Höfðabíó

S.l. föstudagskvöld bauð Höfði starfsmönnum, fyrrverandi starfsmönnum og gestum á einkasýningu á kvikmyndinni OKKAR EIGIN OSLÓ í Bíóhöllinni. Um 170 manns mættu á sýninguna og skemmtu sér vel. Í hléi var boðið upp á pizzu og gos.

Góðar gjafir

Í síðustu viku gaf Arion banki Höfða 3 tölvur og tölvuskjái. Einnig gaf  Íslandsbanki tölvuskjá. Fyrr í vetur gaf Sjóvá 3 tölvur. Þessar góðu gjafir hafa nýst Höfða mjög vel og eru gefendum færðar bestu þakkir fyrir góðan hug til heimilisins.

Tilboð opnuð

Í dag voru opnuð tilboð í 2 verk sem boðin voru út fyrr í þessum mánuði. 3 verktakar buðu í seinni áfanga stækkunar þjónustrýma:

Sjammi ehf.                                       kr. 47.873.701

TH ehf.                                              kr. 57.817.956

Trésmiðjan Akur ehf.                         kr. 56.783.976

Trésmiðjan Akur ehf. frávikstilboð  kr. 53.510.683

 

2 verktakar buðu í uppsetningu sjúkrakallkerfis:

Straumnes ehf.                                  kr.   3.073.566

Rafþjónusta Sigurdórs ehf.               kr.   3.785.508

 

Tilboðin verða nú yfirfarin og í framhaldi af því samið við væntanlegan verktaka.

Fækkun á Höfða

Velferðarráðuneytið hefur tilkynnti Höfða að dvalarrýmum verði fækkað um 3 og hjúkrunarrýmum um 2. Íbúar Höfða verða því 73 í stað 78 í dag. Ekki verður vistað í þau herbergi sem losna þar til þessi fækkun hefur náðst.

 

Stjórn Höfða hefur beðið ráðherra að endurskoða þessa ákvörðun í ljósi þess að nýting rýma á Höfða hefur um langt árabil verið 100% og jafnan er langur biðlisti eftir plássi á Höfða. Ennfremur verður starfsemi E-deildar Sjúkrahúss Akraness breytt þannig að þar verða ekki langlegusjúklingar og mun það að sjálfsögðu auka álag á hjúkrunardeild Höfða.

Gleðilegt ár – nýtt nafn

Íbúar, starfsmenn og stjórn Höfða senda lesendum heimasíðunnar bestu kveðjur og óskir um gott og farsælt komandi ár.

 

1.janúar breytist nafn Dvalarheimilisins Höfða í Höfði hjúkrunar- og dvalarheimili. Kennitala verður óbreytt, 500576-0229.

Helgihald um hátíðarnar

Á aðfangadag var Ragnheiður Guðmundsdóttir djákni með helgistund. Þar sungu barnabörn hennar jólasálma við undirleik sonar Ragnheiðar.

 

Á annan jóladag var hátíðarguðsþjónusta. Sr. Eðvarð Ingólfsson predikaði. Kór Akraneskirkju söng við undirleik Sveins Arnars Sæmundssonar stjórnanda kórsins.

 

Í morgun var helgistund djákna. Þar söng kór Saurbæjarprestakalls. Undirleik annaðist kórstjórinn Örn Magnússon.

 

Allar þessar samkomur voru vel sóttar og sköpuðu hátíðarstemningu á Höfða.

 

Jólatónleikar

Feðginin Ingibjörg Aldís og Ólafur Beinteinn Ólafsson héldu tónleika á Höfða í dag. Þau sungu þjóðlög og jólalög og enduðu á Heims um ból og tóku síðan aukalag Ó helga nótt.

 

Ólafur sló á létta strengi og stýrði hópsöng. Íbúar Höfða tóku undir sönginn af  krafti og höfðu mikla ánægju af þessum frábæru tónleikum.

 

Gjöf frá nemendum Grundaskóla

Í dag heimsóttu Höfða tveir nemendur Grundaskóla, Salóme Jónsdóttir og Sverrir Mar Smárason, og færði heimilinu fallega jólaskreytingu gerða af nemendum skólans.

 

Nemendur Grundaskóla hafa lengi haft þann góða sið að heimsækja Höfða fyrir jólin og færa heimilinu  gjafir gerðar af nemendum. Þessir fallegu munir prýða Höfða.

 

Margrét A.Guðmundsdóttir húsmóðir á Höfða veitti gjöfinni viðtöku og þakkaði þessa góðu gjöf og þann hlýhug sem henni fylgir.

 

Tónleikar Grundartangakórsins

 

Grundartangakórinn hélt sína árlegu desembertónleika á Höfða í gær.  Stjórnandi kórsins er Atli Guðlaugsson og einsöngvari Guðlaugur Atlason. Undirleik annaðist Flosi Einarsson.

 

Tónleikarnir voru haldnir við erfiðar aðstæður þar sem samkomusalur Höfða er lokaður vegna framkvæmda. Aðsókn var sérlega góð og var gangurinn frá matsal og að skrifstofu troðfullur af íbúum Höfða og Höfðagrundar sem skemmtu sér konunglega.

 

Grundartangakórinn hefur haldið desembertónleika á Höfða árlega s.l. 27 ár og er kórinn í miklum metum hjá Höfðafólki.