Síðasti fundur stjórnar

 

Síðasti fundur stjórnar Dvalarheimilisins Höfða á þessu kjörtímabili var haldinn í gær, en umboð stjórnarinnar rennur út á morgun og ný stjórn verður kosin 15.júní n.k. Anton Ottesen, sem setið hefur í stjórn frá 1982 og áður sem varamaður frá því heimilið tók til starfa 1978, tilkynnti að hann hyrfi nú úr stjórn og var honum þakkað langt og farsælt starf í stjórn Höfða. Anton rifjaði í stuttu máli upp ýmis mál sem upp hafa komið og kvað oft hafa verið erfiðleika í rekstrinum og því ánægjulegt að kveðja núna þegar staða Höfða væri jafn góð og raun ber vitni. Framkvæmdastjóri þakkaði fráfarandi stjórn fyrir ánægjulegt samstarf og Benedikt Jónmundsson formaður þakkaði meðstjórnarmönnum og starfsfólki fyrir vel unnin störf, en hann hefur setið í stjórninni s.l. 12 ár.

 

Á fundinum var lagt fram bréf félags- og tryggingamálaráðherra þar sem hann tilkynnir að hann hafi að fenginni tillögu Framkvæmdasjóðs aldraðra ákveðið að veita Höfða styrk að fjárhæð 113,350 millj.kr. vegna byggingar tíu hjúkrunarrýma til að fækka fjölbýlum á heimilinu. Stjórn Höfða fagnaði afgreiðslu ráðherra.