Vel heppnað jólaball

 

Í gær var haldið jólaball á Höfða fyrir íbúa, starfsmenn og afkomendur. Hátt í 300 manns á aldrinum tveggja til hundrað og tveggja ára mættu á ballið og skemmtu sér konunglega. Andrea Guðjónsdóttir söng jólalögin við undirleik Bjórbandsins og tveir jólasveinar komu í heimsókn og færðu börnunum gjafir. Að balli loknu þáðu gestir veitingar í boði Höfða.

 

Þetta er fjölmennasta jólaball sem haldið hefur verið á Höfða og kom sér vel að gott pláss er í nýja Höfðasalnum.

 

Helgihald um hátíðarnar

 

Í morgun var Ragnheiður Guðmundsdóttir djákni með helgistund í Höfðasal þar sem börn hennar og barnabörn sungu jólasálma, en það er árvisst að afkomendur djáknans annast tónlistarflutning á aðfangadag.

 

Á annan í jólum verður hátíðarguðsþjónusta þar sem sr. Eðvarð Ingólfsson predikar og kór Akraneskirkju syngur.

 

Á gamlársdag verður svo helgistund djákna, en þar mun kór Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd syngja.

Jólalögin sungin

 

Í morgun mætti Elísabet Karlsdóttir með gítarinn á hjúkrunardeild Höfða og söng gömlu góðu jólalögin með íbúum. Með henni í för var barnabarnabarn hennar Patrekur Orri Unnarsson sem aðstoðaði ömmu sína við flutninginn. Vel var tekið undir og þakkaði Höfðafólk Elísabetu og Patreki  kærlega fyrir þessa ljúfu stund.

 

Elísabet hefur undanfarna mánuði komið vikulega og sungið með heimilisfólki og eru heimsóknir hennar afar vel þegnar.

Helgileikur

 

Í morgun fluttu nemendur 3.bekkjar Grundaskóla helgileik í Höfðasal. Íbúar Höfða og dagdeildarfólk fjölmenntu og þökkuðu krökkunum með lófataki, en sýningin var mjög vel heppnuð – frábær flutningur krakkanna og flottir búningar.

 

Að sýningu lokinni var flytjendum boðið upp á djús og piparkökur.

Fjölgun á Höfða

Velferðarráðuneytið hefur tilkynnt Höfða að í ljósi fækkunar á öldrunarrúrræðum í Heilbrigðisstofnun Vesturlands verði hjúkrunarrýmum á Höfða fjölgað um 2 frá 1.janúar 2012, en í byrjun árs 2011 var hjúkrunarrýmum fækkað um 2 og dvalarrýmum um 3. Íbúar Höfða verða því 75 frá næstu áramótum.

Aðventusamkoma

 

Í gær var aðventusamkoma á Höfða. Sr. Eðvarð Ingólfsson stjórnaði samkomunni. Ræðumaður var Unnur Arnardóttir sem sagði frá æskujólum sínum í Borgarnesi. Sr. Eðvarð fór með gamanmál. Kór Akraneskirkju söng undir stjórn og undirleik Sveins Arnars Sæmundssonar.

Tónleikar Grundartangakórsins

 

Grundartangakórinn hélt sína árlegu jólatónleika á Höfða í síðustu viku. Stjórnandi kórsins er Atli Guðlaugsson og einsöngvarar Guðlaugur Atlason og Smári Vífilsson. Undirleik annaðist Flosi Einarsson.

 

Að vanda gerði söngur kórsins mikla lukku og var mikið klappað. Guðjón þakkaði kórfélögum komuna og einstaka tryggð og vináttu við íbúa Höfða, en þetta mun vera 29.árið í röð sem kórinn syngur á Höfða og undanfarin ár að jafnaði tvisvar á ári.

Stofnfundur Höfðavina

 

 

Í gær var haldinn félags aðstandenda og velunnara Höfða og hlaut félagið nafnið Höfðavinir. Frumkvæði að stofnun félagsins höfða þær Elín Hanna Kjartansdóttir, Guðrún Gunnarsdóttir og Soffía Magnúsdóttir og stjórnuðu þær fundinum. Samþykkt voru lög fyrir félagið og fyrrnefndar þrjár konur kosnar í stjórn. Í varastjórn voru kosin Valdís Valgarðsdóttir og Guðjón V.Guðjónsson.

 

Kristján Sveinsson formaður stjórnar Höfða færði félaginu að gjöf fundargerðarbók og Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri lýsti ánægju stjórnenda Höfða með stofnun félagsins. Meðal fundarmanna var Árni Múli Jónasson bæjarstjóri.

Laufabrauðsskurður

 

Allmargir íbúar Höfða og dagdeildarfólk tóku þátt í laufabrauðsskurði í dag. Auðséð var á handbragðinu að flestir voru þaulvanir þessari list. Kaffi og konfekt var á borðum og létt yfir fólki við skurðinn.