Með yl í hjarta og birtu á brá

Fyrirsögnin er heitið á tónleikum sem feðginin Ólafur Beinteinn og Ingibjörg Aldís óperusöngkona héldu á Höfða í dag. Þau fluttu innlenda og innlenda tónlist auk þess sem Ólafur stýrði hópsöng og sló á létta strengi með harmónikkunni.

 

Íbúar Höfða troðfylltu samkomusalinn og höfðu mikla ánægju af þessum frábæru tónleikum.

 

Orkuveita Reykjavíkur styrkti tónleikana.

 

 

Starfsaldursviðurkenningar – Margrét kvödd

 

Í dag fengu 13 starfsmenn Höfða starfsaldursviðurkenningar.

Þeir voru:

 

Fyrir 5 ára starf:

Guðjón Guðmundsson.

 

Fyrir 10 ára starf:

Ingibjörg Rósa Aðalsteinsdóttir,

Júlíana Karvelsdóttir,

Margrét Rögnvaldsdóttir og Vigdís Jóhannsdóttir.

 

Fyrir 15 ára starf:

Ólöf Auður Böðvarsdóttir og

Ragna Ragnarsdóttir.

 

Fyrir 20 ára starf:

Guðmundína Hallgrímsdóttir,

Hjördís Guðmundsdóttir,

Jóna Björk Guðmundsdóttir og

Sigurbjörg Ragnarsdóttir.

 

Og fyrir 30 ára starf:

Arinbjörg Kristinsdóttir og

Unnur Guðmundsdóttir.

 

Framkvæmdastjóri minnti á mikilvægi stöðugs vinnuafls og sagði að stjórn Höfða vildi með þessum viðurkenningum þakka þessum góðu starfsmönnum tryggð þeirra við Höfða og íbúa heimilisins.

 

Þá kvöddu íbúar og starfsmenn Margréti Þórarinsdóttur sem lét af störfum í mötuneyti Höfða um s.l. áramót. Guðjón rakti farsælan starfsferil Margrétar, þakkaði störf hennar og óskaði henni góðs gengis á ókomnum árum og að hún megi njóta eftirlaunaáranna við góða heilsu og farsæld.

 

 

 

 

Vorferð starfsmanna Höfða

S.l. laugardag fór um helmingur starfsmanna Höfða í árlega vorferð. Að þessu sinni var haldið til Stykkishólms. Þar heimsóttum við sjúkrahúsið þar sem Róbert Jörgensen svæðisstjóri og Hrefna Frímannsdóttir yfirsjúkraþjálfari tóku á móti hópnum, buðu upp á kaffi og tertur, og lýstu starfseminna, einkum bakmeðferð sem sjúkrahúsið sérhæfir sig í.

 

Næst var haldið í Norska húsið og það skoðað með leiðsögn, einnig heimsóttu margir handverkshúsið en síðan var bjórverksmiðjan Mjöður heimsótt. Þar lýsti Gissur Tryggvason framleiðslunni og boðið var upp á smökkun.

 

Loks var snæddur dýrindis kvöldverður í Narfeyrarstofu og heim komu ánægðir ferðalangar upp úr miðnætti.

Framsóknarmenn heimsækja Höfða

 

Frambjóðendur Framsóknarflokksins, Guðmundur Páll Jónsson, Dagný Jónsdóttir og Elsa Arnardóttir heimsóttu Höfða í dag. Þau kynntu stefnumál Framsóknarflokksins í bæjarstjórnarkosningunum n.k. laugardag og ræddu við íbúa og starfsmenn. Með þeim í för var Guðmundur Steingrímsson alþingismaður.

Sjálfstæðismenn í heimsókn

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins, þau Einar Brandsson, Karen Jónsdóttir, Eydís Aðalbjörnsdóttir og Gísli S.Einarsson, heimsóttu Höfða í dag. Þau ræddu við íbúa og starfsmenn og kynntu stefnumál Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórnarkosningunum n.k. laugardag.

Félagsmálaráðherra heimsækir Höfða

 

Árni Páll Árnason félags- og tryggingamálaráðherra heimsótti Höfða í dag. Með honum í för voru Guðbjartur Hannesson alþingismaður og fjórir efstu frambjóðendur á lista Samfylkingarinnar í komandi bæjarstjórnarkosningum þau Sveinn Kristinsson, Hrönn Ríkharðsdóttir, Ingibjörg Valdimarsdóttir og Einar Benediktsson. Gestirnir kynntu sér starfsemi Höfða og ræddu við íbúa og starfsmenn. Helga Atladóttir hjúkrunarforstjóri fylgdi gestunum um húsið, en hún á sæti á framboðslista Samfylkingarinnar.

Tilboð opnuð

Í morgun voru opnuð tilboð í fyrri áfanga stækkunar þjónusturýma, þ.e.a.s. fokhelda byggingu. 3 tilboð bárust:

           

Sjammi ehf.                          kr. 55.945.473

Trésmiðjan Akur ehf.            kr. 59.767.926

Loftorka í Borgarnesi ehf.    kr. 63.408.350

 

Tilboðin verða nú yfirfarin og í framhaldi af því samið við væntanlegan verktaka. Gert er ráð fyrir að verkinu ljúki seint í nóvember.

Höfðingleg gjöf

Sigursteinn Árnason frá Sólmundarhöfða færði Höfða að gjöf sex milljónir króna í gær. Sigursteinn, sem er 94 ára gamall, hefur búið á Höfða s.l. hálft annað ár, en áður átti hann heimili sitt á Sólmundarhöfða frá barnæsku.

Dvalarheimilið Höfði stendur sem kunnugt er á lóð Sólmundarhöfða og dregur nafn sitt af höfðanum.

Stjórn Höfða færir Sigursteini kærar þakkir fyrir þessa höfðinglegu gjöf.

 

Myndbandagerð

Tveir hópar nemenda Grundaskóla hafa síðustu daga fengið aðstöðu á Höfða til að taka upp myndband. Þetta er liður í stærðfræðiverkefni sem þau eru að kynna fyrir yngri nemendum skólans.