaði við ræstingar í 19 ár.

 

Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri ávarpaði fjórmenningana, þakkaði störf þeirra og rakti farsælan starfsferil. Guðjón óskaði þeim góðs gengis á ókomnum árum og að þau mættu njóta eftirlaunaáranna við góða heilsu og farsæld.