Höfðingleg gjöf

Nýlega gaf starfsmannafélag sementsverksmiðjunnar Höfða 1 milljón króna. Peningarnir fara í gjafasjóð Höfða, en sjóðurinn veitir fé til kaupa á búnaði og tækjum fyrir Höfða og einnig til skemmtana og dægradvalar heimilisfólks.

 

Smári Kristjánsson afhenti gjöfina við athöfn í sementsverksmiðjunni, en félagið gaf fimm öðrum aðilum rausnarlegar gjafir. Helga Atladóttir formaður stjórnar gjafasjóðs Höfða tók við gjöfinni og færði starfsmönnum verksmiðjunnar kærar þakkir.

Gjöf frá FEBAN

Í morgun færði Þorkell Kristinsson Höfða gjöf frá FEBAN (félagi eldri borgara á Akranesi) 2 sett af innipútti. Er ekki vafi á að íbúar Höfða munu hafa gaman af að stunda innanhússgolf, ekki síst þeir sem hafa stundað golf um áratugaskeið.

Framkvæmdastjóri bað Þorkel að skila kærri kveðju og þakklæti til FEBAN fyrir þessa góðu gjöf.

 

Höfða færðar páskliljur

Í dag færði Kvenfélagið Liljan í Hvalfjarðarsveit Höfða páskaliljur að gjöf. Dúfa Stefánsdóttir afhenti gjöfina. Margrét A.Guðmundóttir tók við liljunum og bað fyrir góðar kveðjur og þakkir til kvenfélagskvenna í sveitinni.

 

Páskaliljurnar munu prýða borðin í matsal Höfða um páskana.

Málað og gróðursett

Einu sinni í mánuði fá íbúar Höfða leiðbeiningar í listmálun. Margir taka þátt í þessu og hafa gaman af.

Undanfarið hafa nokkrir íbúar Höfða undirbúið gróðursetningu í nýju gróðurkassana á lóð Höfða, en þar verða ræktaðir ýmsir garðávextir og kryddjurtir. Greinilegt var að íbúarnir kunnu vel til verka og höfðu fengist við gróðursetningu áður.

 

Vegleg hljóðfæragjöf

Í gær afhenti Hafdís Daníelsdóttir Höfða veglega hljóðfæragjöf, píanó og gítar, til minningar um mann sinn Helga Andrésson sem lést í bílslysi á Kjalarnesi þennan dag fyrir 10 árum. Gjöfin er frá Hafdísi, börnum hennar og barnabörnum og voru þau viðstödd athöfn í tilefni gjafarinnar.

 

Margrét A. Guðmundsdóttir bauð gesti velkomna, Hafdís flutti ávarp og afhenti framkvæmdastjóra fallegan blómvönd, Kristján Sveinsson formaður stjórnar Höfða þakkaði þessa góðu gjöf og minntist starfa Helga fyrir Starfsmannafélag Akraneskaupstaðar, en meirihluti starfsmanna Höfða eru þar félagsmenn.

 

Viðstaddir þessa athöfn voru flestir íbúar Höfða, en að henni lokinni var boðið upp á kaffi og meðlæti. Þar fluttu stutt ávörp Guðjón framkvæmdastjóri og Ragnar Leósson íbúi á Höfða

Höfðagleði 2012

Hin árlega Höfðagleði var haldin s.l. föstudagskvöld. Á Höfðagleði mæta íbúar, starfsmenn, fyrrverandi starfsmenn sem hafa hætt vegna aldurs, læknar og stjórn Höfða, alls um 170 manns.

Boðið var upp á glæsilega þriggja rétta veislumáltíð sem Haukur bryti og hans fólk í eldhúsinu reiddi fram.

Guðjón setti skemmtunina og tilnefndi Anton Ottesen sem veislustjóra. Ásmundur Ólafsson fyrrverandi framkvæmdastjóri flutti hvatningarávarp, Guðrún fótaaðgerðafræðingur og Guðný hárgreiðslukona fluttu létt skemmtiatriði við undirleik Sigríðar Ketilsdóttur, Jóhannes Kristjánsson fór á kostum í gamanmálum og Karlakórinn Pungur söng nokkur lög.

Margrét A.Guðmundsdóttir og Kristján Sveinsson stjórnarformaður stjórnuðu happdrætti þar sem íbúar og starfsmenn fengu góða vinninga í boði Einars Ólafssonar kaupmanns, Kjarnafæðis og Íslensk Ameríska.

Að lokum var dansað við undirleik hljómsveitarinnar Egg og Bacon sem hélt uppi miklu stuði til miðnættis.

Höfðagleðin þótti takast sérlega vel að þessu sinni og voru þátttakendur hæstánægðir með veitingar, skemmtiatriði og músik.

Pilsavika

Starfsfólk Höfða gerir oft eitthvað skemmtilegt í aðdraganda hinnar árlegu Höfðagleði, en hún verður haldin í kvöld. Að þessu sinni var starfsfólk hvatt til að mæta í pilsum í vinnuna þessa viku.

 

Konurnar tóku sig vel út í pilsunum, en ekki tókst að troða neinum þeirra 5 karla sem starfa á Höfða í Skotapils þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir kvennanna.

 

Á myndinni sjást Hildur Bernódusdóttir og Ásta Björk Arngrímsdóttir með Sigurð J.Hauksson umsjónarmann á milli sín.

Oddfellowfélagar heimsækja Höfða

Í kvöld heimsóttu Höfða rúmlega 50 félagar í Oddfellowstúkunni Egill. Guðjón Guðmundsson og Margrét A. Guðmundsdóttir kynntu þeim starfsemi Höfða og svöruðu fyrirspurnum.

 

Guðmundur Jónsson þakkaði fyrir hönd gestanna fyrir góðar móttökur og færði Gjafasjóði Höfða peningaupphæð að gjöf. Helga Atladóttir formaður stjórnar sjóðsins veitti gjöfinni viðtöku.

Ljósmyndasýning

S.l. föstudag var opnuð á Höfða sýning á ljósmyndum hjónanna Helgu Guðmundsdóttur og Inga Steinars Gunnlaugssonar. Alls sýna þau um 80 myndir, flestar af fuglum en einnig mannamyndir, landslagsmyndir og listrænar myndir eftir Helgu sem hún nefnir Litaleik.

 

Við opnunina ávarpaði Guðjón Guðmundsson gesti, Ingi Steinar sagði frá ljósmyndaferli þeirra hjóna og Valgerður Jónsdóttir söng nokkur lög við undirleik Þórðar Sævarssonar.

 

Mikil aðsókn var að opnuninni og var Höfðasalurinn troðfullur. Mikil hrifning var af myndum þeirra hjóna og óhætt að segja að sýningin hafi slegið í gegn. Sýningin verður á Höfða til 20.mars.